Umræður um skýrslur

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 14:27:00 (6172)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst fagna því að forseti hefur lýst því yfir að umræðan um skýrslu um stöðu sjávarútvegsins geti farið fram í næstu viku. Við höfum sýnt mikla þolinmæði undanfarnar vikur gagnvart þeirri skýrslu, en á sama tíma hafa hvað eftir annað komið fram alvarlegri fréttir í fjölmiðlum um stöðu sjávarútvegsins.
    Ég vil hins vegar einnig minna á að nokkrir þingmenn Alþb. fluttu mjög merkilegt og vandað frv. um breytingar á lögum um verðlag og samkeppni, 1. flm. er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Þetta frv. er óvenjulegt að því leyti að það er frekar sjaldgæft að þingmenn flytji hér jafnítarlegt frv. og í greinargerð þess kemur fram að mjög vönduð vinna hefur verið lögð í þetta mál. Þetta frv. var flutt allnokkru áður en hæstv. viðskrh. flutti frv. um svipað efni í þinginu. Engu að síður gerðist það í þessari viku að forseti af góðvild sinni við hæstv. viðskrh. hleypti honum fram fyrir með það frv. sem hann hefur flutt þó engin efnisástæða í sjálfu sér væri til þess og ekkert kallaði á það. Við gerðum þá þá athugasemd að áður en sú umræða héldi áfram væri nauðsynlegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fengi tækifæri til að mæla fyrir því frv. sem þingmenn Alþb. hafa flutt.
    Ég vil, virðulegi forseti, leggja á það ríka áherslu að það tækifæri verði skapað og það verði gert á þeim tíma þegar ráðherrar eru viðstaddir, bæði forustumenn Sjálfstfl. og einnig hæstv. viðskrh., svo hægt sé að ræða málið með burðugum hætti.
    Til að fyrirbyggja misskilning vil ég árétta að það væri afar slæmt ef þinginu lyki á þann veg að eingöngu hæstv. viðskrh. hefði fengið að troða sér fram með það frv. sem hann flutti á eftir þingmönnum Alþb. en þingmönnum Alþb. hefði ekki gefist færi á að mæla fyrir sínu frv.
    Ég segi þetta sérstaklega vegna þess að ég tek eftir því í blöðum í dag að utan þings eru að hefjast umræður um þessi mál og við teljum ekki viðunandi að sú umræða sé eingöngu á grundvelli þess frv. sem hæstv. viðskrh. hefur flutt.
    Ég vil því ítreka þá beiðni við hæstv. forseta að strax eftir helgina verði sköpuð aðstaða til þess, að viðstöddum þeim ráðherrum sem hlut eiga að máli, að 1. umr. um frv. sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon er 1. flm. að geti farið fram.