Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 23:33:26 (6128)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Í þeirri lánasjóðsumræðu sem staðið hefur nú sleitulaust alllengi hafa menn bent á ýmsa mjög svo alvarlega galla sem fylgja þessu lánasjóðsfrv. sem ráðherra hefur lagt fram og menntmn. reyndar gert ýmsar brtt. við sem allar eru til bóta. Engu að síður hafa ekki fengist viðhlítandi svör við því frá ráðherra hvort hann sé tilbúinn til að skoða þær alvarlegu athugasemdir sem hér hafa komið fram, sérstaklega hvað varðar þá fyrirætlan að greiða ekki út nein námslán í haust vegna þess að fólk þarf, samkvæmt því frv. til laga sem hér er lagt fram, að hafa sýnt námsárangur áður en það fær útgreiðslur á láninu. Með öðrum orðum, það þarf þá að brúa bilið frá hausti og fram yfir áramót með bankalánum til þess að framfleyta sér og sínum fjölskyldum.
    Það hafa reyndar verið gefin góð orð um að hugsanlega væri hægt að skoða þetta mál í nefnd á milli 2. og 3. umr. en það er engu að síður svo óljóst að ekki er hægt að treysta því, a.m.k. ekki eins og málin standa einmitt núna. Það það er því spurning hvort við verðum ekki að ræða þetta mál aðeins betur svo að formaður menntmn. og ráðherra skilji kannski örlítið betur hvaða alvara er hér á ferðum og hvaða alvarlegu athugasemdir það eru sem við höfum fram að færa við þetta mál. Að bæði formaður menntmn. og ráðherra skilji það þá og taki það til vinsamlegrar skoðunar. Þó að ég hafi haft ákveðnar efasemdir um það að þau skildu vinsamlegar ábendingar þá ætla ég ekki alveg að gefast upp á því og vona að þau séu þá tilbúin til þess að skoða þessar athugasemdir og taka málið til nefndar á milli 2. og 3. umr. Það væri satt að segja mjög gott innlegg í umræðuna ef annað hvort þeirra væri tilbúið til þess að lýsa því yfir að þau mundu beita sér fyrir því að málið yrði skoðað í menntmn., á milli 2. og 3. umr. Það held ég að gæti kannski gert útslagið í kvöld um þessa umræðu.
    Ég hef áður í umræðunni um lánasjóðinn vikið að villandi málflutningi um sjóðinn, um lánþega. Bæði villandi málflutningi sem haldið hefur verið uppi innan Alþingis og reyndar utan þess líka. Þessi málflutningur hefur að hluta til komið inn á börn og barneignir námsmanna. Því er gjarnan haldið fram af mörgum úti í samfélaginu að fólk með mörg börn fari beinlínis í nám af því þá geti það haft það svo gott. Þetta heyrum við mjög oft. Og það er kannski ekki skrýtið þó að láglaunafólk í landinu, sem auðvitað býr við taxta sem eru fyrir neðan allt velsæmi og ekki nokkur maður getur í rauninni lifað af, sé tortryggið. Það er auðvitað mjög auðvelt að ala á tortryggni hjá því fólki í garð námsmanna og ala á þeim hugmyndum að námsmenn lifi í vellystingum praktuglega og þess vegna fari fólk sem eigi í vandræðum með framfærslu sína og barna sinna frekar í lánshæft nám eigi það þess kost.
    Staðreyndirnar eru hins vegar allt aðrar. Oft þegar verið er að tala um þetta barnafólk er verið að tala um fólk sem á mörg börn, tvö börn eða fleiri. Ef við lítum nú á staðreyndir málsins kemur í ljós að það eru um 284 lánþegar í sambúð sem eiga þrjú börn eða fleiri. Og hvað skyldi þetta vera stórt hlutfall af lánþegum hjá Lánasjóði ísl. námsmanna? Hversu stórt hlutfall skyldi þetta nú vera? Þetta eru 3,5% af lánþegum, fólk í sambúð sem á þrjú börn eða meira. Þetta eru nú öll ósköpin, þessi ,,misnotkun á lánasjóðnum`` sem stundum er verið að tala um að --- eða þessi gulrót sem lánasjóðurinn á að vera fyrir barnmargt ungt fólk.
