Kynning á íslenskri menningu

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 14:32:00 (6174)

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 200 flytjum við, ég og hv. 14. þm. Reykv., frv. til laga um kynningu á íslenskri menningu erlendis. Hér er um að ræða frv. þar sem í fyrsta sinn er gerð tilraun til þess að taka á kynningarmálum íslenskrar menningar með heildstæðum hætti í frumvarpsbúningi. Staðreyndin er sú að kynning á íslenskri menningu erlendis og reyndar innan lands líka, má segja, hefur verið ákaflega tilviljunarkennd. Þar hafa menn ekki lagt mikla áherslu á að vinna samstætt og heillega og niðurstaðan hefur orðið sú að sú kynningarstarfsemi sem hefur verið í gangi hefur ekki skilað eins miklum árangri og hún gæti skilað. Þá er ég að tala um árangur fyrir Ísland og Íslendinga, ekki bara þannig að vakin sé athygli á Íslandi almennt séð heldur er ég þeirrar skoðunar líka að með öflugu og víðtæku kynningarátaki á íslenskri menningu sé unnt að breyta menningunni í fjármuni ef rétt er á haldið. Vandinn hefur hins vegar verið sá að þegar menn hafa farið yfir þá hluti sem heitir útflutningur eða kynning á útflutningsafurðum Íslendinga hafa menn af eðlilegum ástæðum fyrst og fremst staldrað við fisk, en ég segi að það er sérkennilegt að þessi mikla menningarþjóð, sem telur sig vera, skuli í þessari starfsemi eingöngu staldra við fisk. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að það sé mikið vænlegra til að lyfta ljósi Íslands á alþjóðavettvangi að vera með öfluga menningarkynningu af öðru tagi en því sem Útflutningsráð hefur beitt sér fyrir þar sem menn hafa náð þá lengst í hugmyndafluginu þegar þeir hafa sýnt kraftajötna eða fegurðardrottningar með rækjum.
    Satt að segja hefur starfsemi Útflutningsráðs verið afar sérkennileg vegna þess að ef menn ætla sér að draga upp einhverja mynd af Íslandi er það auðvitað íslensk menning sem á að vera þar í fararbroddi.
    Vissulega höfum við á undanförnum árum náð stórfelldum árangri á ýmsum sviðum að því er þetta varðar. Við höfum tekið með mjög myndarlegum hætti þátt í margs konar erlendum list- og menningarviðburðum. Ég get í því sambandi t.d. nefnt bókamessuna í Gautaborg, þátttöku okkar í menningarhátíðinni í Tampere, þátttöku okkar í menningarhátíð á Feneyjum, þátttöku okkar í menningarhátíð í Frakklandi. Og úr því að ég nefni Frakkland tókst okkur að ná verulegum árangri með samningum um menningarmál sem við gerðum við Jack Lang, menningarmálaráðherra Frakklands, á árinu 1990.
    Við höfum einnig náð ótrúlega langt á ýmsum öðrum sviðum, eins og t.d. í kvikmyndagerð. Á síðasta kjörtímabili tókst okkur að ná samningum um aðild Íslands að mörgum erlendum kvikmyndasjóðum. Sú staðreynd hefur skilað fjármunum til íslenskrar kvikmyndagerðar sem eru margfaldir á við þá fjármuni sem Kvikmyndasjóður Íslands hefur getað lagt til kvikmyndagerðar. Og við höfum orðið vitni að stórkostlega ánægjulegum tíðindum á þeim vettvangi á undanförnu.
    Við höfum einnig séð að þegar vel er staðið að kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis með skipulegri þýðingarstarfsemi á íslenskum ritverkum hefur það einnig skilað miklum árangri. Nýjasta dæmið um það eru þau verðlaun sem Guðrún Helgadóttir hlaut fyrir fáeinum dögum.
