Almenn hegningarlög

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 17:45:00 (6101)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli með fyrir nál. frá meiri hluta allshn. um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 1940, sem er 58. mál þessa þings á þskj. 59. Nál. er á þskj. 826 og meðflylgjandi brtt. á þskj. 827.
    Aðdragandi þessa frv. sem liggur fyrir er sá að þegar nauðgunarmálanefnd, sem svo hefur verið nefnd, skilaði skýrslu sinni í nóvember 1988 var meðal tillagna nefndarinnar frv. til laga um breytingar á 194.--199. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af þeim breytingum sem komu fram í frv. nefndarinnar og því að á Alþingi vorið 1988 var frv. er ég flutti um breytingu á 202. og 203. gr. almennra hegningarlaga vísað til ríkisstjórnarinnar ákvað þáv. dómsmrh. að láta endurskoða aðrar gr. XXII.kafla hegningarlaganna áður en frv. nefndarinnar yrði lagt fyrir Alþingi. Jónatan Þórmundsson prófessor vann það verk í samvinnu við Þorstein A. Jónsson, deildarstjóra í dómsmrn.
    Frv. það sem er til umræðu er heildarendurskoðun á XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot.
    Á þeim 50 árum, sem hegningarlögin hafa verið í gildi, hafa orðið verulegar viðhorfsbreytingar til þeirra verknaða sem í þessum kafla hegningarlaganna er fjallað um og tekur frv. mið af þeim. Veigamestu breytingarnar sem í frv. eru frá gildandi lögum eru:
    1. Öll ákvæði kaflans eru gerð ókynbundin, sem þýðir að bæði karlar og konur geta verið þolendur verknaða. Samkvæmt gildandi lögum eru nauðgun og fleiri brot samkvæmt lögunum kynbundin sem þýðir að einungis konur njóta refsiverndar og karlar einir geta verið gerendur. Þótt þessi brot bitni í flestum tilfellum eingöngu á konum er ekki ástæða til að ætla að víðtækari refsivernd raski á nokkurn hátt réttarstöðu kvenna.
    2. Refsivernd er verulega aukin því að önnur kynferðismök eru lögð að jöfnu við samræði þegar metið er hvort brot hafi verið framið. Með öðrum kynferðismökum er átt við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju sem kemur í stað hefðbundins samræðis eða hefur gildi sem slíkt. Þ.e. þetta eru verknaðir sem almennt eru til þess fallnir að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu.
    3. Í frv. eru ný ákvæði um kynferðislega áreitni. Er þar átt við ýmiss konar káf, þukl og annars konar líkamlega snertingu og ljósmyndun af kynferðislegum toga.
    4. Afnumin eru sérákvæði um kynferðisbrot samkynhneigðra. Þar sem ákvæði kaflans eru ókynbundin þýðir þetta að hugsanleg brot samkynhneigðra falla nú undir viðeigandi greinar kaflans.
    Frv. þetta er nú lagt fyrir Alþingi í fjórða sinn en það hefur aldrei verið afgreitt úr nefnd.
    Allshn. hefur fjallað ítarlega um frv. Fjölmargar athugasemdir og ábendingar bárust nefndinni. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hún flytur á þskj. 827 og ég mun nú gera nánari grein fyrir.
    Í 2., 3., 4., 6. og 7. gr. frumvarpsins er notað orðið ,,manneskja`` yfir þann sem verður fyrir broti. Meiri hluti allsherjarnefndar telur að þetta orð fari illa í lagatexta og leggur til að í þess stað komið orðið ,,maður``, sem samkvæmt íslenskri málvenju tekur bæði til kven- og karlmanns. Af þessari breytingu leiðir að í nokkrum tilvikum þarf að auki að breyta kyni á orðum svo sem fram kemur í breytingartillögunni.
    Í 2. gr. frv. eru lagðar til veigamiklar breytingar á nauðgunarákvæði hegningarlaganna. Þær helstu er að lagt er til að ákvæðið verði tvískipt þannig að í 1. mgr. komi almennt ákvæði án refsilágmarks og með 10 ára refsihámarki, og í 2. mgr. refsihækkunarákvæði með 1 árs lágmarksrefsingu og 16 ára hámarksrefsingu.