    Svo er það þessi hugmynd að þetta fólk, sem eigi þó þessi mörgu börn og fari í nám, hafi það svo gott. Ef við lítum á þennan hóp lánþega, þ.e. hjón með þrjú börn, og skoðum lánveitingar til þeirra þar sem annar aðilinn er í námi og hinn aðilinn er ekki í námi og heldur ekki á vinnumarkaði vegna þess að hann er að sinna ómegðinni. Þetta fólk er með lítil börn og það þarf að sinna börnum og það þarf að sinna barnauppeldi. Ef maki vinnur heimilisstörf er hægt að fá lán út á það ef það er sannanlegt að vegna ungra barna komist hann ekki út á vinnumarkað.
    Nú, þetta fólk fær að meðaltali að láni um 100 þús. kr. á mánuði. Og á þessu á sem sagt fimm manna fjölskylda að lifa. Ég held að ég þurfi ekki að segja neinum hér inni það að það lifir enginn í vellystingum praktuglega á 100 þúsund krónum á mánuði með þrjú börn á sínu framfæri.
    Önnur bábylja, sem oft hefur heyrst í þessu sambandi, er að einstæðar mæður flykkist í lánshæft nám vegna þess að þær hafi það svo miklu betra í námi heldur en á vinnumarkaði. Það væri betur að satt væri að þær flykktust í lánshæft nám því að vissu leyti má segja að fólk hafi það betra í námi en á vinnumarkaði að því leytinu til að það ræður tíma sínum mun meira. Þar af leiðandi hafa t.d. einstæðar mæður meiri möguleika á að sinna breytilegum þörfum barna ef þær eru námsmenn og eiga það þá við sjálfar sig hvort þær mæta í alla tíma sem þær þurfa að sækja, en ekki við vinnuveitanda. Þessar konur hafa sem sagt meiri möguleika á að sinna börnum sínum, að koma til móts við þau þegar þau verða veik, rækja ýmislegt foreldrastarf sem fylgir barneignum í nútímasamfélagi, bæði á skólum og dagvistarheimilum, og koma betur til móts við börn sín en ef þær væru fastar á vinnumarkaði.
    En eins og ég segi, það væri betra ef satt væri, að einstæðar mæður flykktust í lánshæft nám. Bæði vegna þessa og eins vegna hins að ég hef þá trú að fólk sem menntar sig eigi meiri möguleika á vinnumarkaði síðar meir, að það eigi fleiri kosta völ á vinnumarkaði, ekki síst vegna þess að menntun eykur sjálfstraust fólks og það trúir því frekar að það geti sinnt ýmsum störfum sem það hafði kannski haldið að það væri ekki fært um. Við getum tekið dæmi. Ekki er langt síðan við vorum að ræða frumvarp um starfsmenntun í atvinnulífinu á Alþingi. Fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni bentu á að námskeið sem haldin væru á vegum verkalýðshreyfingarinnar eða fyrirtækja, jafnvel algjör grunnnámskeið í fiskvinnslunni eða einhverjum iðngreinum hjá iðnverkafólki, gætu gjörbreytt viðhorfi fólksins til sjálfs sín og til sinnar getu. Margt af því fólki sem fer á slík námskeið er með þá hugmynd að það geti ekki lært. Því hefur kannski verið sagt í mörg ár að það geti ekki lært, að það sé ekki vel til þess hæft. Síðan fer það á námskeið og kemst að því að þetta er í raun tóm vitleysa, að það er vel fært um að læra. Oft verður það til þess að það fer að sækja fleiri námskeið, fer jafnvel og sækir sér formlega menntun og byggir smátt og smátt ofan á þessi námskeið. Menntun eykur sem sagt sjálfstraustið og þess vegna held ég að það væri mjög mikilvægt að lánasjóðurinn gæti orðið til þess að draga frekar að sér einstæðar mæður og gefa þeim tækifæri á að mennta sig.
