Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 15:56:13 (6071)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :

    Herra forseti. Eftir minni: Askja hefur verið seld á 71 millj. kr., hlutabréf fyrir 8 millj., lausafé fyrir 57,5 millj., að frádregnum virðisaukaskatti. Esja og Hekla hafa verið leigðar með kauprétti og skemma er óseld en áætlað söluverð hennar um 100 millj. kr. Það er auðvitað sjálfsagt að sú nefnd sem fær málið til meðferðar fái nákvæmar upplýsingar um hvernig þessi mál standa. Ég hef ekki fylgst með því frá degi til dags. Ég vil jafnframt láta þess getið að reikningur Skipaútgerðar fyrir sl. ár verður senn tilbúinn og auðvitað verða allar upplýsingar, sem óskað er eftir, látnar nefndinni í té.
    Spurt var jafnframt um það hvert eignir Skipaútgerðarinnar renni þegar búið verði að leggja hana niður. Þá verður eftir venjuleg eignaumsýsla og uppgjör Skipaútgerðar. Af þeim sökum er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að heimild sé til að nokkrir menn vinni áfram að störfum að Skipaútgerðinni og sú eignaumsýsla sem þá verður eftir verður auðvitað unnin af fjmrn., geri ég ráð fyrir, og eignir renna í ríkissjóð.