Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 16:12:03 (6079)



     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nýta mér þennan rétt til að greiða fyrir þingstörfum eins og ævinlega er viðleitni mín í þessum sal. En ég vil að loknum orðum hæstv. ráðherra ítreka og beina því sérstaklega til ráðherra að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að tryggja sem kostur er samgöngur til afskekktari staða. Það er ljóst eftir ræðu hæstv. fjmrh. að svo er ekki. Þessi mál eru í algeru uppnámi á þó nokkrum stöðum úti á landi og ég skora á hæstv. ráðherra að láta nú hendur standa fram úr ermum til þess að vinna að því að tryggja hagsmuni þessara staða sem eru í uppnámi og verða sumir hverjir án reglulegra samgangna innan skamms tíma.
    Mér þykir og þótti yfirlýsingar hv. 4. þm. Reykv. mjög athyglisverðar. Ég efast ekki um að sá ágæti þingmaður, sem hefur staðgóða þekkingu á þessum málum og er jafnframt í sama flokki og hæstv. ráðherra, hefur ágæta þekkingu á málum og talar af þeirri vitneskju að við sem á þetta hlýðum hljótum að taka rækilega eftir þegar hann minnist á hvert hugur ráðherra hefði að hans mati staðið, þ.e. að koma málinu undir Eimskipafélag Íslands. Það kom jafnframt fram í máli hv. 4. þm. Reykv. að hann hefði beitt sér fyrir því að skipa svo málum að fremur færu þessi mál undir Samskip en Eimskip. Það er greinilegt að árangur hefur orðið af viðleitni þingmannsins og ég vil þakka honum fyrir hans framlag í þessum efnum.