    Þannig er alveg ljóst að á þessu sviði eiga Íslendingar gífurlega mikla möguleika og á grundvelli þess er hér flutt frv. til laga um kynningu á íslenskri menningu. Markmið þess er að stuðla að öflugri og skipulegri kynningu á íslenskri menningu erlendis. Í því skyni gerir frv. ráð fyrir að stofnuð verði skrifstofa er nefnist Miðstöð íslenskrar menningarkynningar. Frv. byggir á þeirri hugsun m.a. að þeir fjármunir sem hvort eð er fara til menningarstarfsemi, menningarkynningar erlendis á vegum menntmrn., fari í gegnum þessa skrifstofu en ekki í gegnum hendur menntmrh., hver svo sem hann er. Þess vegna felst í þessari hugmynd valddreifing frá miðstöðinni í menntmrn. yfir til listamannanna sjálfra og annarra þeirra sem stunda kynningu á íslenskum menningarafurðum.
    Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að meginhlutverk skrifstofunnar verði að vinna að því að kynna erlendum aðilum íslenska menningu. Verkefni hennar verði í fyrsta lagi að stuðla eins og frekast er kostur að samvinnu þeirra aðila sem annast kynningu á íslenskri menningu. Í öðru lagi að annast upplýsingaþjónustu gagnvart erlendum aðilum um íslenska menningu. Í þriðja lagi að hafa frumkvæði að og annast skipulag á kynningu á íslenskri menningu erlendis. Í fjórða lagi er skrifstofunni heimilt að taka þátt í kynningu íslenskrar menningar hérlendis.
    Eins og menn heyra er í fyrsta lagi lögð áhersla á það aðalatriði að það skapist forsendur til að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem vilja vinna að kynningu á íslenskri menningu erlendis. Mín reynsla úr menntmrn. segir mér það að í kringum hverja stórsýningu, menningarviðburð erlendis, vakni iðulega upp fjölda margir aðilar hér á landi sem hafa áhuga á þátttöku eða framlagi í viðkomandi menningarviðburð. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru mörg dæmi um að menntmrn. hafi ekki haft aðstöðu til að sinna þessari kynningarstarfsemi sem skyldi. Útkoman hefur orðið dreift átak en ekki sameinað. Niðurstaðan hefur orðið sú að þeir litlu fjármunir sem auðvitað eru til nýtast ekki sem skyldi. Ég gæti nefnt mörg dapurleg dæmi um þetta, en ég tel ástæðu til að hlífa þingtíðindunum við þeim dæmum.
    Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því að þessi skrifstofa íslenska menningarkynningar annist upplýsingaþjónustu gagnvart erlendum aðilum um íslenska menningu. Staðreyndin er sú að það er geysilegur áhugi á íslenskri menningu erlendis. Hann er ótrúlega mikill. Ég efast satt að segja um að þingmenn geri sér almennt grein fyrir hvað það er mikil eftirspurn eftir íslenskri menningu erlendis. Ég geri ráð fyrir því að það sé um það bil tíundi hluti þeirra menningarviðburða erlendis sem okkur er boðin þátttaka í sem við getum tekið þátt í. Ég er með öðrum orðum að segja að ef við ynnum skipulega gætum við komið íslenskri menningu á framfæri á a.m.k. tíu sinnum fleiri stöðum en nú er ef við ynnum með skynsamlegum hætti og ég tala nú ekki um ef upplýsingastarfsemi væri skipuleg. Þá er alveg augljóst mál að enn fleiri aðilar mundu koma þarna við sögu.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir að miðstöð íslenskrar menningarkynningar eða skrifstofan lúti yfirumsjón menntmrn. Gert er ráð fyrir að í stjórn skrifstofunnar eigi sæti þrír menn sem verði skipaðir af menntmrh. sem hér segir: Einn samkvæmt tilnefningu Bandalags ísl. listamanna og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður en hinn vera frá fyrirtækjum og stofnunum sem fást við að flytja út íslenskt menningarefni. Stjórnin er skipuð til fjögurra ára í senn, varamenn verði skipaðir með sama hætti og síðan segir, sem er mjög mikilvægt atriði: ,,Í tengslum við skrifstofuna skal starfa ráðgjafarhópur skipaður fulltrúum helstu listgreina í landinu.``
    Það skipulag sem hér er fitjað upp á á fyrirmynd sína í Finnlandi. Finnar ákváðu fyrir fimm, sex árum eða svo að endurskipuleggja alla yfirstjórn menningarmála í sínu landi að því er ríkið varðar. Þar eru starfandi margir ráðgjafahópar sem hver um sig vinnur fyrir menningarmálaráðuneytið á viðkomandi sviði. Formenn þessara hópa mynda sérstakt ráðuneyti sem vinnur með menningarmálaráðherranum að mótun menningarstefnu og þetta frv. sækir hugmyndirnar þangað. Þær hafa gefist mjög vel, þær hafa vakið mikla athygli hjá íslenskum listamönnum og margir þeirra hafa bent mér á að hér sé um að ræða snjalla

lausn á þessu máli, að laða saman þá krafta sem vilja sinna menningarkynningu á erlendum vettvangi.
