Evrópskt efnahagssvæði og staða kvenna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 17:10:52 (6087)


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu þáltill. flutt af kvennalistakonum um Evrópskt efnahagssvæði og stöðu kvenna sem ég er fylgjandi. Sannleikurinn er sá að þessi mál hafa verið ákaflega lítið skoðuð hér á landi út frá sjónarhóli kvenna eða hvernig þetta samstarf komi til með að virka á þær. Það hefur hins vegar nokkuð verið skoðað hjá okkar nágrannaþjóðum en hér er það þó helst Kvennalistinn sem hefur sinnt því eitthvað að velta þessu fyrir sér.
    Það eru eflaust einhverjir sem munu segja að það þurfi ekki að gaumgæfa þessa hluti út frá þessum sjónarhóli. Það sem komi konum illa, það komi körlum líka illa og svo öfugt og það er kannski nokkuð til í því. En þar sem hallar á konur á svo mörgum sviðum og við eigum langt í land með að skapa jafnrétti í heiminum á milli karla og kvenna og þó að alltaf miði svo sem í rétta átt hvað það snertir, þá finnst mér mjög eðlilegt að þessu máli sé velt fyrir sér sem gert er í þessari till.
    Því miður hafa þær konur sem virkilega hafa fengið aðstöðu til þess að stíga stóru skrefin fram á við í málefnum kvenna ekki alltaf notað þau tækifæri og má t.d. benda á Margréti Thatcher í því sambandi. Hún á t.d. að hafa sagt um félagsmálasáttmála EB, sem ekki hefur enn þá fengið lögbindingu og það er ágreiningur um það m.a. hvort lögfesta eigi frekari tillögur um jafna stöðu karla og kvenna, að það þurfi ekki að setja neinar lagasetningar sem tryggi konum betri stöðu. ,,Konur geta það sem þær vilja, lítið bara á mig`` er sagt að járnfrúin hafi þá sagt.
    Það hefur verið komið aðeins inn á athuganir Norðmanna á þessu málefni og það má í stuttu máli segja að norska kvennahreyfingin er andvíg aðild Norðmanna að EES og EB og telur hana óhagstæða séð frá sjónarhóli kvenna. Þær segja m.a. að konur séu yfirgnæfandi í láglaunastörfum svo sem hinum ýmsu þjónustustörfum. Velferðarkerfið muni að öllum líkindum breyta um eðli með aðild að EES. Það sé staðreynd að forgangsmál kvenna séu önnur en karla. Í svokallaðri sýniskýrslu sem notuð var til grundvallar þegar línur voru lagðar fyrir hinn sameiginlega markað kemur m.a. í ljós að til skamms tíma mun störfum á hinum innri markaði fækka um 500--600 þús. en til lengri tíma litið, þegar markaðurinn er búinn að aðlaga sig, muni störfum fjölga. Þetta vil ég taka fram sérstaklega vegna orða hv. 4. þm. Austurl. áðan þar sem hann talaði um að störfum muni fækka. Eftir því sem ég hef lesið er álitið að þeim muni svo aftur fjölga og þessi niðurstaða sýniskýrslunnar byggir á því að hreyfanleiki vinnuafls aukist og sömuleiðis neysla almennt. Norska kvennahreyfingin telur að samdráttur í sköttum og tollum muni draga úr tekjum hins opinbera og breyta grundvallarfélagsmálastefnu í aðildarlöndum EES og þetta telur hreyfingin að sé mikilvægt fyrir konur að gera sér grein fyrir því að það séu þær sem þurfa mest á velferðarkerfinu að halda og er nokkuð til í því, ólaunaðir EB-borgarar, t.d. heimavinnandi húsmæður, njóti ekki góðs af jafnréttisskilmálum eða félagslegum öryggisventlum Evrópubandalagsins.
    Það er ljóst að það var ekki mikið getið um félagsmál í stofnsáttmála Evrópubandalagsins og hagsmunir launamanna voru ekki til umræðu. En það er fyrst með tilkomu áforma um innri markað að skriður komst á umræðu um hlutskipti launafólks á landsvæðum þar sem hagræðingarátakið og gjaldþrot smáfyrirtækja mundi leiða til stórfellds atvinnuleysis. Framkvæmdastjórnin gaf út drög að félagsmálasáttmála í maí 1989 sem ég nefndi áðan og félagsmálasáttmáli EB segir um jafnrétti kvenna og karla: ,,Jafnrétti kvenna og karla verður að tryggja og jöfnum tækifærum til handa konum og körlum verður að koma á.`` Þetta eru fögur orð sem því miður hafa ekki fengist staðfest sem sönn framkvæmdaáætlun. En Evrópubandalagið hefur þó sett af stað þrjár framkvæmdaáætlanir á sviði jafnréttismála til að þrýsta á um skipanir um þessi mál og að þeim verði framfylgt í aðildarríkjum bandalagsins. Auk þess hefur framkvæmdanefnd EB komið af stað ýmsum verkefnum með það að markmiði að bæta stöðu kvenna og gera þeim betur kleift að aðlaga sig að vinnumarkaðinum. Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hefur ýtt úr vör ýmsum verkefnum með það að markmiði að bæta stöðu kvenna. Má þar t.d. nefna NOW-áætlunina sem hefur fengið þó nokkuð miklar fjárveitingar til framkvæmda í kvenna- og jafnréttismálum og þrýstihópur um málefni kvenna hefur verið settur á laggirnar sem er sjálfsagt einhvers konar ,,lobbyismi`` sem hafður er uppi þarna hjá aðalstöðvunum.
    Mig langar líka í þessu sambandi, hæstv. forseti, að nefna örfáar tölur um áhrif kvenna innan stjórnsýslu Evrópubandalagsins. Ég er reyndar ekki með alveg nýjar tölur. Ég veit ekki hvort það hafa orðið einhverjar breytingar á þarna upp á síðkastið en eftir þeim tölum sem ég hef þá er ástandið ekki of bjart og ekki hagstætt konum. Það hafa tvær konur verið fulltrúar í framkvæmdastjórn síðan 1989. Um 70% þeirra lægst launuðu innan regluveldis Evrópubandalagsins eru konur. Helmingur ritara og aðstoðarmanna eru konur og 9% af fulltrúum framkvæmdarvaldsins innan húss eru konur og 5% af skrifstofustjórum eru konur.
    Ráðherraráðið, sem fer með löggjafarvaldið innan EB, er samansett, eins og kannski allir vita, af ráðherrum viðkomandi aðildarlanda þannig að það er kannski ekki hægt að kenna EB um að ekki sitja fleiri konur í ráðherraráðinu en raun ber vitni þar sem það kemur til af ráðherrafjölda viðkomandi landa.
    Það er svo af dómstólnum að segja að hann samanstendur af 13 dómurum sem ríkisstjórnir aðildarlandanna tilnefna til sex ára í senn og enn sem komið er veit ég ekki til þess að nokkurt EB-land hafi tilnefnt konu í dómstólinn. En svo er það EB-þingið sem er lýðræðislegt og valið til í viðkomandi löndum og þar eru um 18% konur.
    Hæstv. forseti. Ég hef víst lokið mínum tíma. En ég vil að síðustu segja það að ég held að það sé gagnlegt að þessi mál verði skoðuð og styð því þessa tillögu sem um ræðir.