Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 23:17:28 (6126)


     Frsm. minni hluta menntmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Það er ýmislegt órætt í sambandi við málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna og þessi umræða, 2. umr. um málið, hefur að sumu leyti vakið upp fleiri spurningar en svarað hefur verið, alveg sérstaklega varðandi það hvað það er sem hæstv. menntmrh. hefur verið að bjóða í sambandi við þessa umræðu og þá gagnrýni sem fram hefur komið. Ég held að það sé mjög eðlilegt og raunar góðra gjalda vert, raunar sjálfsagt, að hv. menntmn. reyni að átta sig á því betur í rólegheitum en hægt er að lesa út úr orðum ráðherra í svörum og andsvörum hvað það er sem er um að ræða áður en menn taka málið til 3. og síðustu umræðu.
    Ég vil nefna örfá atriði sem nauðsynlegt er að átta sig betur á, þyrftu auðvitað að liggja skýrar fyrir nú en það virðist vera mjög erfitt að fá það fram hjá hæstv. ráðherra hvað það er í einstökum atriðum sem hann telur að komi til greina að lagfæra og hvað þýðir það, bæði fyrir námsmenn og hvað þýðir það fyrir lánasjóðinn sem stofnun.
    Eitt af því sem þarf að fá á hreint er staða lánasjóðsins miðað við útkomuna á þessu ári og hvað ætla menn sér að gera við þann afgang sem sýnilega skapast þegar ekki verða greidd út haustlán. Er það ásetningur ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra að liggja á þessu gulli, nýta það ekki innan ársins til þess að greiða svo sem greiðslugeta sjóðsins innan ramma fjárlaga meira að segja gerir kleift? Þetta er kannski það atriði sem hvað þýðingarmest er því að í rauninni er mikið af því spilverki, svo ég leyfi mér að nefna tillögur frv. og brtt. meiri hluta menntmn., þess eðlis að það er fyrst og fremst verið að ná fram markmiðum innan fjárlagaársins og gera með vísan til þess mjög umfangsmiklar breytingar á lánasjóðnum í heild sinni. Því þurfum við að fá sem gleggsta mynd af því hvað verður gert við það sem safnast upp hjá lánasjóðnum, miðað við þá stefnu sem hæstv. ráðherra boðar í frv. og felst í tillögum meiri hluta nefndarinnar.
    Ég hef ítrekað spurt hæstv. ráðherra að þessu í umræðunum og ég hef ekki fengið svör við því. Ég hef ekki fengið svör við því hvernig á að ráðstafa eða nýta það svigrúm sem skapast ef ekki verða greidd út lán í haust, allt að 800 millj. kr. hafa verið nefndar. Ég hef ekki fengið þá tölu á blaði frá framkvæmdastjóra lánasjóðsins. Og spurningin sem m.a. hefur verið varpað fram er: Getur það verið að það sé hugmyndin að nýta þetta fjármagn til frádráttar af hálfu ríkisins á næsta ári? Við þessu þurfum við auðvitað að fá skýr svör. Ef þau fást ekki hér við 2. umr. þá er þeim mun nauðsynlegra að ganga eftir því í nefnd þannig að þetta atriði verði dagljóst. Það getur varla verið ásetningur manna að vera í einhverjum feluleik með slíka þætti. Ég skal ekki segja hvað sá afgangur, sem þarna myndast, hrekkur fyrir miklu sem hluti af haustlánum sem meiningin er að fresta samkvæmt þessum tillögum. En það er sjálfsagt að athuga það, skoða það vel.
    Hæstv. ráðherra sagði hér áðan í ræðustól að hann gæti ekki sett fram ákveðnar tillögur eða skýrt í einstökum atriðum frá því hvernig hagað yrði uppgjöri við námsmenn, t.d. vegna vaxtakostnaðar af bankalánum. Það hefur verið spurt: Er það öruggt og hvernig verður þetta útfært? Það hefur verið bent á það í ræðum, m.a. vitnaði hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir í dag til ummæla framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna í útvarpi fyrir fáum dögum, þar sem svarað var í hálfkveðnum vísum. Hæstv. ráðherra er að vísa í þær hálfkveðnu vísur. Hann kann að hafa betri og skýrari heimildir fyrir því en fram hafa komið í fjölmiðlum hvernig eigi að útfæra það að lánasjóðurinn veiti lán fyrir vaxtakostnaði sem námsmenn þurfa að axla til þess að brúa bilið milli lána vegna eftirágreiðslu lána. Þetta þurfum við auðvitað að sjá áður en málið kemur til lokaafgreiðslu hér á þinginu. En það lifir nú skammt eftir þings og því er æskilegt að fá það þegar fram við þessa umræðu, en ef ekki þá á að fá skýra greinargerð um það, útfærslu af hálfu stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna, því að það getur ekki verið nein ofætlun að biðja um að að fá það á blaði. Stjórn lánasjóðsins hlýtur að geta sýnt eftir hvaða reglum hún ætlar að vinna verði þetta frv. að lögum. Það gengur ekki að haga málflutningi eins og hæstv. ráðherra gerir hér trekk í trekk og segja sem svo: Ja, það er ekki hægt að greina frá útfærslu í einstökum atriðum á þessu kerfi sem verið er að setja upp, þar á meðal hvernig stjórn lánasjóðsins notar sínar heimildir, vegna þess að það er ekki búið að lögfesta málið.
