Starfsmenntun í atvinnulífinu

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 17:31:29 (6191)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég veit satt að segja ekki hvaða orð ég á að nota um þessa afstöðu hæstv. félmrh. Mér datt í hug orðið þrjóska, en ég nota það ekki, forseti, þannig að það er óþarfi að hafa það með í þingtíðindunum. En það eru engin efnisleg rök gegn því að skapa þessa möguleika á tengslum á milli starfsmenntaráðs og menntmrn. Það eru engin rök. Það skelfilegasta er nú þegar verið er að bera það fyrir sig að aðilar vinnumarkaðarins eigi að ráða frv. hér á Alþingi upp á punkt og prik. Það er alveg ástæðulaust að vera að hleypa þeim mikið í skólamál í landinu. Alveg ástæðulaust. Ég er alveg sannfærður um það hins vegar að menn sjá í hendi sér ef þeir vilja skoða hlutina opnum huga að það er betra fyrir frv., ef að lögum verður, að þessi tengsl við ráðuneytið séu formleg innan laganna sjálfra en í þessari samstarfsnefnd um fullorðinsfræðslu. Ef menn vilja að nám, sem fer fram samkvæmt þessum lögum, verði metið sem hluti af hinu almenna framhaldsskólakerfi í landinu er skynsamlegt að hafa menntmrn. með í ráðum á frumstigi málsins. Hvernig í ósköpunum á menntmrn. að fara að því að meta þessa hluti alla eftir á?
    Ég verð því að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég botna ekkert í þessari afstöðu vegna þess að þessi tillaga er svo smá og hún er svo sanngjörn og hún er svo örstutt skref, svo ég leyfi mér að vitna í Nóbelsskáldið sem var rætt fyrr í dag í öðru samhengi, hún er svo örlítið skref og spor, eitt örstutt spor, að ég tel ekki vera auðnuspor hjá hæstv. félmrh. að hafna þessu sjónarmiði, ég segi það alveg eins og er, borið fram hér af fullri sanngirni.
    Það eru kannski örlög þessarar ríkisstjórnar að það megi aldrei hlusta á neitt sem kemur frá mönnum af því að þeir eru í stjórnarandstöðu. Nú vill svo til að áður en varir getur stjórnarandstaðan orðið stjórn. Þetta er í samræmi við annað, hvernig unnið er á hv. Alþingi eða af hæstv. ríkisstjórn. Það er passað samviskusamlega að taka aldrei mann frá stjórnarandstöðunni í eina einustu nefnd einu sinni til að fjalla um mál, hvort sem það er Lánasjóður ísl. námsmanna eða hvað það nú er. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að útiloka stjórnarandstöðuna á öllum sviðum, starfsnefndir, forsætisnefnd þingsins og ég veit ekki hvað, og valtra yfir stjórnarandstöðuna. Það er stefna ríkisstjórnarinnar.
    Svo þegar kemur einn stjórnarandstæðingur með tillögu, afskaplega litla tillögu sem hefur þó pínulitla þýðingu, þá skulu menn bera það fyrir sig að aðilar vinnumarkaðarins hafi samið um að hafa þetta öðruvísi. Ég segi alveg eins og er, virðulegi forseti, ég dreg það stórlega í efa að t.d. Ögmundur Jónasson, svo ég nefni dæmi, eða formaður Vinnumálasambands samvinnufélaganna, hafi gert það að skilyrði fyrir samþykkt sinni á kjarasamningunum að þessi tillaga mín yrði ekki tekin inn. Mér þykir það satt að segja mikil undur ef þessir höfuðkappar þjóðfélagsins eru að eyða tíma í það inni í Karphúsi að ræða um það hvaða tillögur það eru sem þurfi að stoppa á Alþingi og það sé þá helst þessi tillaga sem eigi að útiloka. Hvað á svona ósanngirni að þýða? Og svo er ríkisstjórnin að biðja um að við hjálpum til við að afgreiða mál af ýmsu tagi. Menn vinna hér daglangt

og náttlangt í nefndum út og suður alla daga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga. En þegar kemur að lítilræði af þessu tagi, nauðalitlu atriði af þessu tagi, þá er líka hnefinn í borðið. Þetta er ekki sanngjarnt, hæstv. félmrh.