Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 15:58:33 (6073)




     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef greinilega mismælt mig áðan. Ég hélt að öllum þingmönnum væri kunnugt að þegar ríkisstofnun er lögð niður eða ríkisstofnun selur eignir þá renna eignirnar í ríkissjóð, það er svo. Ég ætlaði mér að segja, að ég teldi líklegt að eftir að öllu starfsfólki Skipaútgerðar hefur verið sagt upp og það lagt niður vinnu muni sú eignaumsýsla sem eftir verður verða í höndum fjmrn. en ekki samgrn.
    Í ákvæði til bráðabirgða stendur: ,,Ráðherra er heimilt að fresta því að leggja niður þær stöður sem nauðsyn krefur í tengslum við lokauppgjör Skipaútgerðar ríkisins.`` Og það er gert ráð fyrir því að það taki einhverja mánuði að ljúka endanlegu uppgjöri og er búist við því að það geti gerst nú í júlí eða ágúst eða eitthvað svoleiðis. Ég skal ekki segja um það upp á dag, en sú eignaumsýsla sem eftir verður verður sennilega í höndum fjmrn. Eignirnar renna hins vegar í ríkissjóð.