Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 18:39:00 (6109)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það sem mér er efst í huga núna þegar umræðan um Lánasjóð ísl. námsmanna er sennilega komin á síðari stig er hugarfarið sem liggur að baki tillagna sjálfstæðismanna og alþýðuflokksmanna sem borist hafa í málinu frá upphafi og allt fram á þennan dag. Það var kannski ekki við góðu að búast þegar litið er á þann hóp sem upphaflega samdi frv. og litlar líkur á að hann geti endurspeglað skoðanir þjóðarinnar allrar, allra stétta á því hvernig þetta félagslega kerfi þjónaði best þeim sem mest þurfa á slíku kerfi að halda. Það hefði hins vegar mátt ætla að hér á hv. Alþingi kæmi þau sjónarmið inn í umræðuna, ekki bara hjá stjórnarandstæðingum heldur einnig hjá þingmönnum stjórnarflokkanna, ekki síst þegar það er haft í huga að annar flokkurinn kallar sig flokk allra stétta og hinn jafnaðarmannaflokk Íslands.
    Ég hafði það sterklega á tilfinningunni eftir að ég hafði hlýtt á ræðu hæstv. menntmrh. í gær að hann væri ekki að breyta lögum Lánasjóðs ísl. námsmanna fyrst og fremst vegna fjárhagsástæðna sjóðsins heldur vegna þess að hann er á móti því að viðhalda félagslegri aðstoð við námsmenn í svo ríkum mæli sem verið hefur og hann líður það ekki að námsmenn fái lán á meðan þeir eru í vinnu sem nám vissulega er heldur eigi þeir einungis að fá lán ef vinnan skilar árangri.
    Eins og ég sagði í minni fyrri ræðu þá væri eflaust langæskilegast að allir næðu prófum. En hitt er staðreynd að ýmsir falla og það meira að segja án þess að vera skussar og án þess að hafa slegið slöku við. Sumar deildir setja ströng takmörk um fjölda sem skal halda áfram námi og því er fall í sjálfu sér ekki í beinum tengslum við gáfnafar og ástundun.
    Það hefur verið litið svo á að námslán séu framfærslulán. Til þess að svo geti áfram verið er frumskilyrði að áfram verði um mánaðarlegar greiðslur að ræða en ekki tekið upp það fyrirkomulag sem nú liggur fyrir að gert verði, þ.e. að lán verði greidd eftir á einu sinni eða tvisvar á ári. Staðreyndin er nefnilega sú að áhrif eftirágreiðslukerfisins á fjárhag sjóðsins eru ekki eins mikil í reynd eins og reynt hefur verið að láta í skína af hálfu hæstv. ráðherra og af hálfu stjórnarsinna.
    Í útvarpsfréttum þann 5. þessa mánaðar var viðtal við formann Lánasjóðs ísl. námsmanna, Gunnar Birgisson. Þar gerir hann mikið úr þessu vandamáli og því miður eru ýmsar fullyrðingar fréttamannsins nokkuð litaðar og spurningar leiðandi. Í þessu viðtali er aðalfréttin sú að yfir helmingur námsmanna hafi vanmetið tekjur sínar og því fengið hærri námslán en þeir áttu rétt á. Ég bið hv. þm. að taka eftir því, hærri námslán en þeir áttu rétt á. Þetta er það sem landsmenn heyra og skilja sem svo að þeir hafi tekið hærri lán en þeir hafi átt rétt á. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir fá lánin fyrr en þeir áttu rétt á og á þessu er nú mikill munur.
