Náttúrufræðistofnun Íslands

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 17:21:00 (6090)

     Frsm. umhvn. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur sem er á þskj. 794 og fyrir brtt. við frv. í fimm töluliðum á þskj. 795.
    Frv. þetta markar allmiklar nýjungar að því er varðar uppbyggingu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Setur stofnunarinnar geta orðið fimm talsins, eitt í hverjum landsfjórðungi auk setursins í Reykjavík. Með þessum hætti er lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að hlúa að náttúruvísindum sem víðast á landinu. Setur Náttúrufræðistofnunar Íslands munu í fyllingu tímans auka skilning þjóðarinnar á náttúru Íslands, efla tilfinningu almennings fyrir gildi umhverfisins og styrkja tengsl almennings við land sitt.
    Viðbrögð við þessari nýjung voru almennt mjög jákvæð við 1. umr. um frv. Það kom einnig fram í umsögnum margra aðila um frv. að við þessa skipan mála eru bundnar allmiklar væntingar. Í nokkrum umsögnum um frv. gætir nokkurs kvíða vegna þess að það gerir ekki ráð fyrir sterkri miðstofnun og þó einkum vegna þess að með slíku fyrirkomulagi óttast menn að samskipti Náttúrufræðistofnunar Íslands við stjórnvöld og erlenda aðila gætu orðið torvelduð.
    Náttúrufræðistofnun Íslands er í eðli sínu rannsóknastofnun. Hún er öðru fremur akademísk stofnun. Hún stendur því ekki í daglegum rekstri sínum mjög nærri Stjórnarráðinu. Með setrum sínum færir Náttúrufræðistofnun Íslands, eins og hún er upp byggð í frv., sig nær verkefni sínu. Hún nálgast rannsóknavettvanginn og skapar með umsvifum sínum og upplýsingastarfsemi frjóan jarðveg fyrir aukinn skilning á gildi náttúrurannsókna og þekkingar á umhverfinu. Með nútímatækni eru samskipti við stjórnvöld og samskipti milli setra orðin mjög auðveld. Nú þegar hefur Náttúrufræðistofnun Norðurlands tekið að sér ákveðin svið náttúrurannsókna sem Náttúrufræðistofnun Íslands sinnir af þeim sökum mjög takmarkað. Þessi sérhæfing byggist á samstarfi og á notkun tækni sem er stöðluð, bæði fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands eins og hún starfar nú og fyrir Náttúrufræðistofnun Norðurlands án þess að um nein stjórnunarleg tengsl sé að ræða milli þessara tveggja stofnana.
    Þá er einnig rétt að geta þess að Náttúrufræðistofnun Norðurlands annast erlend tengsl á sínu sérsviði milligöngulaust án þess að það hafi komið að sök.
    Frv. gerir ráð fyrir því að stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands verði fyrst um sinn skipuð þremur mönnum og þar af tveimur tilnefndum af stofnuninni sjálfri. Með fjölgun setra verður hlutur þeirra meiri í stjórn stofnunarinnar. Er þetta eðlilegt þegar tekið er tillit til þess akademíska rannsóknarhlutverks sem stofnunin hefur með höndum og með samanburði við aðrar slíkar stofnanir sem hér starfa. Rétt er að geta þess sérstaklega að nefndin sem samdi frv. leit ekki á það sem hlutverk sitt að fjalla um málefni náttúrurannsókna almennt. Slíkar rannsóknir eru stundaðar af mörgum stofnunum og fellur það undir verksvið Vísindaráðs samkvæmt lögum að semja langtímaáætlanir um þróun þeirra rannsókna. Frv. er því takmarkað við

málefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa og með því er ekki takmarkað verksvið annarra rannsóknastofnana. Í 4. gr. frv. er kveðið sérstaklega á um það að stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands skuli gæta samráðs við Náttúruverndarráð, Vísindaráð og Rannsóknaráð og stuðla að sem bestu samstarfi við aðrar rannsóknastofnanir.
    Í umsögn bæjarstjórnar Vestmannaeyja og menningarmálanefndar Vestmannaeyjabæjar er óskað eftir því að menntmn. felli inn í frv. ákvæði um Náttúrustofu Suðurlands og síðar setur og verði það staðsett í Vestmannaeyjum. Er það gert með tilliti til bráðabirgðaákvæðis frv. þar sem kveðið er á um stofnun seturs Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri við gildistöku laganna.
    Enn fremur segir í ákvæðinu að að því skuli unnið í samvinnu við heimamenn að koma á fót náttúrustofu á Austurlandi eigi síðar en í ársbyrjun 1993 og á Suðurlandi eigi síðar en í ársbyrjun 1994. Með ákvæðinu er þannig mótuð stefna um notkun heimilda frv. varðandi setur Náttúrufræðistofnunar Íslands á Norðurlandi og um náttúrustofur í tveimur kjördæmum. Í athugasemd með bráðabirgðaákvæðinu er því slegið föstu að frá 1. jan. 1993 verði notuð heimild til að stofna náttúrustofu fyrir Norðurland á Akureyri, fyrir Austurland í Neskaupstað ári síðar og með hliðstæðum hætti 1995 fyrir Suðurland án þess að staðsetning þeirrar stofu sé tilgreind í athugasemdinni.
    Umhvn. Alþingis hefur fullan skilning á erindi Vestmannaeyjabæjar og metur mikils sérstöðu Náttúrugripa- og fiskasafnsins í Vestmannaeyjum og þá rannsóknastarfsemi sem þar hefur nú þegar farið fram. Hins vegar telur nefndin ekki rétt að kveða á um það hvar náttúrustofa verði staðsett á Suðurlandi. Nauðsynlegt er að innan landsfjórðungsins fari fram umræða um staðsetningu náttúrustofu og að á þeim vettvangi verði mótaðar hugmyndir þar að lútandi. Slík vinna hefur þegar verið unnin á Norðurlandi á vegum Fjórðungssambands Norðurlands og á Austurlandi hefur verið víðtækt samstarf um safnamál allt frá árinu 1972 þegar stofnuð var Safnastofnun Austurlands á vegum Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Um leið var kveðið á um staðsetningu og sérhæfingu einstakra safna og er Náttúrugripasafnið í Neskaupstað m.a. hluti af þeirri heildarskipan. Á vegum safnsins hafa farið fram margháttaðar rannsóknir í fjórðungnum.
    Í umhvn. urðu allmiklar umræður um það hvernig tryggja mætti í lögum að Náttúrufræðistofnun Íslands yrði óháð hagsmunatengdum aðilum án þess þó að stofnuninni yrði gert óhægt um vik að veita viðtöku fjárframlögum, styrkjum eða gjöfum frá einstaklingum eða öðrum aðilum sem ekki teljast hagsmunatengdir. Enn fremur var rætt um hvort tekið skyldi fram í frv. að ráðherra skæri úr ágreiningi um túlkun þess hver teljist hagsmunatengdur stofnuninni og hver ekki.
    Í 2. gr. frv. segir: ,,Náttúrufræðistofnun Íslands er í eigu íslenska ríkisins. Hún er óháð hagsmunatengdum aðilum og þiggur ekki af þeim framlög eða gjafir.``
    Í umsögn um 2. gr. segir hins vegar: ,,Kveðið er á um að stofninin sé óháð hagsmunatengdum aðilum og þiggi ekki af þeim framlög eða gjafir. Ákvæðið vísar til þess að stofnunin sem rannsókna- og umsagnaraðili til stjórnvalda gangist hvorki beint né óbeint undir kvaðir með því að veita viðtöku gjöfum frá framkvæmdaaðilum eða fyrirtækjum sem gætu átt sitt undir umsögn stofnunarinnar. Hins vegar er stofnuninni heimilt að veita viðtöku fjárframlögum, vísindastyrkjum, vísindalegum eintökum og náttúrugripum frá einstaklingum eða öðrum sem ekki verða taldir til hagsmunatengdra aðila. Rísi ágreiningur um túlkun þessa ákvæðis sker ráðherra úr.``
    Við vinnu nefndarinnar þótti rétt að í nýrri grein yrðu ítarleg ákvæði um tengsl Náttúrufræðistofnunar við hagsmunaaðila sem og aðra. Skýrt verði kveðið á um að stofnuninni verði heimilt að framkvæma rannsóknir gegn greiðslu sem falla undir verkefnasvið hennar. Einnig er lagt til að kveðið verði á um það í lagatextanum sjálfum en ekki einungis í skýringum með frv. að stofnunin geti veitt viðtöku gjöfum frá þeim sem ekki eru hagsmunatengdir henni. Lagt er til að ákvæði síðari málsl. 2. gr. frv., um að Náttúrufræðistofnun eigi að vera óháð hagsmunatengdum aðilum, verði 1. málsl. síðari mgr. hinnar nýju greinar. Þá telur nefndin einnig nauðsynlegt að kveða á um það í lagatextanum að umhvrh. skeri úr ágreiningi um það hvort sá, sem vill færa Náttúrufræðistofnun gjöf, sé hagsmunatengdur stofnuninni eða ekki og geri því tillögu þar um.
    Önnur breyting sem nefndin leggur til er að ráðherra geti heimilað stofnun seturs að fenginni umsögn stjórnar Náttúrufræðistofnunar í stað þess að hann sé bundinn tilmælum stjórnarinnar, sbr. 3. gr. frv.
    Að lokum leggur nefndin til að gildistaka laganna verði 1. jan. 1993. Með því gefst ráðrúm til nauðsynlegs undirbúnings vegna nýs fyrirkomulags stofnunarinnar.
    Þessi atriði, sem eru lausleg lýsing á starfi nefndarinnar umfram það sem kemur fram í brtt. og í nál.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem tillaga er gerð um á þskj. 795. Þess ber að geta að einn nefndarmanna í umhvn., hv. 3. þm. Reykn., skrifar undir skjalið með fyrirvara.