    Þá er gert ráð fyrir því að einn stjórnarmaður verði frá þeim aðilum sem vinna við að kynna íslenska menningu erlendis. Það verði til hópur, ráðgjafarhópur, fulltrúahópur, á vegum þessara aðila. Í greinargerð frv. eru nefnd dæmi um þá aðila, t.d. Listasafn Íslands, listasöfn Reykjavíkur, Tónverkamiðstöðin, Félag ísl. bókaútgefenda, Samtök hljómplötuframleiðenda og Félag ísl. kvikmyndaframleiðenda. Þeir aðilar sem hins vegar mundu koma í ráðgjafahópinn til viðbótar þessum mundu vera frá Rithöfundasambandi Íslands, frá leiklistarráði, Tónskáldafélagi Íslands, Félagi ísl. tónlistarmanna, Félagi ísl. hljómlistarmanna, Félagi ísl. tónskálda og textahöfunda, Arkitektafélagi Íslands, Félagi kvikmyndagerðarmanna og Sambandi ísl. myndlistarmanna.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir því fyrirkomulagi að framkvæmdastjóri menningarskrifstofunnar sé ráðinn til þriggja ára í senn með heimild til endurráðningar tvisvar í önnur þrjú ár. Framkvæmdastjórinn er ráðinn að fengnum tillögum stjórnar skrifstofunnar. Með öðrum orðum er það stjórn skrifstofunnar sem ræður því í raun og veru hver er ráðinn og menntmrh. getur auðvitað synjað tillögu stjórnarinnar, en hann getur ekki komið með einhverja allt aðra tillögu eða allt aðra skipun en stjórn skrifstofunnar gerir ráð fyrir.
    Síðan er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að framkvæmdastjórinn ráði annað starfslið með samþykki stjórnar og eftir því sem fjárheimildir standa til.
    Tekjur skrifstofunnar, hverjar eru þær? Þær eru framlög úr ríkissjóði eins og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni og svo framlög sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga og um þessi atriði ætla ég að fara nokkrum orðum.