    Þannig er ekki hægt að afgreiða okkur hér á Alþingi. Það hlýtur að eiga að vera samhengi í þessum hlutum og við þurfum að vita hvernig málið lítur út að frumvarpinu lögfestu og fyrir fram að vita það hvernig stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna ætlar nú á næstunni að nota sínar heimildir. Það er enginn að spyrja um það hvernig stjórnin ætli að nota heimildir að nokkrum árum liðnum ef menn eiga þá að búa við þetta kerfi sem við skulum vona að verði ekki til langframa, það er enginn að biðja um það, heldur núna alveg á næstunni. Það væri bara hagræðing af hálfu stjórnarinnar að koma því í verk núna á næstu dögum að útfæra það hvernig hún ætlar að móta þær tillögur sem henni er ætlað að móta og nýta það svigrúm sem henni er ætlað í formi útfærslu á útlánareglum sjóðsins. Ég bið hæstv. ráðherra að undirbúa sig undir það nú þegar milli umræðna að þetta liggi sem skýrast fyrir í nefnd. Og ég vænti þess að hæstv. ráðherra verði við því að sýna þingnefnd þær hugmyndir og þann trúnað að leggja fyrir þær reglur sem stjórn lánasjóðsins hlýtur að vera farin að móta, þ.e. þeir sem þar ráða ferðinni.
    Af hálfu okkar stjórnarandstæðinga hefur verið reynt að sannfæra meiri hlutann á Alþingi og hæstv. ráðherra um það að það kerfi sem hér er verið að lögfesta sé hið mesta óráð. Jafnt frá menntapólitísku sjónarmiði sem og út frá markmiðunum um jafnrétti til náms. Þetta hefur kannski ekki borið mikinn eða sýnilegan árangur enn sem komið er en þó tel ég engan veginn að reynt sé til þrautar í þeim efnum. Við eigum eftir að fjalla betur um þetta mál. Við eigum eina umræðu eftir í þinginu og að sjálfsögðu verður gengið eftir því einnig við þá umræðu að fá fram breytingar á því frv. sem verið er að reyna að lögfesta fyrir þinglok. Og það er skylt að sjá til hvernig því reiðir af.
    Eitt af því sem nefnt hefur verið í þessu sambandi eru afföllin og þær mjög takmörkuðu og óljósu upplýsingar sem liggja fyrir um það hvernig þetta kerfi muni virka í raun, hver verði afföllin í þessu nýja og breytta kerfi. Ég vænti þess að Hagfræðistofnun háskólans hafi notað tímann með aðstoð Ríkisendurskoðunar á undanförnum dögum til þess að spá betur í þau spil því að svörin sem við fengum voru harla óljós svo ekki sé meira sagt og sögðu ekki nema mjög takmarkaða sögu. Það er auðvitað eitt af undirstöðuatriðunum að átta sig á, út frá hagsmunum sjóðsins, hvernig honum mun reiða af og hver eru líkleg afföll í þessu kerfi.
    Eitt atriði er ástæða til að undirstrika áður en þessari umræðu lýkur og það er sá fréttaburður sem settur hefur verið á flot nú á meðan á þessari umræðu hefur staðið í þinginu, að námsmenn séu að hagnast með óeðlilegum hætti á samskiptum við lánasjóðinn, og þá ekki bara einhverjir einstaklingar, einhver einstök tilvik, heldur fjöldi námsmanna, vegna þess að þeir fái ofgreidd lán, eins og það er kallað. Á þessu hefur verið klifað en það hefur ekki verið nefnt, t.d. í minniblaði, sem hæstv. ráðherra eða stuðningsmenn hans, settu á flot 5. maí sl. varðandi þetta efni, að þeir sem lenda í því að fá meira í sinn hlut í útlánum en þeim stendur reikningslega réttur til, þegar litið er til þeirra tekna, greiða 5% refsiálag. Þeir þurfa að borga 5% vexti af þessum ofgreiddu lánum og á sama hátt hafi þeir oftalið tekjur sínar og þannig fengið lægri lán en til stóð þá fá þeir hins vegar ábót sem nemur 5% í ofanálag. Þetta held ég að hefði átt að fylgja sögunni frá upphafi og því nefni ég það hér að ég hef orðið var við að sú túlkun sem uppi hefur verið höfð í sambandi við þetta veldur verulegum misskilningi.
    Það er kannski ekki ástæða til þess af minni hálfu að hafa fleiri orð fyrir lok þessarar umræðu. Ég tala nú í þriðja sinn við umræðuna sem frsm. minni hluta menntmn. og sá ástæðu til þess að nefna þessi atriði sérstaklega og minna á framhaldið sem bíður okkar eftir að málið hefur gengið til atkvæða í 2. umr. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svo og formaður menntmn. og þeir, sem ráða ferðinni hjá meiri hlutanum, átti sig á því að við munum ganga eftir því milli umræðna og í nefndinni hvernig þau atriði verði útfærð sem hæstv. ráðherra hefur látið að liggja í umræðunni að komi til greina að breyta. Svo og að fá fram þær útlánareglur, sem stjórn lánasjóðsins, sá meiri hluti sem þar ræður ferðinni, hyggst beita við útlán á næstunni. Þá á ég við á næstu missirum. Læt ég svo máli mínu lokið, virðulegur forseti.