Kynning á íslenskri menningu

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 15:10:45 (6177)



     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar að leggja hér nokkur orð í belg, er enda meðflm. þess frv. sem hér liggur fyrir á þskj. 200 og er 182. mál þingsins.
    Við erum óneitanlega oft að fást um harla lítils verða hluti og því miður sýnast þeir oft vekja meiri áhuga en þeir sem merkari eru. Alþb. gekkst fyrir ráðstefnu fyrir 2--3 árum sem bar yfirskriftina ,,Hvað er menning?`` Besta svarið sem ég hef heyrt við því kom frá Þorsteini Gylfasyni, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, en hann sagði: ,,Menning er það að gera hluti vel.`` Og ég held að þetta sé nærri sannleikanum.
    Menning er auðvitað það að vera manneskja í einhverju landi, hvar sem er, hvar sem það kann að vera staðsett og hvernig sem það land kann að vera. Menning er sú mennska sem viðgengst í því landi við þær aðstæður sem mönnum eru búnar og þjóð er auðvitað einskis virði nema hún geti varið sína eigin mennsku. Við getum kallað það að hafa sjálfsvitund sem við getum risið undir því að hversu mikið sem við gætum halað inn af peningum og fjármunum held ég að þeir kæmu okkur að afar litlu gagni nema því aðeins að við séum manneskjur til að nýta þá í þágu hvers annars og til þess að byggja upp þjóðfélag þar sem okkar eigin mennska á einhverja vaxtarmöguleika. Þetta málefni ætti auðvitað að vera öllum málefnum ofar, en það kann að vera dálítið kaldhæðnislegt að ræða um íslenska menningu hér eftir það sem gerðist í morgun þegar grimmilega var gengið á hlut þeirra sem eru að reyna að leggja á sig það erfiði og þá elju að viðhalda íslenskri menningu. Við höldum nefnilega stundum að við stjórnmálamenn séum það sem öllu máli skiptir í þessu landi. Það er mikill misskilningur. Við getum hins vegar verið það ef við viljum.
    Ég kallaði fram í, sjálfsagt af ókurteisi minni, í gær undir ræðu hv. 10. þm. Reykv., Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að besti stjórnmálamaður Íslendinga hefði verið Jónas Hallgrímsson. Einhverjir brostu, en mér var alvara. Svo var nefnilega komið fyrir Íslendingum á síðustu öld og um miðja öldina, alla vega fyrri hluta aldarinnar, að enginn Íslendingur trúði lengur á Ísland eða Íslendinga. Þá var að vísu ekki til Lánasjóður ísl. námsmanna, en menn hjálpuðust að við að koma einum og einum efnilegum námsmanni til Kaupmannahafnar þangað sem þeir voru sendir til að læra, nema og í von um að þeir bæru þá þekkingu heim til Íslands. Og eins og gengur vildi svo til að um miðja öldina safnaðist til Kaupmannahafnar nokkur hópur Íslendinga sem gerði sér grein fyrir hvernig komið var fyrir þjóðinni. Þeir voru að fást við ýmsar fræðigreinar, jarðfræði, sagnfræði, norræn fræði og ég man ekki hvað fleira, og þarf víst ekki að nefna nöfn þessara ágætu manna. En þeir gerðu sér ljóst að það væri óralangur vegur til þess að hægt væri að fara að ræða stjórnmál við Íslendinga. Þeir gerðu sér nefnilega ljóst að til þess að von væri til að reisa Ísland úr rústum þyrfti að kenna Íslendingum að elska landið sitt, þjóðina sína og sjálfa sig. Og til hvaða ráðs gripu þeir? Þeir gripu til þess að yrkja.
    Jónas Hallgrímsson gerði nefnilega það sem ég veit ekki hvort allir Íslendingar gera sér grein fyrir. Hann fór að yrkja um Ísland, um fegurð Íslands, eins og enginn hafði gert áður, ekki bara um bleika akra og gróin tún heldur kuldalega óhlutkennda fegurð Íslands og opnaði augu manna fyrir því sem við köllum í dag fagurt landslag.
    Þetta skipti auðvitað feiknalega miklu máli og menn hættu að líta á landið sem til þess eins skyldi vera að hægt væri að rækta þar fóður í búfénað. Og þetta tókst satt að segja framar öllum vonum og þarf síðan ekki að rekja það sem í kjölfar þessara atburða fylgdi. Í ræðu nokkurri sem ég flutti á háskólahátíð 1. des. sl. reyndi ég að sanna fylgni þess hvernig þróun Háskóla Ísland fór nákvæmlega saman, var gersamlega samferða frelsisbaráttunni og hvorugt gat án hins verið. Ég held að það sé mál til komið og ekki síst núna, þegar við stöndum óneitanlega frammi fyrir að mínu mati allógnvænlegum breytingum sem kunna að verða á þeirri álfu sem við lifum í, að við séum alveg örugg í þeirri sannfæringu okkar að það skipti máli hver okkar eigin sjálfsvitund er.