    Í fjárlögum ársins 1992 eru, eins og oft áður á undanförnum árum, margir liðir sem eru ætlaðir til almennra menningarverkefna af ýmsu tagi. Það er liðurinn Kynning á íslenskri list erlendis. Hann er 9 millj. kr. Þar er liðurinn Lista- og menningarmál ýmis sem er einnig 9 millj. kr. Þar er Samnorræn menningarkynning. Þar eru Menningarmál ýmis. Hér er samtals um að ræða, þegar allir þessir liðir eru skoðaðir, u.þ.b. 30 millj. kr. Þessir liðir eru óskiptir í fjárlagafrv. og fjárlögunum. Hins vegar hefur fjárln. stundum á undanförnum árum, eða meðan hún hét fjárveitinganefnd alla vega, þá þekkti ég það, haft það fyrir sið að skipta þessum liðum fyrir ráðherrana. Verð ég að segja eins og er að það er einhver athyglisverðasta upplifun ævi minnar þegar ég fékk mat fjárveitinganefndar á mikilvægustu menningarstarfseminni þegar nefndin skipti þessum liðum. Fjárveitinganefnd reyndi að setja þarna inn ýmis samtök sem hún kunni ekki við að gera tillögur um að fengju peninga beint af fjárlögum, af einhverjum ástæðum, hræsnisfullum ástæðum, undarlegum ástæðum, eins og Samtökin '78, trúi ég þau heiti, og sömuleiðis gerði nefndin tillögur um að af þessum liðum, Ýmis menningarmál, færu alls konar styrkir til íþróttafélaga og gjarnan kóra í kjördæmum þeirra þingmanna sem fulltrúa áttu í fjárveitinganefnd. Þetta er auðvitað lögbrot vegna þess að fjárveitinganefnd hefur enga heimild til að gera þetta. Það er Alþingi sem ákveður að ráðherrann skipti þessum liðum.
    Hér er gert ráð fyrir því að þessir fjármunir séu teknir inn í þessa menningarkynningu með skipulegum hætti upp á 30 millj. kr., en auk þess gert ráð fyrir því að sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar geti lagt peninga til starfseminnar. Auðvitað er það svo að það má vel hugsa sér að fyrirtæki komi þarna við sögu. Ég bendi t.d. á að á bókakynninguna í Gautaborg komu inn fjármunir frá fjölda fyrirtækja hér á landi, Máli og menningu, Iðunni og fleiri slíkum aðilum, Námsgagnastofnun, bæði einkaaðilum og opinberum aðilum. Það má því vel hugsa sér að þarna komi inn talsverðir fjármunir frá öðrum aðilum. Auk þess er það auðvitað þannig að opinberar stofnanir, t.d. bankar, hafa gjarnan verið að setja peninga í menningarmál og þó að bankastjórar t.d. Seðlabankans séu alveg einstakir höfuðsnillingar eins og allir vita er kannski ekki endilega víst að það eigi að fela þeim að hafa forsjá yfir þeim peningum sem ríkið leggur til menningarmála. En þannig er það. Bankastjórar Seðlabankans ákveða að kaupa flygla fyrir einhverjar milljónir og bankastjórar Seðlabankans ákveða að kaupa málverk fyrir einhverjar milljónir. Mér er sagt að næst á eftir Listasafni Íslands sé Seðlabankinn langleiðina að verða eitt af bestu listasöfnum landsins ef allt væri hengt upp á vegg.
    Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að allir þessir aðilar komi inn í þennan sjóð til að kynna íslenska menningu erlendis með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Upphafleg drög að þessu frv., virðulegi forseti, voru samin af nefnd sem menntmrh. skipaði í byrjun janúar 1991 og áttu sæti í nefndinni Guðrún Ágústsdóttir, Jón Sveinsson tilnefndur af forsrh., Jakob F. Magnússon, sem er nokkuð þekktur maður eins og aðrir í nefndinni, tilnefndur af utanrrh., og Halldór Guðmundsson, tilnefndur af fjmrh. Þessi nefnd, með fulltrúum úr öllum þessum flokkum, náði fullri samstöðu um málið og lagði til að það yrði skapaður lagarammi utan um starfsemi af þessu tagi.