    Auk þessarar breytingar felur ákvæðið í sér rýmkun á nauðgunarskilgreiningunni á þann hátt eins og áður er fram komið að önnur kynferðismök eru lögð að jöfnu við samræði og að auk beinnar valdbeitingar tekur ákvæðið nú til allra refsiverðra ofbeldishótana og ekki er lengur áskilið að þessar hótanir veki ótta um líf, heilbrigði og velferð.
    Allsherjarnefnd telur þessar síðari breytingar á nauðgunarákvæðinu mjög til bóta. En m.a. með hliðsjón af þeim athugasemdum sem borist hafa varðandi þá tvískiptingu ákvæðisins, sem ég rakti, telur nefndin ástæðu til að óttast að ef fallist verði á ákvæði frv. óbreytt verði það túlkað á þann veg að refsingar fyrir nauðganir verði vægari en nú er, en ekki er að því stefnt.
    Vegna þessa leggur allsherjarnefnd til að greininni verði breytt á þann veg að í 1. mgr. falli brott orðin ,,allt að 10 árum`` og í þeirra stað komi: ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum, sem þýðir að á ný er tekið upp 1 árs refsilágmark fyrir nauðgun og refsihámarkið verði 16 ára fangelsi. Af þessari breytingu leiðir að 2. mgr. er felld brott.
    Þá þykir mér rétt að minnast á þann útbreidda misskilning að refsivernd nauðgunarákvæðisins nái ekki til þeirra sem eru í hjónabandi eða sambúð og því þurfi að taka upp í greinina pósitívt ákvæði þar að lútandi. Ákvæði þessa kafla hegningarlaganna taka til þeirra sem eru í hjónabandi eða sambúð nema annað sé tekið fram.
    Í þessu sambandi má þó m.a. geta þess að í 4. gr. frv. er fjallað um það þegar menn notfæra sér geðveiki eða aðra andlega annmarka manns til þess að eiga við hann samræði eða önnur kynferðismök eða notfæra sér það að öðru leyti að viðkomandi geti ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Í þessari grein nær refsiverndin þó ekki til þeirra sem eru í hjúskap eða óvígðri sambúð. Allshn. leggur til að refsiverndin nái einnig til þeirra sem eru í hjúskap eða óvígðri sambúð ef þeirri misneytingu er beitt sem greinin fjallar um og er þetta lagt til vegna þeirrar veiku stöðu sem þessir aðilar almennt eru í. Ljóst er þó að í mörgum tilfellum getur verið um erfiða sönnunarstöðu að ræða.
    Þá leggur allshn. til að úr 5. gr. frv. verði felld orðin ,,eða vistkonu``. Það er hefð fyrir því í íslenskri löggjöf að orðið vistmaður á stofnun taki til beggja kynja.
    Í 6. gr. frv. er fjallað um það þegar menn misnota freklega þá aðstöðu að nokkur er þeim háður fjárhagslega eða í atvinnu sinni í þeim tilgangi að eiga samfarir eða önnur kynferðismök við viðkomandi.
    Í hegingarlögum eru ekki ákvæði um það þegar menn sem komast í trúnaðarsamband við mann vegna starfa sinna misnota þá aðstöðu til samræðis eða annarra kynferðismaka. Allshn. telur ástæðu til að taka upp í hegningarlögin slíkt ákvæði og leggur til að 6. gr. frv. verði breytt á þann veg að auk þeirra atriða sem talin eru upp í 6. gr. verði bætt við hana þeim tilvikum þegar viðkomandi er ,,skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi``. Er hér meðal annars átt við þau tilvik ef læknir eða aðrar heilbrigðisstéttir eða sálfræðingar misnota samband sitt við sjúkling, prestur við syrgjanda, kennari við nemanda, yfirmaður gagnvart undirmanni o.s.frv. með þeim hætti sem í greininni segir. Þar sem viss hætta þykir á misnotkun þessa ákvæðis, sem ber vissulega að varast, þykir rétt að hafa það innan 6. gr. frv. sem kveður m.a. á um freklega misnotkun á aðstöðu.