    Einstæðar mæður, einstæðir foreldrar heitir þetta nú víst á öllum pappírum --- en eins og við vitum eru 80--90% og jafnvel yfir 90% þeirra konur og því einstæðar mæður, eru í raun fáar í námi. Hjá lánasjóðnum eru 645 einstæðir foreldrar sem taka lán. Þetta er 8% af lánþegum hjá lánasjóðnum. Ef við horfum svo til þess að um 4,5% heimila á landinu eru heimili einstæðra foreldra verður þetta nú ekki mjög hátt hlutfall, þó að það sé að vísu hærra en meðaltalið á landinu, þ.e. 8% hjá lánþegum lánasjóðsins en 4,5% á landinu. Við verðum líka að hafa það í huga að stór hópur einstæðra foreldra, eða mæðra, er einmitt á aldrinum 20--40 ára. Það er einmitt sá aldur sem er algengastur hjá lánþegum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Stór hópur einstæðra foreldra er einmitt á námsaldri og þess vegna er ekkert skrýtið að þeir vegi heldur þyngra í lánasjóðnum og í rauninni mjög eðlilegt að þeir vegi þyngra í lánasjóðnum en landsmeðaltal.
    Það sem ég óttast, verði frv. að veruleika, er að þessi hópur detti út, þ.e. hann dettur auðvitað aldrei alveg út, en að það verði mest afföll í þessum hópi með breytingu á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Því það er þessi hópur sem tekur að meðaltali hæst lán, það sjáum við í öllum gögnum frá lánasjóðnum. Auðvitað er það ekki skrýtið því að þessi hópur er með þunga framfærslu og það koma minni tekjur inn til heimilishaldsins hjá þessum hópi en hjá öðru barnafólki þar sem tveir sinna framfærslu. Þar af leiðandi, eins og ég segi, tekur þessi hópur að meðaltali hæst lán. Það er auðvitað ekki gefið, sérstaklega af því að þetta eru að stærstum hluta til konur og þær eru almennt talsvert tekjulægri en karlar, þær sjá kannski ekki fram á miklar tekjur að námi loknu og óttast því eðlilega að steypa sér í námslánaskuldir, ekki síst þegar vextir verða komnir ofan á námslánin.
    Í þessum hópi eru auðvitað einstaklingar sem verða verkfræðingar eða viðskiptafræðingar og komast í sæmilegar álnir að námi loknu. En við vitum það hins vegar að fullvinnandi konur hafa að meðaltali aðeins um 60% af launum fullvinnandi karla. Ef þessar konur miða sig við meðaltalið hjá menntuðu fólki þá vita þær svo sem að þær ganga ekki að neinum feitum bitum þegar námi lýkur. Þess vegna mega þær reikna með því að það verði þeim erfiðara en mörgum öðrum að greiða námslánið. Erfiðara að því leytinu til að þær verða kannski að því ævina á enda eða allt að því, eins og reikningsdæmi sýna, sem menntamálanefnd hefur látið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands taka saman eftir að hún kom með brtt. sínar. Verði þetta að veruleika þá held ég að þarna sé mikil óheillaþróun að fara af stað, sem geti ekki síst hitt konur fyrir.
    Ein bábyljan enn sem hefur komið fram og riðið húsum hér meðal annars, er að fólk leggist í barneignir á námsárum sínum á kostnað Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þetta orðalag held ég að ráðherra hafi einmitt viðhaft í þingsölum, að fólk legðist bara í barneignir á kostnað lánsjóðsins. Þetta er auðvitað eins og hver önnur firra vegna þess að við þurfum ekki annað en líta á tölur, ef við lítum á súlurit sjáum við náttúrlega hvers kyns er. Á þessari stóru súlu hérna eru einstaklingar í leigu- eða eignarhúsnæði, sem eru stærsti hluti lántakenda. 67% násmsmanna sem þiggja lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna eru barnlausir. Þannig að tala um að menn noti þetta sem sérstakt tilefni til þess að leggjast í barneignir er auðvitað eins og hver önnur firra.
