Barnalög

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 16:49:00 (6183)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Við 2. umr. frv. til barnalaga flutti ég nokkra tölu um það sem kallað er sameiginleg forsjá barna þegar til hjúskaparslita kemur og lét í ljós þá skoðun að ég teldi að það væri mikið álitamál að samþykkja hina sameiginlegu forsjá fyrst og fremst vegna þess að ég dreg mjög í efa að svokölluð sameiginleg forsjá komi barninu vel þó að hún geti hentað vel þeim foreldrum sem kjósa að slíta samvistir.
    Ég bendi á að í umsögn þess aðila sem þekkir langbest til allra stofnana í landinu í þessu efni, sem er Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, er bent á að þessi sameiginlega forsjá geti orkað tvímælis vegna barnsins nema fylgt verði eftir með ítarlegri fjölskylduráðgjöf, en eins og kunnugt er eru engin slík úrræði til nema þau sem eru á vegum félagsmálastofnana en það eru sem betur fer tiltölulega fáir foreldrar, lágt hlutfall foreldra sem þarf að leita þangað með vandamál sín.
    Ákvörðun um sameiginlega forsjá var tekin upp í lögum t.d. í Danmörku fyrir nokkrum árum. Ég kann nú ekki að skilgreina ártal. Það eru kannski 10 ár eða svo. Ég

hugsa að það sé ekki meira. Og menn töldu þá að þetta væri sjálfsagt mál, það gæti jafnvel verið betra fyrir barnið að hafa þannig aðgang að báðum foreldrum sínum. Nú liggur fyrir nokkurra ára reynsla af þessu máli í Danmörku og snemma í þessari viku átti ég langt viðtal við Elsu Christiansen sem hefur sérstaklega haft með að gera börn úr alkóhólistahjónaböndum og ofbeldishjónaböndum. Niðurstaða hennar er sú að eftir þessa tilraun um nokkurra ára skeið sé þetta fyrirkomulag slæmt, ekki síst í síðarnefnda tilvikinu þegar um svokölluð ofbeldishjónabönd er að ræða. Það er vegna þess að þegar að skilnaði kemur við þær aðstæður kýs konan að reyna að losa um hin formlegu tengsl við maka sinn eins hratt og mögulegt er og felst þá gjarnan á sameiginlega forsjá í samkomulagsskyni til að losna sjálf. Niðurstaðan er svo sú að þessi börn verða fórnarlömb togstreitu á milli foreldra og hið sama er að segja um svokölluð alkóhólistasambönd.
    Nú vita menn að ef um sameiginlega forsjá beggja foreldra er að ræða verður niðurstaðan gjarnan sú að þessir foreldrar taka saman við aðra aðila og þar með hefur barnið fjóra forsjáraðila. Satt að segja held ég að allir sjái í hendi sér, þó að við bestu hugsanlegu skilyrði geti þetta auðvitað verið gott, að þar sem erfiðleikar eru á annað borð verulegir í hjónaböndum, sem er yfirleitt aðdragandi og forsenda skilnaðar, getur barnið einmitt orðið fórnarlamb framhaldsins á þeirri togstreitu sem leitt hefur til skilnaðarins.
    Ég reyndi satt að segja, virðulegi forseti, að lesa mér nokkuð vandlega til um þetta mál í umsögnum nefndarinnar og hafði einsett mér að vera ekki að skipta mér mikið af þessu máli vegna þess að ég veit að margir ágætir einstaklingar hafa lagt mikla vinnu í málið og af mikilli alvöru. Ég tók t.d. eftir því sem hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjaranson sagði um málið við 2. umr. þar sem hann komst þannig að orði: Í upphafi var ég í raun og veru andvígur þessu, en ég sannfærðist svo í nefndinni. --- Ég hafði lagt í þetta mikla vinnu og hugsun og það hef ég verið að reyna að gera líka vegna þess að þetta er mál sem er dálítill örlagavaldur þó að það líti kannski ekki út fyrir að vera mjög stórt. Og mér finnst að okkur sé skylt í öllum þeim sviptingum sem eru hér á öllum þessum löngu fundum og þessu mikla málaflóði að vanda okkur við svona mál því að þetta getur verið spurning um --- mér liggur við að segja spurning um örlög, gæfu þeirra barna sem hér um ræðir. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé ekki tímabært að setja það í íslenska löggjöf að sameiginleg forsjá verði heimiluð. Ég tel að þeir sem slíta samvistum eigi að gera forsjármálið upp líka áður en samvistunum er slitið. Ég veit að slík mál geta oft verið erfið, en hér er um að ræða einstaklinga sem hafa skyldur við þetta barn og þeir eiga að sjá svo um að frá málum sé gengið með fullri virðingu fyrir þeim einstaklingi sem barnið er.
    Ég held satt að segja að það sé dálítið til því, sem sagt hefur verið, að þessi sameiginlega forsjá sé sett hér inn af því að menn hafi hug á því að vera með svipaða löggjöf í þessum efnum og gerist í öðrum löndum. Það er pínulítil tilhneiging til þess í okkar löggjöf, m.a. barnalögum, sifjalögum, hjúskaparlögum, hegningarlögum jafnvel, að reyna að ,,kópíera`` dálítið af því sem er annars staðar. Og nú er ég ekkert að segja það um hv. nefnd að hún sé að leggja þetta til eða ráðuneytið af því að menn hafi lært þetta annars staðar. En þetta er bylgja, sem hefur verið að ganga yfir á síðustu 5--10 árum, að þetta sé málið, sameiginleg forsjá yfir skilnaðarbarni. Eftir að ég átti þetta viðtal við Elsu Christiansen, sem er sennilega einn helsti sérfræðingur Dana á þessu sviði, er sálfræðingur sjálf, hefur unnið mjög mikið með börn, hefur að undanförnu rannsakað börn úr alkóhólistahjónaböndum sérstaklega og er að gefa út um það mjög ítarlega rannsóknarniðurstöðu, er ég algerlega sannfærður um að ég verð, liggur mér við að segja herra forseti, að flytja till. sem hér liggur fyrir. Ég treysti mér ekki til að samþykkja þessa sameiginlegu forsjá. ( Gripið fram í: Muntu sitja hjá?) Ég mun leggjast gegn henni. Fyrir mér er þetta satt að segja ekki gamanmál vegna þess að ég held að hérna séu menn á algerum villigötum. Og ég fer fram á það af fullri alvöru að hv. þm. allir vandi sig áður en þeir lenda í þessu máli og hugsi alvarlega um hvað þeir eru að gera.