Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 15:33:00 (6069)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er á dagskrá frv. til laga um brottfall laga um Skipaútgerð ríkisins, nr. 40/1967. Nú er það svo að vissulega vinnum við að lagahreinsun af og til en það er nokkuð stór stabbi og hefur verið unninn í sérstakri nefnd og þess vegna vekur þetta fyrst og fremst þá spurningu hvort ríkislögmaður líti svo á að það sé nauðsyn að nema þessi lög úr gildi af einhverjum þeim ástæðum sem ráðherra hefur ekki gert grein fyrir og að þeirri stöðu fenginni, ef slík yfirlýsing lægi fyrir að það væri eitthvað sem þrengdi að ráðherranum, væri rétt að það kæmi fram. En ég lít svo á að þau lög, sem eru í gildi séu, ef þau eru grannt skoðuð, nánast heimildarlög til ráðherrans til þess að standa að sjóflutningum og það er mjög skýrt ákvæði í grein þessara laga ef þau eru skoðuð. Með leyfi forseta, þá hljóðar 1. gr. svo:
    ,,Skipaútgerð ríkisins, sem hóf starfsemi sína árið 1929, skal framvegis starfa undir yfirstjórn ráðherra samkvæmt ákvæðum þessara laga.``
    Það eru heimildir jafnt til þess að selja skip sem kaupa í þessum lögum og þess vegna fæ ég ekki séð að það sé neitt sem ýtir á eftir því að lögin séu látin falla úr gildi. Ég skoðaði það í vetur og mat það svo að miðað við þær fjárveitingar, sem Alþingi hefði ákveðið til Skipaútgerðarinnar, þá lægi það ljóst fyrir að það væri ekki hægt að hafa starfsemi hennar óbreytta og jafnframt af þeirri ástæðu væri ráðherra það ekki aðeins heimilt að gera ráðstafanir heldur væri hann beinlínis skyldugur til þess. Þess vegna er mér ekki ljóst hvað rekur á eftir að fara í þá lagasmíði sem hér er verið að tala um einfaldlega vegna þess að ég sé ekkert athugavert við það þó að lögin haldi gildi sínu, stjórnarnefndin sitji áfram og fylgist með því sem verið er að taka ákvarðanir um varðandi eignir Skipaútgerðar ríkisins. Það hlýtur að vera miklu skynsamlegra að það sé eftirlitsaðili sem fylgist með því hvar þar er verið að vinna heldur en að eignirnar þær hinar smærri nánast týnist í fljótfærnislegri yfirtöku, hvort heldur það væri fjmrn. eða annarra aðila, á þeim reytum sem þar eru.
    Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að þessi aðgerð að leggja til að lögin séu felld úr gildi sé tímaskekkja. Annaðhvort hefði átt að leggja þetta til áður en farið var í þær aðgerðir sem þar er um að ræða eða að það er engin nauðsyn að gera þetta fyrr en eftir að búið er að taka þær ákvarðanir að hægt væri að segja sem svo að ráðherra flytti þinginu skýrslu annars vegar um það sem hefði orðið að eigum félagsins og hins vegar hvernig standa ætti að úrlausn þeirra mála sem vissulega eru enn til staðar. Ekki þýðir að loka augunum fyrir því að þjónusta við suma staði er alls ekki tryggð og verður ekki tryggð með frjálsri samkeppni.
    Mér er það fullkomlega ljóst að í skipasamgöngum á Íslandi hefur ríkt það flutningafrelsi að enginn hefur haft einokun á að sigla til Ísafjarðar og þjóna strandflutningum eins og t.d. flugfélag hefur á aðalleiðum með fólk og þess vegna má segja sem svo að þegar þrír aðilar eru kannski farnir að sigla á þennan stað spyr maður sjálfan sig hvort hagkvæmni yrði ekki meiri ef flutningsaðilum yrði fækkað. Ég hef þess vegna horft á það sem nokkð eðlilegan hlut að um leið og við næðum auknum árangri í því að tengja landið saman með vegagerð þá væri fyrirsjáanleg versnandi afkoma hjá þeim aðila sem sæi um strandflutninga og væri skyldugur til þess að sinna öllum hinum smærri stöðum en hinir stærri staðir væru jafnt og þétt að detta upp fyrir.