    Í þessum fréttum er verið að tala um skólaárið 1990--1991 og kom fram hjá fréttamanninum að haustlán hafi verið 350--400 millj. umfram það sem námsmenn höfðu rétt til. Hér í umræðunni hefur komið fram að í lok skólaárs hafi 50 millj. enn verið ofgreiddar en nú hafa komið fram upplýsingar sem ég tel mjög mikilvægar sem eru þær að í lok ársins 1991 voru aðeins liðlega 8 millj. eftir af þeirri upphæð. Þetta er samt ekki eins og hlutirnir eiga að vera, það skal ég viðurkenna, enda hafði sjóðstjórnin tekið á þessu máli með eins konar refsiálagi sem er 5% á þá upphæð sem skeikar á milli áætlaðra tekna og rauntekna en enn þá liggur ekki fyrir niðurstaða í því hvaða áhrif þetta refsiálag hefur. Mér finnst þess vegna að það mætti hækka þetta refsiálag verulega og þannig taka á þessu máli en ekki fara þá leið sem stjórnarflokkarnir fara og vilja fara að refsa öllum námsmönnum með því að leggja niður það form að lánin geti talist framfærslulán, þ.e. mánaðarlegar greiðslur. Það er ekkert auðvelt að segja til um það í ágúst upp á krónu hvað sumartekjurnar verða miklar og auðvitað verða námsmenn að giska á það að einhverju leyti. Ef engin refsing er við því að áætla of háar tekjur, þá hafa námsmenn töluna eflaust frekar í hærri kantinum og einhverjir allt of háa og eru greinilega að misnota kerfið og á slíku þarf að taka, enda hafa námsmenn einmitt haldið því fram sjálfir að það eigi að taka á þeim sem greinilega vilja misnota þetta kerfi og í rúmlega 8.000 manna hópi eru alltaf einhverjir svartir sauðir. En þegar talað er um í þessu tilfelli að yfir helmingur námsmanna hafi vanáætlað tekjur sínar árið 1990--1991, þá eru allir taldir með, líka þeir sem vanáætluðu tekjur um 100 kr. þannig að það er kannski ekki skrýtið að það sé hægt að komast þarna upp

í háa upphæð, í háa tölu eða mikinn fjölda námsmanna. Ef þetta er aðalástæða þess að eftirágreiðslukerfið er tekið upp þá sýnist mér að hæstv. ráðherra sé á enn meiri villigötum en ég hafði áður gert mér grein fyrir. Á svona vandamálum tekur maður með refsiálagi sem er það hátt að það skiptir máli og það er til viðvörunar og það er til að hræða eða forðast misnotkun.
    Ég hef farið hérna nokkuð yfir aðra ástæðu þess að lagt er til að lán greiðist eftir á eða a.m.k. formlega er talað um sem ástæðu en mér heyrðist satt að segja eins og ég nefndi áðan í ræðu hæstv. ráðherra hér í gær að það væri ekki fyrst og fremst verið að hugsa um að bæta fjárhag sjóðsins. Hin ástæðan er sú að þeir sem falla eru á lánum á þeim tíma sem þeir eru að lesa undir það próf sem þeir síðan ekki ná.
    Eins og allir vita eru lögin þannig í dag að fyrsta árs nemar fá ekki lán fyrr en þeir hafa sýnt fram á árangur. Þetta finnst öllum eðlilegt eða ég hef ekki heyrt annað þar sem fyrsta missirið sker oft úr um það hvort nemanda er alvara með það að ætla sér í langskólanám eða ekki, enda sýnir það sig að það eru margir sem átta sig á því strax á fyrsta missiri að þeir eru ekki á réttri leið og eigi betur heima á öðrum vettvangi.
    Sá sem lengra er kominn og fellur heldur oftast áfram námi og er þá ekki á lánum á því tímabili þar til hann hefur næst sýnt árangur. Þetta finnst mér að skipti miklu máli að hér komi fram og finnst að hafi ekki komið nægilega skýrt fram í umræðunni.
    Ég viðraði þá hugmynd í minni fyrri ræðu að vel mætti hugsa sér að einhvern veginn yrði tekið á málum þeirra nemanda, sem ekki ná að skila árangri í annarri tilraun, á alvarlegan hátt eða tekið hart á slíkum tilfellum. En aðalatriðið í mínum huga er það að refsa ekki öllum fyrir einhvern takmarkaðan fjölda sem misnota sjóðinn. Talsmenn námsmanna hafa sagt það opinberlega að það verði að taka á vandamálunum sem séu til en einmitt ekki að refsa öllum fjöldanum.