    Maðurinn á ótal hluti sameiginlega. Við þurfum öll að borða. Við þurfum öll að geta hlíft okkur fyrir kulda. Við þurfum að eiga þak yfir höfuðið eða hafa húsaskjól. En það er ekki nóg. Það er ekki að vera manneskja þó að hægt sé að leysa þær frumþarfir. Til þess að maðurinn sé manneskja í landi sínu þarf hann að vera skapandi, hann þarf að hafa frumkvæði. Hann þarf að trúa á það sem hann er að gera. Hann þarf að hafa ástæðu fyrir því. Af hverju er hann hér? Ég býst við að við öll, hv. þm. sem sitjum hér inni, gætum búið við allmiklu betri kost með því að flytja okkur hreinlega til annarra landa. Við höfum öll einhverja menntun og í ýmsum löndum er heldur betur búið að þegnunum. Þetta hvarflar auðvitað ekki að okkur. Og af hverju? Af því að við erum hér, okkar mennska er hér. Við getum öll dvalist um stund með öðrum þjóðum. En ég hugsa að ég geti talað hér fyrir munn okkar allra að okkur langar endanlega ekki til að verða þegnar annarra þjóða. Og þetta er auðvitað það sem öllu máli skiptir. En við erum reyndar líka eða fæst okkar mjög ung lengur. Upp er að vaxa kynslóð sem kynni að líta allt öðruvísi á þetta og ekki síst ef hún skynjar að ekkert sé upp úr því lagt að hún hugsi á þennan veg. Vel kann svo að vera að börnin okkar hafi ekki þessa tilfinningu gagnvart því að vera Íslendingur því að sannleikurinn er sá að til þess að einhver sjái ástæðu til þess þarf það að vera áhugavert. Það þarf að vera gaman. Engum líkar vel að leiðast. Og örlög ýmissa þjóða, svo fáránlegt sem það kann að virðast, sem verst hafa orðið úti eru ekki þau að hægt sé að segja: Þau biðu efnahagslegt hrun. Þessar þjóðir önduðust úr leiðindum.
    Hér var minnst á Írland í gær. Hvers vegna skyldu Írar ekki geta búið við betri efnahag? Það er vegna þess að Írar týndu tungumáli sínu. Menn hættu að skrifa á írsku. Menn hættu að vita af hverju þeir voru frekar á Írlandi heldur en á meginlandinu ef meginland er nú hægt að kalla, Stóra-Bretlandi. Þeir höfðu ekkert sérstakt lengur að gera á Írlandi. Enginn bar virðingu fyrir írskri menningu eða írskri tungu. Og það var alveg eins gott að reyna að finna sér betri afkomu á Stóra-Bretlandi og þangað fóru menn. Svo var komið á giftingaraldur á Írlandi var orðinn 35 ár að meðaltali vegna þess að það var ekkert ungt fólk lengur í landinu. Það hræðilega er að svona getur gerst á ótrúlega stuttum tíma og við erum engin undantekning. Við erum ekki sama kynslóð og börnin okkar. Og það er auðvitað skylda okkar hér á hinu háa Alþingi, elsta lýðræðislega kjörnu þingi í heiminum, því verður víst ekki á móti mælt, að standa eilífan vörð um íslenska sjálfsvitund og það gerum við ekki bara með því að selja fisk eða byggja álverksmiðjur eða selja kísiljárn. Ég hef ekkert á móti því og það er auðvitað nauðsynlegt. En það má líka gera það af hugviti, það má gera það af elskusemi við fólk og náttúru og því aðeins að þetta tvennt fari saman. Svo ,,banalt`` sem það kann að vera, þá hygg ég að Snorri Hjartarson hafi hagt lög að mæla þegar hann talaði um þá þríeinu þrenningu, land, þjóð og tungu. Ég held að þar hafi ekkert breyst.
    Það væri hægt að taka ótal dæmi, herra forseti, og ég skal nú reyna að stytta mál mitt, en mér er ekki launung á því að hér er um nokkurt hjartans mál að ræða. Það er nefnilega alveg rétt sem Þorsteinn Gylfason sagði í frægri ræðu á ráðstefnunni sem ég minntist á áðan. Það er menning að gera góða skó og auðvitað er það menning að skrifa góðar bækur eða syngja fallegt lag. Allt sem við gerum með reisn eða myndarskap er auðvitað menning og ekkert er aðskilið frá hinu. Við fáum engan góðan hönnuð sem kann ekki að prjóna sokkbol eða vinda upp á tvinnakefli. Menn fæðast ekki alskapaðir til slíkra hluta. Þess vegna er auðvitað undirstöðumenntunin í landinu það sem allt veltur á. Menn búa ekki til fallegar umbúðir um fiskinn okkar góða ef þeir hafa aldrei snert á blýanti eða lit. Það er svo einkennilegt hvað mönnum hefur tekist að aðskilja verklega menntun og bóklega í þessu landi að það er með hreinum ólíkindum vegna þess að hvorugt getur án annars verið.
