Barnalög

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 16:59:20 (6184)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Svavari Gestssyni um að hv. þm.

eigi að vanda sig við afgreiðslu á nýjum barnalögum. En ég get jafnframt fullvissað hv. þm. um að það hefur verið unnið ákaflega vel að frv. í allshn. og stuðst við umsagnir víðs vegar að úr þjóðfélaginu.
    Hv. þm. dregur í efa að þetta fyrirkomulag um sameiginlega forsjá henti barninu vel þótt það geti hentað foreldrum. Auðvitað er alltaf erfitt að taka á málum þegar foreldrar slíta samvistum og vissulega bitnar það á börnunum. En með sameiginlegri forsjá er einmitt ætlað að auðvelda foreldrum og börnum að ganga í gegnum þessa erfiðleika. Það er börnunum í hag, þetta markmið sameiginlegrar forsjár, að efla skyldur beggja foreldra til að annast uppeldi barna sinna, efla ábyrgð beggja foreldra. Og það er í beinu samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem nýverið hefur verið rætt um hér á Alþingi.
    Enn fremur var minnst á ofbeldishjónabönd og það er vissulega rétt að við slíkar kringumstæður er um mjög mikla erfiðleika að ræða og jafnvel geta barnaverndarnefndir þurft að koma inn í slík mál. Foreldrar verða auðvitað að vera hæfir til að fara með forsjá barna sinna hvort sem það er skipt forsjá eða sameiginleg og þau verða þar að auki að vera sammála um þennan valkost. Þar að auki er rétt að leggja áherslu á að það er einungis valkostur sem hér er um að ræða en ekki skylda og menn ættu líka að hafa í huga að það er erfitt fyrir foreldri að þurfa að ,,gefa eftir`` forsjá barna sinna til hins foreldrisins. Þetta hefur valdið erfiðleikum í þessum málum og aukið fjölda þeirra mála þannig að ef foreldrar geta komið sér saman um þennan valkost ætti það að auðvelda þessi mál.
    Meiri hluti allshn. hefur rætt þetta mál mjög ítarlega og rætt við marga sérfræðinga og meiri hlutinn er sammála um að rétt sé að taka upp þennan valkost, enda virðast margir bíða eftir þeirri úrlausn.