    Eitt af því sem hæstv. ráðherra lét mjög skilja á sínu máli sl. þriðjudag var að ef þetta frv. yrði ekki að lögum þá yrði brátt enginn lánasjóður til og ég spyr bara: Hvers konar hótanir eru þetta, hæstv. ráðherra? Hvaða menntmrh. hefur nokkru sinni dottið í hug að láta að því liggja að menningarsamfélag, eins og við Íslendingar viljum svo sannarlega geta kallað okkar þjóðfélag, geti komist upp með það að lána ekki til námsmanna? ( Menntmrh.: Þá þurfa að vera til peningar.) Það er spurning hvernig peningum er varið, hæstv. ráðherra.
    Eitt af því sem kom fram í þessu umrædda útvarpsviðtali sem ég vitnaði til áðan við formann lánasjóðsins, var það að verið væri að ræða við bankakerfið um að það láni námsmönnum þar til þeir fái lánin sín og það er ljóst að það verður einhver aukinn vaxtakostnaður vegna þess arna, sagði formaðurinn í þessu viðtali. Og þá sagði hann enn fremur, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnin er að ræða það hvernig verður brugðist við því hvernig námsmönnum verður bætt það upp.`` Þá spyr fréttamaðurinn: ,,Er hugsanlegt að þeir fái þá örlítið hærra lán til að mæta þessum vaxtakostnaði?`` Formaðurinn svarar: ,,Já, það er hugsanlegt.``
    Sl. þriðjudag kom það einnig fram í ræðu hæstv. ráðherra að námsmönnum verði lánað fyrir vöxtunum að auki. Það kallaði hæstv. ráðherra að námsmenn þurfi ekki að bera vaxtakostnaðinn óbættan. Ég ætla ekki að fara út langar textaskýringar á þessari fullyrðingu ráðherrans en málskilningur minn segir mér að það að bera eitthvað óbætt þýði að viðkomandi þurfi að bera það að fullu en að þurfa ekki að bera eitthvað óbætt þýði að viðkomandi þurfi ekki að bera að fullu. Mér finnst skýring ráðherrans sú að það yrði lánað fyrir vöxtunum alls ekki í samræmi við þau orð að námsmenn þyrftu ekki að bera vaxtakostnaðinn að fullu. Lán eru lán sem þarf að greiða til baka og með því að greiða þau til baka verðtryggð eru þau greidd til baka. Á það legg ég áherslu.
    Þá er ég komin að þeirri hugmyndafræði sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og hefur komið fram í umræðu um lánasjóðinn og kemur fram í upphaflegu skýrslunni sem samin var af nefnd ráðherrans. Það er sem sagt sú hugmyndafræði að í raun séu 3 / 4 af lánunum styrkur eins og kerfið er í dag. En þetta er eflaust hugmyndafræði kapítalistanna en sú viðmiðunin er fráleit af því að hún gerir ráð fyrir að námsmenn tækju lán í bankakerfinu ef enginn lánasjóður væri til og þannig eru borin saman við kjör námsmanna lán á fullum vöxtum eins og þau tíðkast í bankakerfinu á Íslandi.
    Þá langar mig aðeins, hæstv. forseti, að koma frekar inn á vaxtaþátt frv. Við framsóknarmenn erum á móti því að lán beri raunvexti en auðvitað viðurkennum við það að 1% vextir eru ólíkt skárri kostur en 3% vextir ef við hefðum það tryggt að 1% vextir yrðu til frambúðar. Mér finnst hins vegar sérkennileg útskýring að ekki yrði hægt að staðfesta að ríkisstjórnin mundi ekki hækka vextina af því að vel gæti farið svo að verðbólga hækkaði í landinu. Ég get ekki séð að raunvextir á lánum séu háðir verðbólgustigi. Verðtrygging sem stjórnast af verðbólgu en ekki raunvextir. Þá langar mig til þess að biðja hæstv. ráðherra að útskýra betur hvað breytilegir vextir þýða í þessu tilfelli. Ef við tökum sem dæmi námsmann sem byrjar nám sitt þegar vextir eru 1% en þegar hann hefur stundað nám í tvö ár þá verða vextirnir 3% en þegar hann lýkur námi eru vextir 2,5% og þegar hann byrjar að endurgreiða lánið þá verður búið að færa vextina aftur niður í 1%. Eitthvert svona dæmi gæti maður búið til. Hverjir eru þá vextirnir sem þessi einstaklingur greiðir? Við getum látið hæstv. ráðherra hafa þetta dæmi skriflegt á eftir ef það er gagnlegt.
