Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 22:04:33 (6118)

     Jón Helgason :
    Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði áðan að það væri búið að flytja margar ræður og margar væru eins. Það sem ýtti við mér að koma upp í ræðustólinn var sú ræða sem hæstv. menntmrh. flutti í gær þar sem hann kom allvíða við og m.a. komu fram nokkur atriði sem ýttu við mér.
    Það fyrra sem ég vildi nefna var það viðhorf hans að það væri grundvallaratriði hvaða upphæð væri búið að ákveða að skyldi koma árlega inn í fjárlagafrv. og inn í fjárlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það væri búið að ákveða nú að sú tala skyldi vera 2 milljarðar og það væri útgangspunkturinn sem allt annað ætti að miðast við. Að mínu mati er slíkt efnahagslegt mat rangt. Það er að mínu mati rangt að fjármagnið stjórni öllu án þess að meta hina raunverulegu þörf. Þetta trúaratriði birtist að vísu víða hjá frjálshyggjumönnum, að það sé fjármagnið eitt sem eigi að stjórna og við höfum kynnst því í mörgum myndum. Þar má t.d. benda á vaxtamál, þegar rætt er um hvort lækka skuli vexti en það var eitt af stóru deilumálunum í sambandi við nýgerða kjarasamninga. Ríkisstjórnin féllst þá á að beita sér fyrir vaxtalækkun en það mátti samt ekki heita að það væri verið að lækka vexti með handafli. Það varð að heita eitthvað annað. En það er önnur saga. En mér finnst næsta furðulegt að núv. ríkisstjórn skuli í þessu efnahagslega mati sínu aðeins líta á aðra hliðina, þ.e. á útgjaldahliðina, en ekki þann ávinning sem þjóðfélagið fær í krónum og aurum sem hagnað af menntun sem námsmenn fá þrátt fyrir það að þeir vilji meta allt í krónum og aurum.
    Það er viðurkennt í öllum þjóðfélögum, velmegandi þjóðfélögum a.m.k., að traustur grundvöllur góðrar efnahagslegrar afkomu er góð menntun og þekking. En þegar komið er að því að við stöndum frammi fyrir skipulagi sem byggir í vaxandi mæli á því að efnahagur nemenda ráði úrslitum um það hvort þeir geti stundað og lokið því námi sem þeirra hugur stendur til þá er það áreiðanlega dýrt og raunverulega getur enginn sagt til um það fyrir fram hversu dýrt það getur orðið þjóðfélaginu ef þeir sem hæfileika hafa verða að gera slíkt og þjóðfélagið fer þá á mis við að njóta þeirrar þekkingar. Stjórnarflokkarnir segja að námsmenn eigi bara að útvega fjármagnið sem á vantar á annan hátt. Ef það fer svo að námsmönnum öllum takist að gera það og þurfi ekki að hverfa frá námi, þá lækkar ekki heildarkostnaðurinn við námið, hvorki fyrir einstaklingana né þjóðfélagið í heild. Þvert á móti er augljóst að það hefur einhvern aukinn kostnað í för með sér. Það er því ekki spurningin um hvort það þurfi að greiða námskostnaðinn heldur hvernig hann verður greiddur. En auk þeirrar afleiðingar af því að þrengja um of að námslánum, að nemendur verða að hætta við nám, þá er fleira sem kemur til ef of miklar byrðar eru lagðar á námsmenn meðan á námi stendur. Ein þeirra er að sjálfsögðu sú að það verður meira sem þeir þurfa að greiða til baka að námi loknu. Ég býst við að okkur sé öllum ljóst að eftir því sem sú byrði verður meiri, þá verður krafan um hærri laun meiri til þess að standa undir þeirri byrði. Á annan hátt verður hún ekki greidd til baka. Yfirgnæfandi meiri hluti af starfsmönnum ríkisins hygg ég vera þá sem lokið hafa einhverju slíku námi eða líklegt að svo verði a.m.k. í framtíðinni. Því held ég það hljóti að vera reikningsdæmi fyrir ríkið hvort sá viðbótarkostnaður vegna launahækkana verður minni en sá sem fylgir því að styðja nemendur eitthvað meira á námstíma. Það er að sjálfsögðu vandi framtíðarinnar að standa undir þeim launagreiðslum. Spurningin er: Er það betri vandi en sá að styðja nú við lánasjóðinn?
