Starfsmenntun í atvinnulífinu

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 17:28:22 (6190)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Vegna brtt. við frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu sem hér er borin fram af hv. þm. Svavari Gestssyni vil ég taka eftirfarandi fram:
    Ný lög um starfsmenntun byggja á stuðningi við einstaka aðila sem hafa með framkvæmd námskeiða að gera. Það á því að vera þeirra hlutverk að hafa samráð við menntmrn. vilji þeir að nám sem boðið er upp á með stuðningi laganna sé metið til námseininga í almenna skólakerfinu.
    Ég vil einnig taka það fram að nú þegar eiga ráðuneytin, þ.e. ráðuneyti mennta- og félagsmála, með sér formlegt samstarf á sviði fræðslumála. Fulltrúi félmrn. á sæti í svonefndri samstarfsnefnd um fullorðinsfræðslu á vegum menntmrn., en erindisbréf fyrir þessa samstarfsnefnd um fullorðinsfræðslu er eftirfarandi:
    ,,Samstarfsnefnd um fullorðinsfræðslu er ætlað að fjalla um eftirtalin verkefni:
    Að fjalla almennt um fullorðinsfræðslu hér á landi og gera tillögur til ráðuneytisins um æskilegt fyrirkomulag kennslunnar.
    Að efla samstarf milli þeirra sem starfa að fullorðinsfræðslu.
    Að afla upplýsinga um fullorðinsfræðslu í öðrum löndum og miðla þeim upplýsingum til þeirra sem starfa að þessum málum hér.
    Önnur verkefni tengd fullorðinsfræðslu sem ráðuneytið felur nefndinni.``

    Ég vil þessu til viðbótar benda á að eins og hv. þm. er kunnugt er frv. þetta byggt á samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um þetta mál, enda er skipulag það sem kveðið er á um í frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu byggt á því fyrirkomulagi sem þegar er til staðar um starfsmenntun.
    Ég hef borið þessa till. hv. þm. Svavars Gestssonar undir til að mynda ASÍ og þeir leggjast gegn henni, m.a. með þeim rökum sem ég hef hér tilgreint, þ.e. að það er þegar uppi formlegt samstarf á sviði fræðslumála milli þessara ráðuneyta og einnig, eins og ég nefndi, að þetta frv. um starfsmenntun byggir á stuðningi við einstaka aðila sem hafa með framkvæmd námskeiða að gera og það sé því þeirra hlutverk að hafa samráð við menntmrn.
    Ég tel að eins og ferill þessa frv. hefur verið hefur það mjög mikið byggst á samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins. Það er reyndar líka hluti af kjarasamningum nú að frv. fari í gegn eins og það er hér í þinginu þannig að ég tel ekki rétt vegna þess sem ég hef greint frá að styðja till. sem hér er fram borin.