    Annað kom fram í ræðu ráðherrans sem ég vil mótmæla og það var þegar hann sagði að allar þjóðir tækju vexti á námstíma nema við. Ég tel að þarna fari ráðherrann ekki með rétt mál. Að vísu er það rétt

að nágrannaþjóðir okkar kalla það vexti á námstíma en þar sem þeir eru ekki með það sem við köllum verðtryggingu horfir málið öðruvísi við. Í Danmörku eru vextir á námstíma 4% en þar eru hreinir styrkir helmingi hærri en lánin. Í Finnlandi eru vextir á námstíma 4,5% og Finnar eru líka með beina styrki en þó ekki eins hátt hlutfall og Danir. Í Noregi eru ekki vextir á námstímanum en Norðmenn eru með mikið styrktarkerfi við sína námsmenn. T.d. er hægt að breyta veittu láni í styrk í Noregi ef veikindi ber að höndum eða barneignir. Svíar eru einnig með það fyrirkomulag að breyta megi láni í styrk ef veikindi ber að höndum og í Svíþjóð eru vextir ákveðnir einu sinni á ári. Námslán þar bera 8,3% vexti og þar eru styrkir um helmingur á móti láni og auk þess eru Svíar með svokallaða staðaruppbót og margt mætti fleira nefna í sambandi við þau lánakerfi sem eru í gangi við námsmenn annars staðar á Norðurlöndunum og eru virkilega athyglisverð og reyndar koma fram sem fskj. með frv. upplýsingar um þessi efni.
    Hæstv. ráðherra sagði í umræðunni á þriðjudaginn og beindi þá orðum sínum til mín að ekkert þýddi að lesa upp úr úreltum töflum í sambandi við eftirstöðvar einstakra stétta við 67 ára aldur. Ég skal segja ráðherranum það að þær tölur sem ég las upp voru svo sannarlega ekki úreltar. Þær voru glóðvolgar og algerlega í samræmi við frv. eins og það lítur út núna, þ.e. þangað til ráðherrann kvað upp úr með það að lánað yrði fyrir vöxtum í bankakerfinu á meðan námsmenn eru að bíða eftir láni sínu úr lánasjóðnum. Ég geri mér grein fyrir því að með tilliti til þess eru lánin orðin hærri en gert var ráð fyrir í þeim töflum sem ég las upp úr og afföllin sennilega líka orðin hærri og upphæðirnar sem eftir standa við 67 ára aldurinn einnig orðnar hærri og voru þær tölur þó nógu alvarlegar fyrir. En það má geta þess í þessu sambandi að þær töflur sem voru birtar í frv. sjálfu sem fskj., því frv. sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á, voru aftur ámóti úreltar. Þar hafði verið tekið tillit til tekna sem viðkomandi stéttir höfðu einhverjum mánuðum ef ekki árum áður en frv. var lagt fram. En þar sem við höfðum viljugan formann í nefndinni sem vildi þjóna okkur þá fengum við jafnóðum töflur og tölur sem gáfu til kynna hvað viðkomandi brtt. þýddu með tilliti til endurgreiðslna námsmanna og með tilliti til þess hversu háar upphæðir gætu orðið eftirstandandi þegar viðkomandi lyki starfsaldri sínum.