    Annað atriði í ræðu hæstv. menntmrh. vakti mig til umhugsunar en það voru orð hans um ábyrgð ábyrgðarmanna og það sem segir í greinargerð um 6. gr. frv. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Gert er ráð fyrir að sjóðurinn geri sömu kröfur til ábyrgðarmanna og aðrar lánastofnanir.``
    Ég held að flestir geti orðið sammála um að hrikaleg áföll sem margir hafa orðið fyrir á undanförnum árum vegna persónulegrar ábyrgðar fyrir aðra sé einn af svörtu blettunum á okkar þjóðfélagi. Um það þekkjum við sjálfsagt öll allt of mörg dæmi. Það hefur orðið allt of algengt að bankastofnanir hafa verið reiðubúnar að veita fyrirtækjum og einstaklingum lán, þó að þær treysti þeim ekki til að geta greitt þau til baka, ef vinir og vandamenn lántakenda fást til að veita ábyrgðir. Ég tel að slík vinnubrögð eigi frekar að vera undantekning en regla vegna þessara mörgu dæma um slæmar afleiðingar sem eiga vissulega að vera víti til varnaðar. Ég hrökk því við þegar í umræðu um frv. var dregin fram þessi aukna ábyrgð ábyrgðarmanna námsmanna og talin þörf á að benda sérstaklega á í greinargerð frv. að geti orðið hlutskipti þeirra. Eða eigum við að horfa fram á það á komandi árum að lánasjóðurinn líti á það hversu breið bök ábyrgðarmenn hafa áður en hann úthlutar námsmönnum láni og hvort foreldrar t.d. með mörg börn og takmarkaða fjárhagslega getu samkvæmt ströngu mati bankakerfisins verði e.t.v. að fara að vega og meta hverju barna sinna þeir geti veitt ábyrgð fyrir láni eða hún metin gild? Er það virkilega svo að það á að fara að meta ábyrgðarmenn eftir hinum ströngu reglum bankakerfisins?
    Að sjálfsögðu bíða námsmanna eins og annarra misjöfn örlög og enginn veit sína ævina fyrr en öll er. En hjá þeim sem trúa því að með menntun æskunnar sé verið að safna í sjóð fyrir framtíðina fyrir þjóðfélagið í heild, þá hlýtur að vakna sú spurning hvort ganga á fram af hörku bankakerfisins við ábyrgðarmenn þeirra sem verða fyrir óvæntum áföllum.
    Það fór fyrir mér eins og hv. 9. þm. Reykv. þegar fréttirnar bárust um þá vinnu sem fram hefur farið að undanförnu hjá Háskóla Íslands um forritagerð að mér varð hugsað til námslánanna. Og ég held að þær fréttir séu þörf áminning fyrir okkur hversu varasamt er að ákveða það fyrir fram hvaða fjármagni skuli verja til Lánasjóðs ísl. námsmanna á fjárlögum og hversu dýrt það gæti orðið ef við misstum af slíkum tækifærum vegna þess að sú upphæð hefði verið skorin við nögl. Það gæti orðið þjóðfélaginu dýrt. Ég held við vinnum okkur aldrei út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í þjóðfélaginu nema því aðeins að við reynum að fá arð af þeim auðlindum sem við eigum, bæði í þekkingu þjóðarinnar og auðlindum landsins og með því verja fjármagni til þess að nýta þær. Það er sú leið sem við hljótum að verða að fara til að byggja upp fyrir framtíðina. Ég vil því þakka hæstv. menntmrh. fyrir þá yfirlýsingu hans áðan að vilja skoða frv. betur milli 2. og 3. umr. þannig að meira tillit verði tekið til þess hverjar eru þarfir námsmanna og hverjir eru hinir raunverulegu hagsmunir þjóðfélagsins.