    Í nágrannalöndum okkar öllum eru til starfandi hliðstæðar stofnanir til að vinna að kynningu á menningarstarfsemi erlendis. Ég er ekki að segja að við þurfum að sækja allt þangað. Ég er ekkert afar hrifinn af því yfirleitt eins og menn vita og fell ekki mjög gjarnan fyrir útlendum tískustefnum af ýmsu tagi. En allt um það tel ég að þarna sé farið inn á skynsamlega leið virkrar menningarkynningar og valddreifingar til listamannanna um leið og þeirra sem hafa áhuga, eru brennandi af áhuga á því að kynna íslenska menningu og andlit Íslands út á við og breyta verðmætum hennar ekki aðeins í huglæg, andleg verðmæti heldur líka í beinharða peninga. Ég er alveg sannfærður um að það mætti stórauka útflutningstekjur Íslendinga ef menn sinntu með virkum hætti sölustarfsemi á íslenskri menningu og menningarafurðum á erlendum vettvangi. Það mætti stórauka útflutningstekjur okkar. Því miður hefur það ekki verið tekið saman hvað við þegar höfum upp úr því sem íslensk menning hefur upp á að bjóða erlendis í beinum fjármunum, en þar er þegar um að ræða gríðarlegar upphæðir. Ég er sannfærður um að þar er um að ræða upphæð sem ekki er undir einum milljarði kr. ef allt væri skoðað með eðlilegum hætti.
    Ég fór lauslega yfir þetta fyrir fáeinum missirum og komst þá að niðurstöðu sem var eitthvað í kringum þessa tölu. Ég er þess fullviss að það er hægt að stórauka við verðmæti af þessu tagi. Þetta er kannski til umhugsunar ekki síst núna þegar menn vilja eins og áður standa þannig að málum að öll upphefð okkar eigi að koma að utan og við eigum að bíða eftir því að aðrir leysi okkar mál. Við eigum að bíða eftir því að við verðum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði eða jafnvel Evrópubandalaginu eða einhverju því um líku, bíða með hendur í skauti eins og þolendur og þiggjendur í stað þess að skapa. Og hvað er það sem hefur gert þessa þjóð að þjóð þegar allt kemur til alls? Það er ekki eingöngu fiskur. Það er íslensk menning. Það eru bækur og skapandi menningarstarfsemi í gegnum aldirnar. Það er það sem hefur gert Íslendinga að þjóð. Og það er það sem mun halda í okkur lífinu sem þjóð áfram ef við viljum, en ekki það hvernig við högum viðskiptamálum okkar í einstökum atriðum frá degi til dags.
    Í þessum efnum höfum við, sem höfum sinnt þessum málum á undanförnum árum dálítið, oft á tíðum orðið að búa við alveg ótrúlega þröngsýni, verð ég að segja, alveg ótrúlega þröngsýni. Ég man t.d. aldrei eftir því að það hafi komið út skýrsla um ímynd Íslands, eins og það heitir núna upp á hálfgerða amerísku, þar sem minnst er á það að menningarstarfsemin gæti í raun og veru verið einn gildasti þátturinn í þessari ímynd eins og við viljum hafa hana og þurfum að hafa hana. Fyrir fáeinum árum skipaði fyrrv. hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, í síðustu ríkisstjórn sem ég átti sæti í, nefnd til að fjalla um kynningu á Íslandi, ímynd Íslands. Það var margt gott þar. En það var engin menning í því skjali. Það var doðrantur upp á margar síður en það var hvergi menning.
    Ég hef séð tillögur af þessu tagi víða annars staðar og ég segi alveg eins og er að það er eitthvað verulega mikið að í okkur sjálfum, m.a. í okkur sem sitjum hérna, ef það er þannig að menn geti fjallað um kynningu á Íslandi á erlendum vettvangi án þess að taka með íslenska menningu. Þá er verulega mikið að vegna þess að hún er auðvitað undirstaðan.
    Og ég lýk þessum fáu orðum mínum, framsögu minni með þessu frv., virðulegi forseti, með því að vitna til orða forseta Íslands: ,,Fiskurinn er það sem við borðum, en menningin er það sem við munum.`` Það er grundvallaratriðið. Það er meginatriðið og út frá því eigum við að starfa og þess vegna flytjum við, ég og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, þetta

frv. hér í þessari virðulegu stofnun. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.