    Ýmsir hafa nefnt framkomu námsmanna í umræðunni og ég vil taka undir það að mér finnst að hún hafi verið mjög kurteisleg og kannski hefur skort á að námsmenn hafi sýnt meiri hörku nú en hér hefur það verið nefnt að fyrr á árum var allur gangur í þeim efnum og námsmenn fjölmenntu á pallana og fluttu jafnvel ræður þaðan sem er náttúrlega ekki leyfilegt. Vel má vera ef námsmenn hefðu sýnt einhverja slíka framkomu hefði verið gengið lengra í þá átt að nálgast þeirra sjónarmið en ég mæli nú frekar með því að fólk sýni kurteisi og reyni að koma skoðunum sínum á framfæri á málefnalegan hátt. En af því að ég nefni þetta þá var reyndar eitt sem ráðherra svaraði ekki í ræðu á þriðjudaginn sem ég hafði spurt hann um en það var hvort það hefði verið haft eitthvert samstarf við námsmenn á síðari stigum annað en það að þeir komu til viðræðna við menntmn. Ég spyr af því tilefni að ráðherra var mjög ósammála því að ekki hefði verið haft eðlilegt samstarf og samráð við námsmenn í vinnslu þessa frv. alls.
    Hæstv. forseti. Ég sé að klukkan er orðin sjö. Er meiningin að fresta fundi? Ég á nokkuð eftir af mínu máli. ( Forseti: Það var meiningin að gera kvöldverðarhlé en ef hv. þm. vill ljúka ræðu sinni áður, er ekkert því til fyrirstöðu ef það er ekki langt mál. En það var meiningin að gera hér hlé til kl. 8.30 og hefur verið gert ráð fyrir því.) Ég á nokkuð eftir af mínu máli og þá óska ég frekar eftir því að það verði gert hlé á fundinum núna. Það var það sem ég hafði heyrt að yrði gert. ( Forseti: Ef hv. þm. óskar eftir að fresta ræðu sinni nú þá er það sjálfsagt.) Forseti sker úr um það. ( Forseti: Forseti var búinn að lýsa því yfir að hv. þm. væri heimilt að fresta ræðu sinni nú.) --- [Fundarhlé.]
    Hæstv. forseti. Ég ætla í upphafi máls míns núna að loknu matarhléi að vitna örlítið í blað sem gefið var út á síðasta sumri af hálfu háskólamanna, Röskvublað, og þar var haft viðtal við þá nýskipaðan menntmrh. Ég ætla að grípa niður í þetta viðtal, með leyfi forseta, en þar stendur undir fyrirsögninni ,,Lánasjóður íslenskra námsmanna.``:
    ,,Ráðherran sagði það vera hlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna að tryggja að allir þeir sem hefðu áhuga og hæfileika til að mennta sig geti það óháð efnahag. Hann kvaðst ekki sjá það að sjóðurinn yrði gjaldþrota á næstu árum. Fjárveitingavaldið hefði undanfarið skammtað honum minna fé en hann hefði þurft miðað við útlánareglurnar með þeim afleiðingum að staða hans væri í hættu. Því þyrfti að endurskoða lögin um lánasjóðinn, endurskoða námslánakerfið í heild og koma á nýju kerfi, helst blönduðu kerfi lána og styrkja. Aðspurður sagðist ráðherrann ekki gera ráð fyrir því að námsmenn yrðu einir látnir bera fjármagnskostnað sjóðsins. Lánin yrðu ekki látin bera jafnháa vexti og þau lán sem notuð væru til að sjá sjóðnum fyrir fé. Hann sagði að þegar drög að nýjum lögum um lánasjóðinn yrðu tilbúin óskaði hann eftir sem allra nánustu samstarfi við námsmenn og fullyrti að hann mundi ekki þvinga slík lög í gegnum þingið án samráðs við námsmenn.``
    Nú finnst mér, hæstv. forseti, að ráðherra sé að þvinga slík lög í gegnum þingið gegn vilja námsmanna. ( Menntmrh.: Ég sagði aldrei að ég mundi ekki gera það. Þetta er einhver misskilningur í þér.) Hæstv. forseti, nú held ég að ég verði að endurtaka síðustu setninguna. Hún er svona:
    ,,Hann sagði að þegar drög að nýjum lögum um lánasjóðinn yrðu tilbúin óskaði hann eftir sem allra nánustu samstarfi við námsmenn og fullyrti að hann mundi ekki þvinga slík lög í gegnum þingið án samráðs við námsmenn.``
    Nú er mér ekki kunnugt um þetta samráð sem hefur verið haft við námsmenn á síðari stigum og

ég spurði um í fyrri ræðu minni. Hæstv. ráðherra greinir okkur kannski frá því í máli sínu á eftir eða síðar í umræðunni en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá námsmannahreyfingunum hefur þetta samstarf verið mjög af skornum skammti.