    Hins vegar er það mjög mikilvægt og í samræmi við íslenskt hugarfar og íslenska menningu að bjóða börn velkomin. Komi þau undir á annað borð eiga þau auðvitað að vera velkomin. Það á ekki að gera fólki það erfitt að eignast börn, það á ekki að vera markmiðið með neinu sem við gerum á Alþingi. Hins vegar hefur margt verið samþykkt hér sem gengur í þá átt að gera fólki erfiðara fyrir um að eignast börn. Ég nefni bara nýlegt dæmi sem var niðurskurðurinn á barnabótunum. Og nú má búast við því aftur, ef þetta verður að veruleika, því þá er verið að gera barnafólki erfiðara fyrir um nám.
    Ég talaði um að það væri mikilvægt og í samræmi við íslenskt hugarfar og íslenska menningu að bjóða börn velkomin. Reyndar má nú segja að víðast hvar í samfélaginu er talsvert mikill tvískinnungur gagnvart börnum, ekki síst hér á hinu háa Alþingi. Við teljum okkur barnvinsamlega þjóð, við teljum okkur mikla menningarþjóð, en við erum samt svo frumstæð að við ástundum enn lausagöngu barna, ef svo má að orði komast, eins og í gamla bændasamfélaginu. Það er eins og við stöndum enn með annan fótinn í gamla bændasamfélaginu þar sem börn gátu gengið sjálfala. Í menningarlegu tilliti er það vissulega dálítið sjarmerandi að vera svona sterkt tengdur gamla, íslenska bændasamfélaginu og bændamenningunni, en það getur komið ansi hart niður á okkur ef við horfumst ekki í augu við það að við búum t.d. í Reykjavík í hörðu borgarsamfélagi. Og við þurfum auðvitað að mæta því með ýmsum úrræðum.
    Hins vegar má segja það að menntmn. hafi haft vit fyrir menntmrh. hvað það varðar a.m.k. að það er búið að setja fjölskyldutillitið inn í frv., þ.e. að tillit skuli tekið til fjölskylduaðstæðna. Það var ekki inni í því frv. sem lagt var fram fyrst og þar af leiðandi var réttur námsmannsins til þess að fá lán til að framfæra börn sín ekki skilgreindur í frv. Þetta hefur verið lagað og það er sjálfsagt að þakka það, þ.e. það hefur komið fram brtt. um að þessu verði breytt, og ég get nú ekki látið hjá líða að segja að ég hlýt að líta svo á að með þessu hafi formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, m.a. verið ofurliði borinn því að hugmyndir hans hafa verið þær að námsmenn ættu einungis að fá lán til að framfæra sjálfa sig og ekki til að framfæra börn sín. Þau ummæli viðhafði hann m.a. á gífurlega stórum fundi námsmanna í Háskólabíói og vísaði á annað kerfi sem ætti að sinna því að aðstoða fólk við að framfleyta börnum sínum. Og þegar hann var spurður að því hvaða kerfi það væri varð auðvitað fátt um svör, því þegar fundurinn var haldinn hafði hann, sem og aðrir alþýðuflokksmenn og sjálfstæðismenn hér á þinginu einmitt nýstaðið í því að skera þetta kerfi, barnabótakerfi, niður sem er þó ekki svo burðugt hér á landi. Það mátti kannski líka skilja orð formannsins sem svo að það væri verið að vísa á félagsmálastofnanir sveitarfélaganna og ég er nú ekki viss um að þær hefðu allar orðið mjög kátar við það að fá námsmannabörnin á sína framfærslu.