    Ég verð aftur á móti að segja það að í því skæklatogi um peninga sem ávallt á sér stað á milli ráðherra þá hef ég lengi vitað að hæstv. samgrh. lætur ekki hlut sinn fyrr en í fulla hnefana. Maðurinn er harðgerður og ég hef bundið við það vonir að hann fengi vígsbætur, ef svo mætti komast að orði, og næði vopnum sínum í því að eitthvað af þeim fjármunum, sem Skipaútgerð ríkisins hefur óneitanlega fengið, fengist til þess að hraða aðgerðum í vegamálum. Þá er ég að tala um lántökur og að framlagið yrði til þess að greiða niður afborganir og vexti. Hæstv. ráðherra er fullkunnugt um hvaða aðstæður skapast í þessum efnum. Samgöngur á milli Norðurlands og Austurlands stórversna flutningalega séð. Hæstv. ráðherra hefur vissulega haft það á orði og vakið athygli á að kæmi þarna inn sem verulegt vandamál gagnvart ýmsum fyrirtækjum sem hafa átt þar viðskipti sín á milli.
    Á Vestfjörðum blasir það við, eins og fram hefur komið, að búið er að taka ákvörðun um mjög stórar aðgerðir, jarðgöng á Vestfjörðum, sem munu tryggja að Vestur-Ísafjarðarsýsla og Norður-Ísafjarðarsýsla verða tengdar saman með eðlilegum hætti árið um kring. Það er út af fyrir sig staðreynd að þetta gerist þó ekki í reynd fyrr en 1995 en ákvörðunin hefur vissulega aukið mönnum bjartsýni og gerir menn hæfari til að þreyja þorrann og góuna og þess vegna má segja sem svo að við vestra bæði fögnum því en lýsum jafnframt ótta okkar yfir öðrum hlutum. Sérstaklega urðu mér það vonbrigði og ég verð að segja mikil vonbrigði þegar ég áttaði mig á því að þær hugmyndir, sem ég hafði um lágmarksaðgerðir á Hálfdáni til að tryggja að hægt væri að sinna þar samgöngum allan ársins hring með vöruflutningabíl frá Patreksfirði, verða ekki framkvæmdar og það sem ætlunin er að fara í dugar ekki. Það er ekki farið upp á fjallið, það er vissulega farið upp fyrir verstu beygjuna ( Gripið fram í: Olíubeygjuna?) já, það má kalla það olíubeygjuna ef við tengjum það nútímasögu, og ég heyri að hæstv. ráðherra kannast við þá hluti, og vissulega losna menn við Katrínuhornið en það þarf að fara upp að skýli. Það eru alveg hreinar línur. Annað er ekki ásættanleg niðurstaða en að vegarkaflinn upp að skýlinu verði tekinn í einu lagi.
    Varðandi Árneshrepp á Ströndum er í fyrsta skipti núna um nokkurt skeið svo að einhverju nemur verið að fara í vegaframkvæmdir á leiðinni frá Kaldrananeshreppi í Árneshrepp og er það út af fyrir sig góðra gjalda vert. Mér er aftur á móti ljóst að vonlaust er annað en það verði sjóflutningar áfram í Árneshrepp. Það er hugsanlega hægt að leysa það í gegnum þann lið á fjárlögum sem heitir Flóabátar og vetrarsamgöngur. En það er líka óleyst dæmi og ég vænti þess að ráðherra, eins og fram hefur komið áður, muni fylgjast grannt með því hvað gerist í þeim samgöngumálum þannig að þar verði gripið inn í ef öngþveiti skapast. Vissulega sigla Samskip þangað í dag en ferðir eru náttúrlega mjög strjálar, enda er ekki um mikinn flutning að ræða.
    Ég get ekki látið hjá líða að undirstrika það að ríkissjóður Íslands skuldar minna hlutfallslega en ríkissjóðir EB-landa gera og mættu þeir margt af okkur framsóknarmönnum læra í þeim efnum. Sérstaklega hefði þó verið hollt fyrir forseta Bandaríkjanna, Reagan, að átta sig á því að það gengur ekki endalaust að eyða og afla ekki fjár á móti, (Gripið fram í.) Ronald Reagan. Ég hygg að hæstv. ráðherra sé þetta ljóst.
