Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:54:47 (6059)



     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil áminna hv. 5. þm. Austurl. um að fara rétt með. Ég man ekki til að ég hafi látið þau orð falla hér í umræðum að ég vildi engar breytingar á starfsemi Skipaútgerðar ríkisins en ég var andvígur því að leggja hana niður, það er rétt. En ég hef ekki lýst því yfir að Framsfl., og þar á meðal ég, væri ánægður með að verja 300 millj. á ári til þessara flutninga. Ég hef viljað hafa þessa upphæð sem lægsta án þess að fella niður styrki til þessara flutninga. Það hélt ég að mönnum væri alveg fullljóst. Ég hélt að ég þyrfti ekki að deila um það úr þessum ræðustól.
    Hv. 5. þm. Austurl. talaði um að verja því fé sem losnaði til einhverra annarra þarfa fyrir landsbyggðina. Ég lýsi eftir því til hvaða atvinnuuppbyggingar þetta fé ætti að fara. Ég hef ekki heyrt að það eigi að fara til sérstakrar uppbyggingar fyrir landsbyggðina og lýsi eftir því, ef þær hugmyndir eru á kreiki í stjórnarliðinu, hvernig þessum sparnaði á að verja. Ég vona að hv. 5. þm. Austurl. upplýsi mig um það með hvaða hætti þessir peningar eigi að fara til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.