    Því hefur verið haldið mjög stíft fram af sjálfstæðismönnum sem talað hafa í þessu máli, bæði formanni menntmn. og menntmrh., að námslán séu vaxtalaus á námstíma og beri síðan 1% vexti eftir það. Í rauninni stenst þetta ekki skoðun þegar betur er að gáð. Ef við lítum fyrst á vaxtaleysið á námstímanum er ljóst að hluti námslánsins verður á 9--10% raunvöxtum. Það gerist einmitt vegna þess sem hefur svo margítrekað verið rætt, að námslánið er alltaf greitt eftir á, þ.e. námsmaður þarf fyrst að sýna námsárangur, rétt eins og hann sé alltaf á fyrsta ári, áður en hann fær greitt út námslán. Menn þurfa að lifa á meðan á því stendur og stór hluti námsmanna eru í það stífu námi að þeir geta ekki unnið með náminu. Ef þeir ynnu með náminu næðu þeir ekki tilskyldum einingafjölda sem þarf til þess að fá námslánið eftir áramót. Þeir þurfa því að fjármagna framfærslu sína og fjölskyldunnar með bankalánum og þegar lánið er síðan greitt út eftir áramót skerðist sú útgreiðsla sem nemur vöxtunum. Því að þeir verða auðvitað að klípa af láninu þegar það kemur til þess að greiða 9--10% raunvexti til bankakerfisins.
    Því hefur verið haldið fram að það snilldarbragð að greiða ekki út nein námslán fyrr en menn hefðu sýnt árangur --- þó svo þeir væru búnir að sýna samfelldan og mikinn árangur árum saman, að þá eigi þeir samt aldrei að vinna sér inn neitt kredit út á það --- sé gert til að firra því að námsmenn lendi í erfiðleikum. Þetta er auðvitað furðuleg röksemdafærsla vegna þess að þetta verður til að skapa erfiðleika hjá námsmönnum.
    Ráðherra hefur margsinnis komið og reynt að útskýra þær 55--60 milljónir króna sem séu ofgreidd lán til námsmanna á hverju ári. Í einhverju plaggi rakst ég á að það væri erfitt að innheimta þetta. Menn hafa nú reyndar hrakið það hér að þetta sé svo erfitt í innheimtu, flest ofgreiddd lán skili sér mjög fljótlega. Enda væri það mjög skrýtið ef það væri svona erfitt fyrir lánasjóðinn að innheimta þetta. Námsmennirnir undirrita skuldabréf með sjálfskuldarábyrgðarmönnum þannig að það á ekki að vera nokkur einasti vandi að innheimta. Það væri líka mjög skrýtið, ef haft er í huga að námsmenn þykja almennt mjög góðir skuldarar. Í plaggi sem Lánasjóður ísl. námsmanna gaf út 16. mars sl. eru upplýsingar banka um lánveitingar til nýnema. Það eru þó nýnemar, fólk sem er ekki einu sinni komin almennileg reynsla á, sem er að byrja í lánshæfu námi. Í upplýsingum frá Landsbankanum segir:
    ,,Landsbankinn telur að 20--25% nýnema fái fyrirgreiðslu frá Námunni í bankanum. Það er samkvæmt því 600--800 manns hærra hlutfall af þeim sem eru í námi erlendis en lægra hér á landi. Fyrirgreiðslan er oftast lítil, stundum óveruleg eða víxill fyrir jól. Þeir hafa allir yfirdráttarheimild, sem eru í viðskipum við bankann, allt að kr. 50.000.``
    Og svo kemur: ,,Bankinn telur þá góða viðskiptamenn og skil þeirra í mjög góðu lagi.``
    Því skyldu þeir vera svona góðir viðskiptamenn í bönkunum en ekki hjá lánasjóðnum? Ég hef líka enga trú á því að það sé yfir höfuð rétt.
    Lítum á Búnaðarbankann. Þar segir: ,,Í Námsmannalínu Búnaðarbankans fengu fyrirgreiðslu sl. haust 310 nýnemar og meðalfyrirgreiðsla til þeirra var 150.000 kr. Sömu almennu upplýsingar fygldu og hjá Landsbanka.``
    Þetta eru með öðrum orðum góðir skuldarar og þetta er fólk sem stendur við sínar skuldbindingar. Ég held reyndar að það eigi við um ungt fólk allra tíma. Það hefur stundum loðað við að fólk er að berja sér yfir blessuðum ungdómnum, eins og þar stendur, og heldur alltaf að heimur versnandi fari og það sé alltaf að koma miklu verri kynslóð heldur en sú sem gengin er. Ég held að þetta sé alls ekki rétt. Ég held að ungt fólk allra tíma sé hið besta fólk. Og ég held að það sé að mörgu leyti heiðarlegra, atorkusamara og réttlátara en margir sem eldri eru, vegna þess að það hefur einfaldlega ekki haft tíma til að spillast. Það er enn of ungt til þess að vera orðið illa spillt --- hvað eigum við að segja --- eftir að hafa farið krókaleiðir í gegnum allt kerfið. Það gerist ekki fyrr en menn eru komnir vel yfir miðjan aldur að þeir eru orðnir almennilega spilltir af kerfiskrókaleiðunum.