    Í 8.--10. gr. frv. eru ákvæði um kynferðislega áreitni gagnvart börnum. Í frv. eru ekki sambærileg ákvæði um kynferðislega áreitni gagnvart fullorðnum. Að svo stöddu þykir ekki rétt að taka upp almennt ákvæði um kynferðislega áreitni almennt, en allshn. leggur til að í 6. gr. frv. verði tekið upp ákvæði

um kynferðislega áreitni ef önnur skilyrði greinarinnar eru uppfyllt.
    Í 8. gr. frv. eru flutt úr 190. gr. laganna ákvæði um sifjaspell, þar sem þau ákvæði þykja betur eiga heima í þeim kafla laganna sem fjallar um kynferðisbrot almennt þar sem þessi brot eru oft tengd öðrum kynferðisbrotum.
    Í 9. gr. frv. eru ákvæði um kynferðisbrot gagnvart kjörbörnum, stjúpbörnum og öðrum börnum sem eru í sambærilegri stöðu. Samkvæmt frv. er mismunandi refsihámark eftir því hvort um blóðbönd er að ræða eða ekki. Allshn. telur að ekki sé ástæða til að hafa þennan greinarmun og leggur því til að refsihámark 9. gr. verði fært til samræmis við það sem er í 8. gr., þannig að þessi börn njóti öll sömu refsiverndar.
    Í 1. mgr. 10. gr. frv. er fjallað um þau tilvik þegar maður á samræði eða önnur kynferðismök við börn yngri en 14 ára og þar er lagt til að refsihámark verði lækkað úr 12 árum frá gildandi lögum. Lagt er til að refsirammi í 10. gr. verði hækkaður aftur til samræmis við ákvæði núgildandi laga. Nefndarmönnum þykir hætta á því að sú lækkun refsiramma sem í frumvarpinu felst verði túlkuð með þeim hætti að ekki verði litið jafnalvarlega á þessi brot og áður.
    Lögð er til breyting á 11. gr. vegna þess að tilvísun til andlegs ástands á ekki lengur við þar sem greinin vísar ekki lengur til 195. gr. eins og í gildandi lögum, sbr. 4. gr. frv.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar við 13. gr., sem fjallar um vændi. Í fyrsta lagi er núverandi 1. mgr. skipt upp í tvær málsgreinar. Í 1. mgr. verði refsiákvæði um þá sem stunda vændi sér til framfærslu og að refsihámark þar verði tveggja ára fangelsi, en það er óbreytt frá núgildandi ákvæðum í 181. gr. hegningarlaga. Lagt er til að í 2. mgr. verði flutt það ákvæði 1. mgr. að hafa atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra. Er það gert til að samræmi verði um refsihámark fyrir þau brot er greinir í 2.--4. mgr. Í öðru lagi er lagt til að núverandi 2. mgr. verði breytt til samræmis við brtt. við 1. mgr., þ.e. að í stað orðalagsins að ,,hafa ofan af fyrir sér`` komi að ,,hafa viðurværi sitt af``. Í þriðja lagi er 3. mgr. breytt á þann veg að lagt er að jöfnu að stuðla að því að nokkur maður flytjist til landsins og frá því í því skyni að hafa viðurværi sitt af lauslæti. Jafnframt eru gerðar sömu orðalagsbreytingar og í 2. mgr. Innflutningur er ekki síður mikilvægur en útflutningur í þessu sambandi.
    Allmiklar umræður áttu sér stað í nefndinni um ákvæði 1. mgr. 13. gr. frv. Varð meiri hluti nefndarmanna sammála um að ekki bæri að afnema þau viðurlög úr hegningarlögum sem nú gilda um vændi, sem atvinnugrein, né heldur að auka refsingu við því. Benda má á að þótt lítt muni e.t.v. reyna á þetta ákvæði þá hafa hegningarlög afar mikilvægu hlutverki að gegna, sem eru varnaðaráhrif út í þjóðfélagið.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið við að mæla fyrir meirihlutaákvæði allshn.
    Fulltrúi Kvennalistans í nefndinni skilaði minnihlutaáliti um ákveðin atriði en að öðru leyti styðja þær frumvarpið í heild sinni.
    Þar sem hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, sem snertir ekki síst hagsmuni barna og unglinga, er það von okkar nefndarmanna að frumvarp þetta hljóti góða afgreiðslu á hinu háa Alþingi og verði sem fyrst að lögum.