Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 00:08:10 (6129)


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Undir þeirri þrumuræðu sem nú var flutt af hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur bað ég forseta um að mega segja nokkur orð hér. Tíminn líður og við vitum ekki hvað þessi umræða hefur staðið lengi, hvað tímarnir eru margir eða dægrin, en konur hafa mikið látið í sér heyra í umræðunni sem ég hélt að mundi kannski ekki verða sérstaklega uppbyggileg. En þetta er ein merkasta umræðan að mínum dómi sem hefur verið flutt á þessu þingi, þessu annars leiðinlega þingi sem við höfum nú háð, og ég held að það sé konunum að þakka. Mér er náttúrlega dálítið umhendis að viðurkenna það en ég verð líklega að gera það. Þær eru að taka völdin meira og minna og kannski verður þetta bara ágætt þegar þær hafa tekið völdin.
    En í öllu falli er alveg ljóst að það er ekki bara verið að tala um að menntunin sé til gamans heldur geti hún líka verið hagstæð fjárhagslega. Það skiljum við karlarnir nefnilega. Þess vegna held ég að það sé rétt að hamra svolítið á því að besta fjárfestingin er að fjárfesta í konum. Ekki bara til að hafa þær sem eiginkonur heldur til þess að láta þær vinna vandaverkin. Þ.e. stýra tölvunum og hugsun fólksins meira og minna, t.d. að vera skáld sem við höfum nú hér, ekki ómerkilegt. Í öllu falli er mér ekkert grín í huga þegar ég segi að besta fjárfestingin er auðvitað menntun í heimi nútímans og það hafa konurnar sagt okkur í dag. Þess vegna gat ég ekki orða bundist og vil þakka sérstaklega fyrir það.
    Ég hef sagt að peningar séu ekki til, þó að reynt sé að telja okkur trú um það. Ég hef marghamrað á því og hagfræðingarnir hafa ekki átt gott með að hrekja þá staðreynd sem ég hef beðið þá um að gera, að peningar séu bara eitt, ávísanir á verðmæti. Og hvaða verðmæti í heiminum eru meiri en þekking og náttúrlega atorka, skilningur? Hvaða verðmæti eru meiri til í heiminum en börnin okkar ef þau menntast? Þau eru ekki til. Ísland er ríkasta land heims, langríkasta. Og tölurnar sem núna loksins koma frá hagfræðingunum og spekingunum öllum saman sem eru að reikna kreppuna yfir okkur eru þær að börnin sem fæðast séu náttúrlega miklu ríkari en nokkur börn sem fæðst hafa áður og að auður þeirra, barnanna okkar í vöggunni, sé miklu meiri en skuldirnar.
    Það er alltaf verið að segja okkur að börnin okkar eigi að taka við skuldabagganum en við höfum nú samt, þessi kynslóð mín, haldið þannig á málum að börnin eiga ekki bara núll, þau eiga veruleg verðmæti þegar þau fæðast. En það er ekki nærri nóg í þessum harða heimi. Við þurfum að láta það sannast, einmitt af því að við erum fá, að við séum menntaðasta þjóð heimsins. Við getum verið það einmitt af því að við erum fá. Ég er ekki að óska eftir miklum barnsfæðingum en í guðs bænum samt að leyfa börnunum að fæðast. Og eins og síðasti ræðumaður sagði er náttúrlega ljóst að börn þurfa að fæðast til að geta menntað þau. Og til þess að geta auðgað okkar þjóðlíf og við getum bætt við, tvöfaldað mannfjöldann eða þrefaldað eða fjórfaldað hann sem gerist vonandi og væntanlega. En mergurinn málsins er sá að allt þetta svartnættishjal um að við séum svo fátæk, allt sé á hausnum, er allt saman meira og minna heimatilbúin kreppa og hefur verið árum saman og nærri því áratugum.
     Menn eru alltaf að þvæla um að Ísland sé fátækt land. Ég endurtek það og hef sagt það margsinnis að við séum rík. En það er eins og að höggva í hart helvíti. Menn geta bara ekki leyft sér þetta lengur. En einhvern veginn erum við þessir kotungar, þótt við séum menntuð sum, að við erum alltaf að afneita því og telja börnunum okkar trú um að ekki sé hægt að mennta þau. Það er þannig að þau geta ekki menntast, það er þannig enn. Það er verið að arðræna börnin sem eru að reyna að menntast. Auðvitað ættu þetta að vera námsstyrkir. Þetta ættu að vera ,,fjárfestingarlán``, hvorki meira né minna, sem þjóðin öll greiddi á löngum tíma og við, þessi kynslóð mín ætti að hafa þann manndóm að mennta öll íslensk börn sem vilja menntast og það vilja öll börn menntast með einhverjum hætti.
    Ég lofaði forseta að fara ekki að halda neina ræðu og er nú vanur að tala stutt en reyna þó að segja það sem ég meina. Og ég meina það að þessi barlómur og aumingjaskapur gengur ekki lengur. Við eigum að mennta okkar börn og græða á því, það skilja menn. Það er fjöldi manna sem vill bara græða og græða, ég líka. Og við skulum bara gera það.