    Það hefur stundum verið talað um, sérstaklega í tengslum við umræðuna um Evrópubandalagið og Evrópska efnahagssvæðið, að við okkur blasi atgervisflótti úr landi ef við göngum ekki í Evrópska efnahagssvæðið eða Evrópubandalagið. Verði atgervisflótti að veruleika hefur hann ekki neitt með inngönguna í Evrópska efnahagssvæðið eða Evrópubandalagið að gera. Við þurfum ekki annað en að líta til Írlands. Hvað skyldi atvinnuleysi vera mikið á Írlandi? Hvað skyldu þeir missa mikið af sínu best menntaða fólki úr landi á Írlandi? Ég horfði um daginn á merka írska kvikmynd, það var reyndar nokkurs konar unglingamynd. Þar voru krakkar sem bjuggu í Norðurbænum í Dublin, þau sögðu: Norðurbæingar eru svertingjar Dublinborgar. Dublinarbúar eru svertingjar Írlands. Írar eru svertingjar Evrópu.

    Þetta hefur gerst á Írlandi þrátt fyrir inngöngu í Evrópubandalagið, þrátt fyrir mikinn tilflutning á fjármagni frá Brussel til Írlands í alls konar styrkjaformi. Það verður ekki atgervisflótti vegna þess að við göngum ekki í Evrópubandalagið eða Evrópska efnahagssvæðið. Það verður atgervisflótti ef við rænum ungt fólk möguleikunum á að mennta sig og þroska með þeim hætti sem hugur þess stendur til. Ef við þvingum t.d. allt ungt fólk til þess að hugsa í krónum og aurum, til þess að velja sér ,,arðbært nám`` eins og kallað er --- og ég set það svo sannarlega innan gæsalappa. Ef við hugsum út frá einstaklingunum, er það arðbært fyrir einstakling að fara í fiskifræði? Er það arðbært? Hvað skyldi það kosta námsmann að fara í fiskifræði? Fara fyrst í gegnum líffræðideild Háskóla Íslands á námslánum, fara síðan í framhaldsnám erlendis, í Noregi, og taka dýr námslán? Hvað skyldi það kosta? Og hver skyldu launin vera á Hafrannsóknastofnun? Er þetta arðbært fyrir einstaklinginn?
    Svo sannarlega ekki. En það er sjálfsagt fátt nám eins arðbært fyrir samfélagið og fiskifræðin. En því skyldi sá einstaklingur, sem leggur á sig þetta nám sem auðvitað getur gefið honum mikið sem manneskju, þurfa að greiða fyrir það sérstakt gjald að mennta sig í þágu samfélagsins?
    Ég ætla ekkert að hafa á móti því að fólk greiði til baka það sem það fær, en að það þurfi að greiða sérstakt gjald í ofanálag í formi vaxta fyrir það að mennta sig í þágu samfélagsins finnst mér engin vitglóra í.