    Ég get ekki stillt mig um að minnast aðeins á, þó hæstv. menntmrh. sé ekki í salnum, að mér rann það til rifja að sjá í Morgunblaðinu litla grein um hversu illa er komið fyrir Willard Fiske-safninu í Cornell í Bandaríkjunum. Allt fram á okkar daga, síðan Fiske arfleiddi Íslendinga eða Cornell-háskóla að bókasafninu og gaf Menntaskólanum í Reykjavík húsið Íþöku og bækurnar í það, reyndu Íslendingar þegar þeir áttu ekki neitt, eins og hér kom fram í gær, að viðhalda bókasafninu í Cornell. Nú hefur það algerlega stöðvast. Íslendingar hafa ekki lengur efni á því. Af hverju er þessi draugsháttur að koma yfir okkur? Þetta er eina sómasamlega íslenska bókasafnið í öllum Bandaríkjum Norður-Ameríku. Og sú var tíðin að séð var nokkurn veginn um að íslenskar bækur sem út komu væru sendar safninu. Það annaðist Landsbókasafnið og fékk til þess stuðning bókaútgefenda. En þegar Íslendingar gerðust velferðarsamfélag og 80% þjóðarinnar voru búin að eignast þak yfir höfuðið, litlu börnin fæddust með fasteignir upp á 3 1 / 2 millj. í vöggugjöf, þá er ekki lengur hægt að hugsa um Fiske-safnið. Það er þetta sem er svo óendanlega hættulegt. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að það frv. til laga sem hér liggur fyrir nái fram að ganga nú á þessu þingi. Nóg er að gert í að rífa niður íslenska menningu eins og dæmin sönnuðu hér í morgun. Sannleikurinn er nefnilega sá að list og menning og allt sem vel er gert er arðbært og það getur aldrei orðið annað. Og ef menn vilja fá nánari skýringu á hvað er arðbært á nútímamáli: Það má græða á því. Það má græða heilmikla peninga á því. Ég ætla að taka eitt dæmi.
    Sigríður Undset hét borgaraleg kona sem tók upp á þeirri ósvinnu að skrifa bækur í upphafi aldarinnar við lítinn fögnuð aðstandenda. Norska sjónvarpið tók sér það fyrir hendur að gera kvikmynd eftir einni af skáldsögum hennar sem áreiðanlega er orðin 50 eða 60 ára gömul, fékk til þess bestu leikara Noregs og bestu leikstjóra. Allt fór langt fram úr fjárhagsáætlun svo að slíkt hneyskli varð úr að allt var komið á annan endann í Noregi. Myndinni var samt lokið á endanum. Norska sjónvarpið gat næstum rekið sig fyrir arðinn af þessari kvikmynd tveimur árum síðar.
    Fyrir um 15 árum hófu Ástralir að buslast við að búa til kvikmyndir af engum efnum. Það gerðist þá að það var tekin pólitísk ákvörðun um að leggja peninga í kvikmyndagerð. Ég þori ekki að fara með hver hluti útflutnings á kvikmyndum er í Ástralíu, en hann er allmikill af þjóðartekjum, enda könnumst við öll við það að við opnum varla svo sjónvarp að vikulega sjáum við ekki eitthvað og venjulega heldur gott sjónvarpsefni frá Ástralíu. Það verður nefnilega stundum að leggja til stofnkostnað. En það er eins og gamli konsúllinn okkar, þegar við vorum við nám í Edinborg, Sigursteinn Magnússon, sagði og hafði verið 40 ár fjarri heimalandi sínu. Hann sagði einhvern tíma við okkur á Íslendingahátíð: Á Íslandi gætum við búið til besta viskí í heimi, en það mundi enginn Íslendingur bíða í átta ár eftir að selja fyrstu flöskuna. Og ég held nefnilega að þetta stefnuleysi okkar og þessi óróleiki og óþolinmæði sé að koma okkur á kaldan klaka.
    Herra forseti. Það er talað um að lítill tími sé eftir af þinginu og þegar litið er til baka verð ég nú að játa að ég veit ekki hvort ég harma það mjög. Mér finnst ekki þetta þing hafa skilað þjóðinni fram á veg nema síður væri. Það væri þá kannski eitt lítið spor, svo að maður tali nú fallega í tilefni af 90 ára afmælis öðlings eins, að við samþykktum þetta frv. til laga um kynningu á íslenskri menningu á þessu þingi. Eigum við ekki að gera sátt hér á hinu háa Alþingi að við gefum Nóbelsskáldinu okkar það í níræðisafmælisgjöf að samþykkja þetta frv. því að það get ég sagt hv. þingheimi að mikið vantar á að hans stórvirki hafi verið kynnt svo sem vert væri, hvað þá verk minni spámanna.