Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 15:59:44 (6074)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér nægir þetta svar ekki. Ég held að það hljóti að þurfa að vera í lagatextanum að eignir og skuldir fyrirtækisins verði gerðar upp og síðan renni afgangurinn ef einhver er til ríkissjóðs. Annað er ekki við hæfi vegna þess að ég treysti því hreinlega ekki að þannig verði málum háttað, einkum þar sem þessi mjög svo óljósi texti er í fjárlögum fyrir árið 1992, þar sem segir að arðurinn af sölunni skuli fara til að reka fyrirtækið á meðan það varir og kosta eignauppgjör eða sölu og þetta er náttúrlega svo galopið að það er engin leið að sætta sig við að ekki sé betur frá þessu gengið í lagatextanum.