Almenn hegningarlög

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 18:08:48 (6104)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Sá fyrirvari sem ég hef varðandi undirskrift á nál. er fyrst og fremst almenns eðlis. Ég hef þann skilning að sé það ekki tekið fram í nál. að einstakir flm. áskilji sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. bindi ég hendur mínar um of og hef því kosið við þær aðstæður að hafa fyrirvara án þess að það sé þó sjálfgefið að um efnislegan ágreining sé að ræða. En ég vildi viðhalda þessari skoðun minni eins og hef gert, held ég, fyrr í vetur.
    Um frv. vil ég almennt segja að eins og það lítur út, að teknu tilliti til brtt. nefndarinnar sem ég styð, þá er ég orðinn allvel sáttur við það og ýmis nýmæli sem eru löngu orðin tímabær og þörf. Framsögumaður hefur gert grein fyrir þeim öllum. Þar má t.d. nefna að lögin eru nú ókynbundin, ef orða má svo. Tekið er inn ákvæði um misneytingu trúnaðarsambands, ákvæði um kynferðislega áreitni og þannig mætti fleira telja sem ég tel ákaflega þýðingarmikið að fá inn í löggjöf.
    Ég hef einnig nokkuð aðrar áherslur varðandi þær greinar sem fjalla um vændi án þess þó að ég vilji flytja brtt. en ég vildi gjarnan láta koma fram mínar hugrenningar í þeim efnum. Ef við gefum okkur að refsivert sé að hafa framfærslu af vændi þá er ég þeirrar skoðunar að það sé rökrétt og eðlilegt að það sé líka refsivert að kaupa það. Rökin fyrir því að hafa greinar inni um að vændi sé refsivert við ákveðnar aðstæður --- en menn verða að athuga að vændi er almennt ekki refsivert --- sem eru þær þegar menn hafa framfærslu sína af því eru einkum varnaðaráhrif, skilaboð til þjóðfélagsins um hug löggjafarvaldsins til verknaðarins. Auðvitað er ákaflega erfitt að sanna fyrir dómi hvenær einhver tiltekinn einstaklingur hefur framfærslu eða framfæri sitt af þessum starfa. En ég held að með sömu rökum ættu menn að íhuga þá skoðun hvort ákvæði um að refsivert sé að kaupa vændi hefði ekki sömu varnaðaráhrifin úti í þjóðfélaginu og hitt. Ég hallast fremur að þeirri skoðun og tel að menn ættu að velta þessu fyrir sér án þess þó að ég vilji gera þetta að neinu ágreiningsefni við afgreiðslu málsins nú eða flytja um það tillögu.
    Ég vil aðeins benda líka á að það er nauðsynlegt varðandi 9. gr. frv. að lesa hjúskaparlögin með hliðsjón af henni ef samþykkt verður. Fyrst við erum líka með til umfjöllunar í sömu nefnd frv. til hjúskaparlaga þá verðum við að muna eftir því í þeirri yfirferð, þegar við göngum frá 10. gr. frv. til hjúskaparlaga, að taka mið af því og líta á það sem samþykkt hefur verið í þessu frv., einkum 9. gr. frv.
    Hvað varðar þann ágreining sem minni hlutinn gerir um málfar, hvort nota beri orðið manneskja eða maður, þá er ég þeirrar skoðunar að betur fari á að nota orðið maður. Ég hef lýst þeirri skoðun minni í nefndinni. Mér finnst orðið manneskja vera ósköp flatneskjulegt og hálfóviðkunnanlegt orð í lagatexta. Auk þess er orðið maður þrátt fyrir það að vera karlkyns algengt orð og merkingin ljós og ég bendi á að lokum að orð eins og Kvennalisti er einnig karlkyns.