Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 21:13:00 (6113)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þingmaðurinn gerði breytingar á tekjutilliti að umtalsefni í ræðu sinni í gær og taldi það hafa misnotkun í för með sér, þ.e. að þeir tækju lán sem ekki þyrftu enda mundu 1% vextir ekki fæla neinn frá. Við gerum okkur grein fyrir að einhver aukning útlána getur orðið vegna þessa, eins og ég hef áður sagt, og ætlum til þess 80 millj. kr. og þar er bæði tekjutillitið og aukinn fjöldi inni í.
    Með breyttu tekjutilliti er hins vegar fyrst og fremst verið að hvetja námsmenn til að vinna í námshléum svo að þeir þurfi síður að leita til bankakerfisins um lán meðan þeir bíða eftir láni frá lánasjóðnum.
    Tekjutillitsbreytingin hefur ekki verið ákveðin, aðeins rædd í stjórn lánasjóðsins. Útreikningar varðandi tvískipt afborgunarkerfi, sem hv. þm. setti fram hugmyndir um áður í umræðunni, 25 ár miðað við tekjur og miðað við 15 ár jafngreiðslulán, þeir útreikningar eiga að liggja fyrir og eru ekki leyndarmál. Ég vona að hægt verði að koma þeim til hv. þingmanns.
    Fyrirhugaðar breytingar á úthlutunarreglum hafa eitthvað verið ræddar í stjórn LÍN en eru að sjálfsögðu ekki frágengnar, þar með eru taldar reglur um tillit til vaxtagreiðslna lánþega í bankakerfinu.
    Það er rétt hjá þingmanninum að Framsfl. hefur ítrekað komið í veg fyrir að nauðsynlegar breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna næðu fram að ganga þótt sýnt væri að hverju dró og mér sýnist að flokkurinn reyni að gera það enn.
    Lítils háttar breytingar þarf að gera, segir hv. þingmaður, til að ná sátt í málinu, þ.e. að falla frá eftirágreiðslunni.
    Mér þykir sjálfsagt að milli umræðna fari fram athugun á því og þingmanninum verði sýnt svart á hvítu hvað slík breyting þýðir. En ég vil taka fram að ég met vilja þingmannsins til að ná sem víðtækastri samstöðu en þá verða hins vegar markmiðin að nást.
    Ég bendi á að sjóðstjórn mun eftir sem áður geta tekið tillit til veikinda námsmanna og fjölskyldna þeirra og veitt undanþágu frá námsframvindu, sbr. 8. gr. eins og hún er nú komin frá hv. menntmn.
    Að lokum: Þingmaðurinn talaði um þá sem fengu lánin á sínum tíma sem kostuðu ekki neitt. En hann gleymir því að þessi ókeypis lán, sem hann kallar svo, dugðu engan veginn fyrir framfærslu.