    Ég skal taka annað dæmi. Er arðbært fyrir efnilegt ungt fólk að fara í sögu eða heimspeki? Er það arðbært? Gerast menntaskólakennari eða háskólakennari eða jafnvel rithöfundur eða hvað sem er að námi loknu. Er það arðbært? Auðvitað er það ekki arðbært. En fátt kemur sér betur fyrir samfélagið en víðsýnt og hugsandi fólk sem þekkir fortíðina og getur þess vegna spáð í framtíðina og lagt grunn að trú okkar á framtíðina. Fátt kæmi sér betur og fátt er arðbærara fyrir samfélagið. Við þurfum nefnilega vel menntað fólk í húmanískum greinum, listgreinum, raungreinum og iðngreinum, öllu sem nöfnum tjáir að nefna. Við þurfum fólk sem hefur valið þessar greinar af fúsum og frjálsum vilja, af því að það hefur löngun til þess, þykir námið spennandi og trúir því að það gefi því víðsýni og þekkingu. Þannig fólk þurfum við. Ekki fólk sem situr með reiknistokk eða reiknitölvu og finnur út, hvað er arðbært fyrir mig að gera. Við þurfum ekki slíkt fólk. En vel menntað fólk, sama á hvaða sviði það er, sér fleiri útvegi en hinir sem hafa ekki öðlast víðsýni menntunar vegna þess að menntun gefur fólki mikið. Þetta fólk kann vinnubrögð, er áræðið og skapandi. Og þá er ég að tala um menntun á hvaða sviði sem er. ( Gripið fram í: Nefnilega.) Já, nefnilega. Það er bara menntunin sjálf hver sem hún er.
    Ef við skiljum ekki og berum ekki gæfu til að fjárfesta í grunninum, í hugarfari fólks, hér á landi þá verður atgervisflótti. Ef við ætlum að halda áfram að bjóða upp á bölmóð, svartsýni, vonleysi og væl þá verður atgervisflótti. Þá getum við líka lagt okkur niður sem þjóð og gengið í Evrópubandalagið. Og það væri kannski óskandi. Ef þjóðin trúir ekki á sjálfa sig lengur og sér þann kost vænlegastan að ganga í Evrópubandalagið fær hún kannski trú á sjálfri sér þar. Ég gæti jafnvel lagt það til að þjóðin gengi í Evrópubandalagið ef hún er búinn að missa alla trú á sér. Það fengist þá kannski það út úr því að hún fengi trú á sjálfri sér sem hluta af Evrópu, þessu sterka bandalagi.
    Af hverju halda menn að þjóðinni hafi vaxið ásmegin við heimastjórn, við fullveldi og við sjálfstæði á sínum tíma? Af hverju halda menn það? Það var ekki fyrst og fremst vegna þess að hún fékk stjórntækin í eigin hendur. Auðvitað var það mikilvægt, menn þurfa að hafa stjórntækin til að geta gert margt. En það var ekki fyrst og fremst vegna þess að þjóðin fengi stjórntækin heldur fékk hún trú á sjálfri sér. Hún fékk trú á sjálfri sér, að hún væri sérstök, ætti sérstaka menningu, hefði hlutverki að gegna, gæti allt --- hún trúði á mátt sinn og megin. Það var það sem þetta gaf. ( GHelg: Besti pólitíkus sem Ísland hefur alið var Jónas Hallgrímsson). Akkúrat. Hann gaf þjóðinni trú og það gerði Jón Sigurðsson líka, þeir gáfu henni trú á sjálfa sig í gegnum menninguna, í gegnum söguna. Það er það sem skiptir máli. Svo við tölum nú út frá nútímahugtökum í markaðsfræðum má kannski segja að heimastjórnin, fullveldið og sjálfstæðið hafi verið besta markaðssetning okkar í íslensku samfélagi. Þetta var markaðssetning. Og það er alveg sama og menn hafa talað um með hvítbók og innri markað Evrópubandalagsins. Það er líklega best heppnaða markaðssetning síðari tíma. Allt í einu var Evrópubandalagslöndunum færð trúin á það að þau gætu keppt við Japan og Bandaríkin, að þau stæðu á sterkum menningarlegum grunni sem gæti gefið þeim eitthvað, gæti skapað eitthvað. Það var þessi trú sem þau fengu í gegnum hvítbókina og einingarlögin sem hefur haft hrein sálræn áhrif í Evrópu. Við getum séð áratuginn áður, 1972--1985, þá einkenndist efnahagslíf í Evrópu af því sem kallað er lömun. Það var talað um Evrópu-lömunina. Það var verðbólga, atvinnuleysi og svo allt í einu gerist eitthvað. Það gerist ekki bara vegna þess að einingarlögin hafi gjörbylt einhverjum efnahagsmálum eða gjörbylt atvinnulífinu. Það varð auðvitað ekki þannig. Heldur var það trúin sem menn fengu og fór hreinlega að skapa efnahagslegan ávinning. Það er það sem skiptir máli einmitt núna. Núna er andrúmsloftið í samfélaginu í rauninni það við getum ekkert, höfum ekki efni á neinu, kunnum ekkert og verðum að fá eitthvert hjálpræði að utan. Ef ekki í formi álvers þá í formi Evrópsks efnahagssvæðis eða Evrópubandalags. Bölmóðurinn er slíkur núna að það er eins og þjóðin eigi engra kosta völ, að hún hafi ekki efni á nokkrum sköpuðum hlut. Fólki er jafnvel talin trú um að við höfum það svo skítt. Auðvitað er það ekkert þannig. Við höfum það bara gott. Við þurfum kannski að taka okkur tak og þurfum að vinna betur úr hlutunum og fara betur með, og það getum við allt saman ef við bara trúum því.

