Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 23:06:00 (6123)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að í dag sé hljóðið nokkuð annað í mönnum en í gær og ég vonast til þess að það sé vísbending um það að til þess sé ástæða. Nú hefur það komið í ljós að einhver fyrirheit af einhverju tagi eru frá hæstv. menntmrh. um að e.t.v. sé ástæða til að endurskoða örlítið ákvæðin um eftirágreiðslurnar. Ég vona að þetta sé vísbending um að barátta okkar, sem höfum gagnrýnt og sýnt fram á hversu illa þessi ákvæði um eftirágreiðslu lána koma við námsmenn, hafi borið einhvern árangur. Ég efast ekki um að öll þau rök og allt það sem fram hefur komið í þessari umræðu hafi vakið hæstv. ráðherra til umhugsunar og jafnframt, og ég tel raunar að það hljóti að vega þyngra, þá trúi ég ekki öðru en raddir námsmanna séu farnar að hljóma nokkuð betur í samfélaginu en oft áður. Að mörgu leyti hefur þetta verið gagnleg umræða. Hún hefur ekki verið laus við hnökra. Ég ætla ekki að nefna neina sérstaka til. Sumum þykir sjálfsagt að hún hafi dregist um of á langinn. Öðrum án efa að tilefni hennar sé það versta við hana og ég er ein í þeirra hópi. Mér þykir það hart að við skulum þurfa að takast á um grundvallarmannréttindi, þ.e. réttinn til þess að velja okkur nám og þá á ég við alla þá sem telja sig eiga erindi í nám, óháð fjárhag, kynferði, áhugasviðum, aldri og öðru því sem oft og tíðum hefur hamlað fólki í grundvallarbaráttu.
    Það hefur verið sýnt fram á, ég held með nokkuð gildum rökum, að fyrir suma, sem velja sér óhefðbundið nám, kemur eftirágreiðslan verr niður heldur en fyrir aðra. Það hefur jafnframt verið sýnt fram á það að fjárhagur fjölskyldu og tekjumöguleikar, sem eru mjög misjafnir, m.a. eftir kynferði, mikil áhrif á það hvort eftirágreiðslurnar koma það illa við fólk að það getur ekki valið sér nám. Ég tala af mikilli reynslu vegna þess að ég hef staðið frammi fyrir því að eiga ekki kost á velja mér nám og hef ég þó búið við ljómandi góðar aðstæður. En þannig er að með tækifærunum er ákveðin stýring og eins og svo margir stúdentar þá stóð ég eitt sinn frammi fyrir því að hafa lokið stúdentsprófi og sá fram á að neyðast til að fara í Háskóla Íslands. Auðvitað sé ég ekki eftir því. Þar var hægt að komast inn í námslánakerfi sem að vísu var ekki eins gott og það kerfi sem nú er og á að fara að breyta til hins verra, en það nám, sem ég hafði hug á að stunda, var kannski nær verknámi og var ekki lánshæft á þeim tíma og þegar það varð lánshæft þá voru námsmönnum þar búin lakari kjör en öðrum námsmönnum. Þetta er auðvitað ekkert réttlæti og þetta hefur áhrif á námsval. Í þessu felst stýring.
    Það getur vel verið eins og í mínu tilviki að þetta leiði mann inn á skemmtilegar brautir og ekki skal ég harma það að hafa eytt fjöldamörgum árum í að stúdera sagnfræði í staðinn fyrir að fara í verklegra nám eins og ég hafði hug á. Þetta finnst mér hins vegar ekki grundvöllur til að velja sér námsbraut og þess vegna hef ég fyrst og fremst beint athygli minni að því hvernig frv. muni koma við þá sem velja sér annað en hið alhefðbundnasta nám sem í boði er.
    Ég tek undir með þeim sem hafa í kvöld verið að tala um að fregnirnar úr hugbúnaðarheiminum og um væntanlega stórsigra Íslendinga á því sviði hafi yljað okkur um hjartarætur. Þetta staðfestir nákvæmlega það sem við höfum verið að segja að auðvitað er það dýrmætasta auðlind okkar að afla þjóðinni góðrar menntunar, fjölbreyttrar menntunar, framsækinnar menntunar, ekki bara á þröngum sviðum þar sem beinlínis er verið að hjakka í gömlum hjólförum heldur að leyfa sér þann munað að spá svolítið í framtíðina í staðinn fyrir að festast í nútíðinni eða sitja jafnvel uppi með fortíðina á herðunum. En því miður er núna verið að taka ákvarðanir í skugga fortíðar og það hefur meira að segja verið bent á að þeir skuggar eru málaðir allt of svartir. Þeir eru ekki svo svartir sem sagt er. Og þetta er afleitur grundvöllur til að taka ákvarðanir á. Þess vegna held ég að umræðan, sem í senn hefur verið málefnaleg, heit, brennandi, kannski svolítið þreytandi á köflum, en umfram allt með þeirri sannfæringu að hér verði að breyta eitthvað um áherslur, hljóti á endanum að skila okkur því að rétt sjónarmið komist á framfæri og vonandi er nú verið að snúa eitthvað við blaðinu. Ég bind miklar vonir við starf hv. menntmn. núna og skoðun hæstv. menntmrh. á milli 2. og 3. umr. Ég vonast til þess að sú skoðun leiði til þess að það verði fundin önnur leið en þessi eftirágreiðsluleið.
    Það hefur verið sýnt fram á að hér sé hugsanlega um bókhaldsblöff að ræða. Ég veit að um það eru skiptar skoðanir en það er ekkert skrýtið að þær grunsemdir læðist að okkur sem höfum verið að fjalla um þetta mál og hefur þetta raunar komið fram í blaðafregnum. Ég hafði raunar ekki vitað að umræðan væri að renna á enda en allt hefur sinn tíma og þar af leiðandi er ég kannski ekki með beina tilvitnun í alveg ljómandi góða grein sem ég rak augun í fyrir skömmu og vakti mig til umhugsunar um að kannski væri þetta afleita ákvæði um eftirágreiðslur bara bókhaldsblöff til eins árs eins og fjallað var um betur fyrr í þessari umræðu í kvöld. Ég er ekki að ætla neinum að takast slíkt á hendur en þetta er samt sem áður hægt að rökstyðja nokkuð vel. Það sem gerist er það að ekki verða eins mikil útgjöld á þessu ári, það er staðreynd. Síðan er sá betri reikningur úr sögunni. Ef þetta er ekki raunin þá er hægurinn hjá að afsanna það. Þá þarf ekkert á þessu að halda og þá er hægt að hverfa frá þessari stefnu.

    Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Mér var heitt í hamsi þegar ég talaði fyrr í þessari umræðu og mér er enn nokkuð heitt í hamsi, ögn rórra þó og ég vona að ég hafi ástæðu til þess. Ég vona að það séu ekki bara orð sem valda því að hér er nokkuð meiri bjartsýni ríkjandi heldur að þessum orðum muni fylgja einhverjar athafnir og við munum sjá breytingar á þessu frv.