    Það gengur þess vegna ekki að ætla að berja á mönnum með því að hér sé það ástand að ekki sé svigrúm til að taka á í samgöngumálunum og ég ætla ráðherra það hlutverk að toga til baka þá fjármuni, sem eru að tapast frá Vegagerðinni og þá fjármuni sem hafa tapast frá sjóflutningunum, inn í samgöngugeirann til að halda þarna jafnvægi. Það er vissulega verið að greiða niður verðbólguna á Íslandi í dag með því að lækka framlög til vegamála. Það vantar mikið á að sú skattheimta sé nýtt sem heimilt er varðandi gjaldtöku af bensíni. Við horfum á það að víða loka stuttir vegakaflar leiðum í lengri tíma. Það er t.d. kaldhæðni örlaganna að á Steingrímsfjarðarheiði eru tveir örstuttir kaflar, annar sennilega um 100 metrar á lengd og hinn 200--250 metrar, sem loka þessari heiði. Við spyrjum okkur: Var það hönnunargalli í upphafi? Eða er ekki um annað að ræða en að byggja þarna sérstakan vetrarveg eða þá hækka þann veg sem nú er? En það er ekki bara þarna sem maður sér á þetta. Þetta er víða og þess vegna er það mjög brýnt að reyna að ná vopnum sínum í því að knýja á um það að sú ákvörðun að leggja niður Skipaútgerð ríkisins kallar á það að vissum áherslum verði breytt varðandi áætlun í vegagerð og að menn hafi þrek til að taka þar fé að láni til að flýta vissum framkvæmdum.
    Mér er ljóst að í tímans rás verður alltaf að taka nýjar ákvarðanir og vissulega hygg ég að það hafi ekki dulist neinum að það þurfti að fara í aðgerðir varðandi Skipaútgerð ríkisins. Hvort þær voru á þann veg sem hér hefur verið gert eða ekki er yfir höfuð of seint að deila um. Það er of seint að deila um það.

Hins vegar, eins og ég sagði áðan, þarf að sameina kraftana í þeirri sókn að við náum vopnum okkar og getum náð þeim áföngum í vegakerfinu að viðunandi ástand sé. Þar eru stórir kaflar eftir, stór átök eftir. Það er verið að gera stór átök, ég viðurkenni það, en það eru stór átök eftir og þeim þarf að hraða vegna þess, og það er ekkert launungarmál, að þessir sjóflutningar komu mörgum til að una við það samgöngunet sem var. En í dag horfa menn á það sem staðreynd að þeir sitja eftir og þurfa að fá betri aðstöðu til að tengjast samgöngum á landi.
    En ef eitthvað kemur fram og sannar að það sé alger nauðsyn að afgreiða þetta mál nú, þá vil ég gjarnan fá að heyra það en mér vitanlega getur það ekki verið forgangsverkefni að gefa út dánarvottorð þegar búið er að grafa. Það er búið að moka yfir Skipaútgerð ríkisins og þá er spurning: Á hvaða forsendum heimta menn nú dánarvottorðið, einn, tveir þrír? Ég vil gjarnan fá að sjá uppgjör á því dánarbúi fyrst þannig hefur verið að verki staðið og tel eðlilegt að stjórnarnefndin fái að starfa áfram. Ég veit ekki til þess að ráðherra ætli að fela eitt eða neitt í þessum efnum og af þeirri ástæðu telji hann betra að vera einn í ráðum. Hann hefur haft við hana bærilegt samband og þess vegna sé ég ekki að á þeim stutta tíma sem eftir er af þessu þingi þegar margt er að vinna sé það yfir höfuð nauðsynlegt að fara í þá lagahreinsun sem hér er verið að leggja til miðað við það að búið er að taka þessar ákvarðanir. Þetta eru undarlegar ákvarðanir, um það verður ekki deilt og þær voru teknar bæði af Alþingi og framkvæmdarvaldinu. Þær voru teknar af Alþingi með þeim ákvörðunum sem voru teknar við fjárlög og þær voru teknar af framkvæmdarvaldinu með þeim ákvörðunum sem ráðherra tók eftir þeim heimildum sem hann hafði í fjárlögum.