    Við skulum líta aftur í tímann til fyrri hluta aldarinnar. Hvað var ekki gert hér út úr engu? Byggður var upp innlendur háskóli, héraðsskólar voru byggðir um allt land, smábörn á öllu landinu fengu menntun. Af hverju gátum við þetta? Hvað áttum við? Við áttum ekki neitt annað en trúna á að við gætum þetta.
    Ég var að tala um ofurtrú manna á því að allt gott komi að utan, að hjálpræðið komi að utan. Ég hallast að því að þetta sé að verða, ef við getum sagt sem svo, markviss stefna í Evrópuríkjum utan Evrópubandalagsins núna. Að þau geti ekkert og kunni ekkert og verði bara að fara þarna inn til þess að bjargast. Þetta finnst mér ég sjá t.d. hjá Norðurlöndunum. Ég vil kalla það sem er í gangi núna Norðurlandavælið. Menn segja að norræna módelið sé dautt, norræna módelið sé búið að vera. En hvað var það sem gaf Norðurlöndunum sérstöðu í heiminum? Það var norræna módelið. Það var einhver sérstaða sem Norðurlöndin áttu og þeim fannst mikilvæg og þeim fannst að þau gætu kennt öðrum þjóðum. Eitthvað sem byggði á lýðræði, eitthvað sem byggði á jafnræði, eitthvað sem byggði á jöfnuði. Og einmitt trúin á að þetta væri sérstakt og mikilvægt gaf Norðurlöndunum vigt á alþjóðavettvangi. En núna segja menn við fólk heima fyrir: Norræna módelið er dautt. Við erum ekkert og verðum að leita til Evrópubandalagsins. Og nú á að reyna að selja Norðurlöndunum nýja trú með EB-aðild. EB-aðild á að skapa trú og von og verða bjargræði þessara þjóða. Hún verður það ekkert nema eins og ég segi, hún getur haft þau sálrænu áhrif að þær trúi því a.m.k. tímabundið að þær séu með í Evrópu, séu Evrópuþjóðir sem hafi öðlast pláss í ljósinu. En eins og ég segi, atgervisflótti verður ekki vegna þess að við stöndum utan Evrópska efnahagssvæðisins eða EB, það ræðst hér innan lands hvort það verður atgervisflótti eða ekki. Það ræðst af því hvernig við tökum sjálf á málum. Ef við ætlum að halda því statt og stöðugt fram að við höfum ekki efni á neinu, að við höfum ekki efni á að mennta þjóðina almennilega getum við bara lagt hana niður.
    Ég ætla að ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að mér finnst mjög mikilvægt að ráðherra eða formaður menntmn. komi með einhverja yfirlýsingu um það hvort þau séu tilbúin til að skoða þær alvarlegu athugasemdir sem gerðar hafa verið í þessari löngu umræðu. Hvort þau eru tilbúin til að skoða þær í nefndinni á milli 2. og 3. umr. Og ég held að það væri talsvert mikilvægt innlegg ef hægt væri að ná því fram hér.