Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 16:09:20 (6077)


     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Herra forseti. Að blanda fyrirtæki úti í bæ inn í þessa umræðu. Aumingja Eimskip. Það er nú bara orðið lítið fyrirtæki úti í bæ sem ekki má nefna í þessu húsi, hvað þá í öðrum húsum. Ég held að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað neinu af þeim fáu orðum sem ég lét mig hafa að segja. Ég held að það sé hægt að tala við starfsmenn bæði í núverandi Samskip og þá sem áttu það áður en það var endurskipulagt og sameinað Skipaútgerðinni. Ég held að þeir muni allir staðfesta að mín orð séu rétt eða líklegri en hin sem hæstv. ráðherra lét sér um munn fara og ég tek auðvitað ekkert aftur af því að það var ekki áhugamál ráðherrans í upphafi í öllu falli að Samskip mundi eignast neitt af þessum eignum heldur einhverjir aðrir. Við skulum bara segja það. Einhverjir aðrir og hverjir voru þá líklegir kaupendur hér innan lands? Það er ekki einkavæðing sem mér sýnist um og ég mundi berjast fyrir ef hún á að leiða til einokunar. Það er ekki einkavæðing sem er til heilla. Þá vil ég heldur einhvers konar eftirlit ríkisins en það sé alger einokun bæði í innanlandssiglingum og millilandasiglingum. Það væri hið versta.