    Einnig kemur þarna fram að námsmenn verði ekki einir látnir bera þennan fjárhagsvanda sem sjóðurinn á í og það er nú einmitt ástæða þessara hugmynda minni hlutans að ríkið verði að yfirtaka í tengslum við breytingar á sjóðnum eitthvað af vandanum vegna þess að námsmenn, sem núna eru í námi og fara í nám á næstu árum, bera enga sök á því hvernig komið er fyrir sjóðnum. Hins vegar á þjóðin, skattborgararnir, miklu meiri þátt í því að þessi vandi er til orðinn og þar að auki þurfti stór hluti þjóðarinnar aldrei að borga lán sín til baka og þar á meðal er eflaust drjúgur hluti hv. alþm. sem nú stendur að þessari lagasetningu. (Gripið fram í.) Við skulum ekki fara nánar út í það en það væri kannski verðugt verkefni að fara ofan í þau mál.
    Sú aðferð sem beitt hefur verið upp á síðkastið til að reyna að fá þjóðina með sér í þessi hryðjuverk á Lánasjóð ísl. námsmanna eru öll á þann veg að reyna að sverta námsmenn í augum þjóðarinnar. Þeir falla, þeir gefa upp of lágar tekjur, þeir greiða lán sín ekki til baka o.s.frv. Auðvitað eru námsmenn fyrst og fremst heiðarlegt fólk sem þarf á lánasjóðnum að halda til þess að geta stundað sitt nám án tillits til efnahags og fjárhagslegra aðstæðna.
    Eitt af því sem haft var eftir formanni sjóðstjórnar í vikunni eða í fréttum var það að námsmenn gæfu upp of lágar tekjur á haustin til þess að ná sér í fjárfestingarlán. Er það trúlegt að námsmenn standi í stórkostlegum fjárfestingum á námstímanum? Nú getur verið að aðrir viti meira um það en ég, en miðað við að lánin eru ekki hærri en raun ber vitni þá finnst mér það frekar ótrúlegt.
    Okkur þingmönnum hafa borist mörg mótmælabréf frá námsmönnum, bæði hérlendis og erlendis og vissulega hefði verið ástæða til þess að lesa eitthvað af þeim hér og fá efni þeirra inn í þingtíðindin en ég ætla nú að hugga hæstv. ráðherra með því að ég ætla ekki að fara að lesa þau og ég efast ekki um að ráðherranum hafi borist þau líka. En það var eitt af því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra í gær þegar hann svaraði mínum fyrirspurnum, sem var í sjálfu sér gott að fá svar við, og það var að námsmönnum verður lánað fyrir skólagjöldum en það skal líka gert eftir á. Mér verður hugsað til námsmanna erlendis þar sem skólagjöld geta verið allhá og hvernig þeir eiga að framfleyta sér fram á vorið til þess að standa straum af þeim kostnaði auk framfærslukostnaðarins. Mig langar einmitt í sambandi við þetta að nefna eitt atriði sem kom fram í andsvari frá hv. 11. þm. Reykn., sem er fulltrúi Alþfl. í menntmn., en hún sagði þegar ég spurði hvernig hún sæi fyrir sér að laganemi framfleytti sér fram á vorið þar sem laganemar taka ekki áfangapróf á miðjum vetri eins og flestir námsmenn gera, að það væru ýmsir möguleikar á mati á miðjum vetri. Það fannst mér vera nýtt innlegg í umræðuna. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er kannski um það að ræða og samræmist það þá 1. mgr. 6. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta: ,,Námslán skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur.`` Dugar það að fá einhvers konar uppáskrift á miðjum vetri um það að viðkomandi námsmaður stundi námið samviskusamlega til þess að fá lán í þeim tilfellum þegar próf eru ekki á miðjum vetri heldur einungis að vori? Ef svo er þá er það strax til bóta og það væri gagnlegt að fá það inn í umræðuna eða var þetta á misskilningi byggt hjá hv. 11. þm. Reykn.?
