Lánasjóður íslenskra námsmanna

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 11:59:00 (6138)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Um miðjan áttunda áratuginn voru sett lög um Lánasjóð ísl. námsmanna sem, þó að þau væru vissulega ekki gallalaus, mörkuðu tímamót. Þau voru tímanna tákn þá vegna þess að inn í markmiðssetningu þeirra laga kom þá hugtakið að tryggja jafnrétti til náms. Með frv. sem hér liggur fyrir er verið að fella þetta út og það er auðvitað líka tímanna tákn. Það er ekki tilviljun að það skuli gerast einmitt núna.
    Ég vil taka undir það sem aðrir hafa hér sagt að það er hugmyndafræðileg breyting á ferðinni og stjórnarflokkarnir skulda Alþingi og alþjóð skýringu á þessari hugmyndafræðilegu breytingu sem þarna á sér stað.
    Þessi breyting flokkanna er til marks um tragísk örlög beggja stjórnarflokkanna. Ekki síst er þetta til marks um tragísk örlög Alþfl., Jafnaðarmannaflokks Íslands, sem með þessu hefur glatað öllum ídealisma, sem er flokkur tæknikrata sem eru tíndir í praktískri umræðu um praktísk mál.
    Kvennalistakonur leggja höfuðáherslu á jafnrétti til náms og þess vegna segjum við auðvitað já.