Lánasjóður íslenskra námsmanna

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 12:20:00 (6145)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Brtt. okkar minni hluta menntmn. varðar einn forsetningarlið, tvö orð, að orðin ,,ásamt vöxtum`` verði tekin út úr frv. Það mun draga slóða á eftir sér ef þessi brtt. verður felld og þessi tvö orð verða látin standa og lögfest.
    Nú er verið að lögleiða í fyrsta sinn hérlendis vaxtatöku af námslánum. Samþykkt á þeirri stefnu felur ekki aðeins í sér viðbótarálögur á námsmenn heldur einnig breytta afstöðu til náms og þekkingarleitar. Sú breyting hefur að vísu náðst fram að í stað fastrar 3% vaxtatöku samkvæmt frv. leggur meiri hluti ríkisstjórnarinnar nú til breytilega vexti, allt að 3%. Ríkisstjórnin hefur boðað að vextir á námslán verði fyrst um sinn 1%. Gildi þeirrar ákvörðunar er afar takmarkað. Hvenær sem er verður hægt að hækka vextina með einfaldri ríkisstjórnarsamþykkt og slík ákvörðun yrði afturvirk fyrir námsmenn, allt að námslokum.
    Alþb. og stjórnarandstaðan í heild hefur gagnrýnt þessi áform um vaxtatöku harðlega. Ég segi já við brtt.