    Mig langar í örstuttu máli að víkja að blaðagrein sem Lárus Jónsson, framkvæmdastjóri lánasjóðsins skrifar í Morgunblaðið í febrúar sl. þar sem hann er m.a. að svara leiðara í Morgunblaðinu sem hann er ekki alls kostar sáttur við. Hann skýrir ýmis atriði sem snerta sjóðinn og segir í sínum lokaorðum m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þung orð hafa oft fallið í ræðu og riti um Lánasjóð ísl. námsmanna og þeir þá oft höggvið óðast og tíðast sem hlífa skyldu. Því verður þó ekki með rökum á móti mælt að sjóðurinn hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku þjóðfélagi, nánast lykilhlutverki. Þær reglur sem hann hefur starfað eftir eru um margt lausar í reipum og hefur verið breytt í sífellu, eins og Morgunblaðið kemst að orði. Ég tek heils hugar undir að örar breytingar á reglum sjóðsins hafa vissulega oft og tíðum valdið vandræðum og óvissu fyrir námsmenn og einnig stórfelldum erfiðleikum í að halda fjármálum sjóðsins í skefjum. Stundum hafa þó þessar breytingar verið óumflýjanlegar eins og nú undanfarið þegar pólitískar ákvarðanir hafa verið teknar á Alþingi, bæði af fyrri stjórnarmeirihluta og núverandi um að draga saman seglin í útlánum sjóðsins.
    Nú þegar tekist er á við að breyta lögum og reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna til þess að koma honum fjárhagslega á kjöl þarf að búa svo um hnúta að þær reglur séu skýrar og geti staðist til nokkurrar frambúðar. Aukið öryggi og festa í rekstri sjóðsins er ekki síst í þágu viðskiptavina hans, þ.e. íslenskra námsmanna í nútíð og framtíð. Umfram allt þurfa þá þessar reglur að treysta fjárhagslega stöðu sjóðsins þannig að hann geti um fyrirsjáanlega framtíð gegnt því lykilhlutverki í þjóðfélaginu sem honum er ætlað: Að gefa öllum íslenskum námsmönnum kost á framhaldsnámi án tillits til efnahags.``
    Svo mörg voru þau orð í lok greinar Lárusar Jónssonar. Hann segir þarna m.a. að örar breytingar á reglum sjóðsins hafi vissulega oft og tíðum valdið vandræðum og óvissu fyrir námsmenn. Skyldi það ekki valda óvissu fyrir námsmenn að hafa það ákvæði inni í lögunum að vextir geti verið ,,allt að 3%``? Þó að sú yfirlýsing hafi nú borist frá hæstv. ríkisstjórn það að vextir skuli vera 1%, þá finnst mér þetta vera atriði sem eykur mjög á óvissu námsmanna. Auk þess má segja að það fyrirkomulag sem tíðkast að

hér starfa meirihlutastjórnir, sem oft grípa til róttækra breytinga á ýmsum grundvallarþáttum, sé óæskilegt. Slíkar breytingar skapa óvissu og hringlandahátt sem ég mæli ekki sérstaklega með og tel af hinu illa. Annars staðar á Norðurlöndunum, þar sem minnihlutastjórnir hafa verið starfandi, hefur þurft að ná samstöðu um mál á milli fleiri flokka en það er ábyggilega æskilegra fyrir þjóðfélagið sem slíkt.
    Ég vil í þessu sambandi nefna að við framsóknarmenn vildum vinna að þessu máli á málefnalegan hátt og meðan frv. var í menntmn. til umræðu bauð ég fyrir hönd framsóknarmanna fram útrétta hönd um að við mundum hugsanlega geta staðið að þessari lagasetningu með því að á frv. yrðu gerðar ákveðnar breytingar. Þá vorum við ekki að búast við því að gengið yrði að öllum okkar kröfum heldur vorum við fyrst og fremst að hugsa um það að forðast stórslys. Þessu var ekki tekið og þess vegna styðjum við framsóknarmenn að sjálfsögðu ekki frv. eins og það lítur út núna.
