Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:57:00 (6060)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var nú ekki svo, þegar síðasta ríkisstjórn skildi við, að peningar væru í sjóði eða pokum og biðu þess að verða útdeilt. Þvert á móti hefur ríkissjóður verið rekinn með miklum halla og þær 300 millj. sem við erum að reyna að spara árlega með því að leggja niður Skipaútgerð ríkisins koma auðvitað fram í því að halli á ríkissjóði verður minni og helst enginn. En þessir peningar bíða hvergi í skotum né annars staðar eftir því að þeim sé eytt.
    Hitt er aftur merkilegur málflutningur hjá hv. þm. að það sé markmið í sjálfu sér að styrkja sjóflutninga í gegnum eina opinbera stofnun í staðinn fyrir að viðurkenna, eins og rétt er, að sú breyting að Skipaútgerð ríkisins hefur hætt rekstri hefur ekki haft það í för með sér að þjónusta versni eða verð almennt á flutningum hækki. Það er kjarni málsins.
    Það er rétt sem hv. þm. segir að það er ekki haldið uppi reglum um siglingar frá Austurlandi til Norðurlands. Það er á hinn bóginn jafnrétt að Sæfari, sem er það skip sem haldið er uppi til Grímseyjar, hefur tök á því að fara einu sinni í viku á Austurlandshafnir frá Eyjafirði ef talið yrði að það þjónaði þörfum atvinnulífsins á þessu svæði. Ekki hafa komið fram óskir um það en auðvitað er svigrúm til þess.
    Þegar talað er um að ekki sé veitt fé til sjóflutninga vil ég líka minna á það að flóabátar eins og Fagranesið hafa haldið uppi flutningum og samgöngum milli Vestfjarðahafna með hráefni og annað og auðvitað geta aðrir flóabátar gert slíkt. Það er því engan veginn hægt að halda því fram að ekki sé varið fé til þess að þjónusta þá staði sem afskekktir eru.
    Ég vil í annan stað taka fram að ég er mjög áhugasamur um að hægt sé að bæta samgöngur á landi milli Norður- og Austurlands.
    Að síðustu, hæstv. forseti, vil ég taka fram að reynt er að útvega því fólki vinnu, sem missti atvinnu þegar Skipaútgerð ríkisins var lögð niður, en það hefur ekki gengið nógu vel. Um helmingur er enn án atvinnu. En ég veit ekki betur en samgrn., í samráði við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, hafi skrifað bréf til stórra fyrirtækja og stofnana til að reyna að greiða úr vanda þessa fólks.