Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 16:15:44 (6081)



     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er kannski ekki að undra þótt okkur hv. þm. finnist þetta mál ekki trúverðugt á neinn hátt og ég held að hæstv. ráðherra sé ekki alveg með þetta mál á hreinu heldur. Fyrst af öllu vil ég ítreka það sem ég var áðan að segja um þetta frv. og tilbúning þess. Í ákvæði til bráðabirgða segir að þegar búið er að samþykkja að leggja Skipaútgerð ríkisins niður sé ráðherra heimilt að fresta því að leggja niður þær stöður sem nauðsyn krefur í tengslum við lokauppgjör Skipaútgerðar ríkisins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Eiga þeir menn að skrifa undir fyrir hönd Skipaútgerðar ríkisins á pappíra varðandi það uppgjör eftir að búið er að leggja Skipaútgerð ríkisins niður? Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi og ekki frágangur á lagafrv. sem er hægt að sætta sig við. Mér þætti fróðlegt að vita hverjum hæstv. ráðherra ætlar að fela að ganga frá eignum fyrirtækisins í umboði fyrirtækis sem ekki er til. Það hlýtur þá að vera, og ég vil að hæstv. ráðherra svari því, að þeir starfsmenn sem verða eftir hjá fyrirtæki sem er búið að leggja niður vinni í umboði einhvers annars, annaðhvort hæstv. samgrh. eða fjmrn. Þá vil ég bara spyrja: Treystir ekki hæstv. samgrh. starfsmönnum fjmrn. til að ganga frá þessum málum? Til hvers að láta menn vera áfram að vinna að uppgjöri og fela það starfsmönnum Skipaútgerðar ríkisins? Það liggur auðvitað beint við að fela starfsmönnum fjmrn. að ganga frá slíkum málum.
    En vegna þeirra orðaskipta sem hér hafa orðið verður okkur kannski ekki láð þó að við trúum ekki hverju sem er þegar þetta mál er annars vegar. Ég vil minna á umræður sem áttu sér stað 16. jan. sl. þegar hæstv. ráðherra hélt fram í þingsölum að það væri verið að ræða um sölu á þessu góða fyrirtæki, Skipaútgerð ríkisins og talaði eins og mál væru á undirbúningsstigi. Ráðherra sagði, með leyfi hæstv. forseta, síðla dags 16. jan.:
    ,,Í fyrsta lagi skýrði ég frá því áðan að samningur milli Samskipa og ríkisins væri til tæknilegrar yfirferðar í fjmrn. Það stóð svo á þegar ég fór hingað inn í salinn. Hvort þeirri tæknilegu yfirferð er lokið er mér ókunnugt. Samningurinn er óundirskrifaður.`` --- Síðan fóru menn heim í kvöldmat. Ég sé að ég hef kvatt mér hljóðs þegar komið var úr kvöldmatnum og vitna þá í frétt í Ríkisútvarpinu sem var sjálfsagt sannleikur þá en ég sé að eru ósannindi núna og skal koma að því síður. Þar vitna ég í viðtal við Ómar Jóhannsson, framkvæmdastjóra Samskipa, sem ,,staðfesti skömmu fyrir fréttir að öll meginatriði varðandi kaupin væru í höfn. Hann sagði að reyndar væru örfá smáatriði ófrágengin en þau ættu ekki að geta sett strik í reikninginn. Samskip taka við Esjunni þann 1. febr. Verðið fæst ekki uppgefið að svo stöddu.`` Síðan segir: ,,Ómar Jóhannsson sagði að strandferðaskipið Hekla hafi verið nefnt í þessu sambandi en ekki þriðja skip Ríkisskipa, Askja.`` Nú kemur reyndar í ljós að Hekla var ekki seld heldur var Askja seld en ég veit ekki hvenær það gerðist. Alla vega stendur ekki steinn yfir steini í upplýsingum um þetta mál.
    Það er ekki undarlegt þó að það veki athygli okkar að árið 1990 eru greiddar með þessu fyrirtæki í dráttarvexti, skuldaskil við Ríkisábyrgðasjóð og ríkissjóð um hálfur milljarður. Ég minntist á það áðan að það hefði kannski ekki verið svo vel við fyrirtækið gert ef ljóst hefði verið að það kæmist í annarra hendur strax árið eftir. En það sem vekur kannski meiri athygli er að söluverð eigna þessa fyrirtækis verður harla lítilvægt þegar litið er til þessara talna. 71 millj. fyrir Öskju. Það væri gaman að vita hvað á að greiða það á löngum tíma. Ég hef skrifað hjá mér 57,5 millj. ef ég mætti spyrja hæstv. ráðherra sem hlýtur að muna það sem hann sagði áðan ( Landbrh.: Nei.) ( Gripið fram í: Lausafjármunir.) Lausafjármunir, var það það? Þá er þetta ekki nema liðlega 200 millj. og manni finnst þetta greinilega hafa farið á tiltölulega góðu verði. Það er því afar erfitt að henda reiður á þessu máli.
    Ég geri ekki ráð fyrir að ég fái nein svör um fjárreiður þessa fyrirtækis. Ég vænti þess að það sé rétt hjá ráðherra að um það verði lögð fram gögn innan tíðar. En ég vil enn fá svar við því í hvers umboði þeir starfsmenn, sem áfram vinna að uppgjöri við Eimskip og Samskip, vinna þegar fyrirtækið er ekki lengur til. Þá er varla hægt að undirskrifa pappíra í þess nafni. Ég vil þá vita hvort þessir ágætu starfsmenn, sem eiga að skipta við kaupendur, eru starfsmenn samgrn., fjmrn. eða einhvers annars.