    Nokkuð hefur verið fjallað um konur í sambandi við frv. og hvernig það snýr að konum. Nú eru konur í mjög ríkum mæli farnar að stunda langskólanám. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði í sínu máli að íslenskar konur hefðu þann metnað að þær mundu halda áfram að fara í langskólanám þrátt fyrir þessa lagasetningu. Hann sagði reyndar ekki ,,þrátt fyrir`` en ég geri ekki verra úr hans máli en ræðan gaf tilefni til. Það má vel vera og ég vona það svo sannarlega að íslenskar konur hafi metnað. En það virðist vera uppi á teningnum að hugsa praktískt a.m.k. heyrir maður það á þingmönnum Sjálfstfl. og Alþfl. Það er staðreynd að karlar hafa hærri laun yfirleitt en konur og því gæti þetta leitt til þess að það fyrirkomulag, sem gilti fyrir áratugum, að konur tækju að vinna fyrir körlum sínum meðan þeir eru í námi yrði tekið upp og þá erum við svo sannarlega að stíga stórt skref aftur á bak.
    Hæstv. ráðherra var dálítið óheppinn í orðavali þegar hann nefndi það hér í gær að það væri ekki ástæða til þess að setja lög sem hefðu það í för með sér að konur legðust í barneignir eða námsmenn legðust í barneignir, ég man ekki hvort heldur var. ( Menntmrh.: Það var þannig.) Það var þannig. Það eru þó konur væntanlega sem leggjast. (Gripið fram í.) Ég vil ekki meina það að hæstv. ráðherra hafi ætlað að nota þetta orðatiltæki en víst var það klaufalegt og eins og kom fram í mínu máli áðan er það þannig á sumum hinna Norðurlandanna að við það að námsmaður eignast barn getur hann breytt láni sínu í styrk. Þar er því aldeilis ekki verið að reyna að draga úr barneignum námsmanna. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst nokkuð langt gengið ef það er orðað hér og talað þannig að það er eins og verið sé að reyna að koma í veg fyrir manneskjulegar hvatir, því ég kalla það manneskjulegar hvatir að vilja eignast börn. Svo má auk þess geta þess að konur eru reyndar frjósamastar á þeim tíma sem þær eru ungar og eru í námi. Það hafa margir farið flatt á því að ætla að bíða til einhvers ákveðins tíma með það að eignast börn þegar þau eru búin að þessu og búin að hinu, búin að læra og búin að koma sér upp húsi og þykjast loksins hafa efni á því að eignast börn. Hér er því ekki verið að tala um neitt smámál.
    Við Íslendingar erum sem sagt svona illa staddir að við höfum ekki efni á því að reikna með því að námsmenn geti veitt sér það að eignast börn.
    Hæstv. forseti. Ég lýk senn máli mínu. Ég segi það að lokum að ég trúi því ekki að allir hv. þm. sem skipa meiri hlutann á Alþingi séu fæddir með silfurskeið í munni. Mér finnst að hér sé verið að koma á ómanneskjulegu kerfi sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir okkar þjóðfélag. Það má nefna að nú eru þeir tímar á Íslandi að það þrengist um á vinnumarkaði og á sama tíma leggja stjórnvöld til þessar róttæku breytingar á lánasjóðinum sem ég er fyrst núna að trúa að eigi að samþykkja í þeirri mynd sem málið lítur út á þessari stundu.
    Eins og kom fram áður sýndum við framsóknarmenn samstarfsvilja. Við buðum upp á samstarf en við því var ekki orðið og því stöndum við ekki að samþykkt frv.
    Þar sem þetta er síðari ræða mín í þessari umræðu fæ ég víst ekki tækifæri til þess að tala oftar enda er það kannski ekki til mikils. En ég vil að síðustu benda þeim hv. stjórnarþingmönnum á, sem e.t.v. heyra mál mitt, að velta því enn einu sinni fyrir sér hvort við getum talað um jafnrétti til náms eftir að frv. er orðið að lögum.