Barnalög

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 17:02:38 (6185)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að það var unnið afskaplega vel í allshn. að þessu máli. Hins vegar er það ekkert launungarmál og kom fram í 2. umr. málsins að það var ekki eining um niðurstöðuna.
    Sú kvennalistakona sem myndaði minni hluta allshn. og sú sem hér stendur sem vann að þessu máli innan allshn. ásamt öðrum kvennalistakonum taldi ekki tímabært að taka upp sameiginlega forsjá þar sem ýmsar mjög mikilvægar forsendur þess að taka upp sameiginlega forsjá eru ekki fyrir hendi, því miður. Það vantar sérstaklega mjög tilfinnanlega fullnægjandi fjölskylduráðgjöf hér á landi. Hana er ekki að hafa og það sem alvarlegra er, það er í rauninni vísað --- ég vil nú ekki vera svo gróf að segja út á guð og gaddinn, en það er vísað í rauninni út í dálítið tóm þegar það er verið að tala um að foreldrar eigi rétt á ráðgjöf til að geta tekið þessa ákvörðun um sameiginlega forsjá og þá á ábyrgum grunni og með því að vita hvað í því felst. Það var ekkert út í bláinn að við tókum þessa afstöðu og lögðum til brtt. þar sem við gerðum ráð fyrir því að þessu ákvæði yrði frestað og tíminn notaður til að koma öflugri fjölskylduráðgjöf á laggirnar sem allir landsmenn ættu aðgang að. Við fengum að vita að það væri þá búist við því að vísað væri til kirkjunnar sem er auðvitað góðra gjalda vert. Það er til fjölskylduráðgjöf á vegum kirkjunnar. Þar er hins vegar langur biðlisti og hún þjónar í rauninni aðeins þeim sem hafa aðgang að Laugaveginum í Reykjavík og það eru ekki allir landsmenn. Það eru heldur ekki allir sem kjósa að leita til kirkjunnar um ráðgjöf.
    Úti um land var talað um að prestar gætu veitt slíka ráðgjöf. Í sumum tilvikum er það áreiðanlega rétt. Í öðrum er það áreiðanlega rangt. Prestar eru eins og annað fólk misjafnir og þótt þeir fái tiltölulega góða leiðsögn í þessum fræðum að mér skilst nú orðið, þá hlýtur það að liggja mjög misjafnlega fyrir og menn velja sér ekki prestsskap til þess að taka að sér sérfræðiráðgöf í sambandi við forsjármál barna t.d.
    Það hefur líka verið bent á það sem rökstuðning fyrir því að það sé hægt að taka upp sameiginlega forsjá að það þurfi að vera samkomulag um slíkt. Ég bendi á það að samkomulag getur orðið af ýmsu tagi og við heyrðum raunar dæmi um það að fólk sem ætlaði í mál ef ekki fengist sameiginleg forsjá beið úrslita þessa og við túlkuðum það nokkuð misjafnt í nefndinni hvað í þessu fælist. Sumir töldu að þetta styddi að það ætti

að taka upp sameiginlega forsjá. Aðrir og þar er ég meðtalin töldu að þetta benti til þess að þessir foreldrar væru í rauninni ekki reiðubúnir að taka upp sameiginlega forsjá. Í meðförum nefndarinnar tók frv. þó þeim jákvæðu breytingum að það var kveðið skýrt á í lagatexta um það að barn sem foreldrar hefðu sameiginlega forsjá með ætti þó að eiga búsetu hjá öðru þeirra. Þetta er mjög mikilvægt og ég held að það viðurkenni það allir. Þetta kemur ekki róti á börnin á sama hátt og ef þeim er skákað á milli foreldra eins og því miður er staðreynd í sumum þeim löndum þar sem sameiginleg forsjá hefur verið tekin upp.
    Það var líka rökstuðningur í umræðu um frv. að sameiginleg forsjá væri með samkomulagi. Þá þyrfti jafnframt ekki annað en að annað foreldrið hætti að vera sammála um að þau ættu að hafa sameiginlega forsjá og þeir makar sem hefðu komið til sögunnar síðar. Þá væri hægt að taka málið upp á nýjan leik. Þetta tel ég að geti hugsanlega komið meira róti á barn en ef sá hátturinn væri hafður á sem núna er. Og ég held að góð fjölskylduráðgjöf sé nauðsynleg til að stemma eins og hægt er stigu við því.
    Það er eitt og annað sem hægt er að segja nánar um þetta frv., en ég held að nú við 3. umr. höfum við kost á að segja hug okkar til þessa frv. á nýjan leik. Í meginatriðum er þarna um mjög góð ákvæði að ræða, en ég set áfram spurningarmerki við það hvort við séum reiðubúin að taka upp sameiginlega forsjá hér á Íslandi.