Starfsmenntun í atvinnulífinu

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 17:36:26 (6192)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil minna hv. þm. á að í tíð síðustu ríkisstjórnar, þegar í vinnslu var frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu og frv. um fullorðinsfræðslu, var efnt til viðræðna milli fulltrúa félmrn. og menntmrn. um þessi mál. Um það skipulag fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar náðist samkomulag milli menntmrn. og félmrn. Í viðræðum um skipulag þessara mála tóku þátt af hálfu menntmrn. Gerður G. Óskarsdóttir og Guðrún Ágústsdóttir. Niðurstaðan af þeim viðræðum kemur fram í fylgiskjali með frv. sem hér er til umræðu og einn þáttur þess sem um var rætt og er í fskj. með frv. er samtenging fullorðinsfræðslu og laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Þar var lagt til í samkomulagi milli þessara aðila í tíð hv. þm. sem menntmrh. að fyrirkomulagið yrði með þeim hætti að þetta yrði tengt saman með skipun fullorðinsfræðsluráðs. Ég vitnaði í að þetta er með þeim hætti í dag að það er starfandi samstarfsnefnd um fullorðinsfræðslu sem m.a. á að afla upplýsinga um fullorðinsfræðslu og miðla þeim upplýsingum til þeirra sem starfa að þessum málum hér. Það er eitt af viðfangsefnunum. Þannig tel ég að sá andi sem var í þessu samkomulagi sé að samtengingin milli starfsmenntunar og fullorðinsfræðslu væri á þessum vettvangi.
    Vegna orða hv. þm. um að stjórnarandstaðan væri útilokuð frá öllum nefndum á vegum stjórnarinnar og ráðuneyta er það ekki rétt og vil ég minna hv. þm. á að allir stjórnmálaflokkar áttu t.d. fulltrúa í nefnd sem fjallaði um frv. um málefni fatlaðra sem er til umræðu í þinginu og allir stjórnmálaflokkar eiga að sjálfsögðu aðild stórri nefnd sem starfar á mínum vegum um sameiningu sveitarfélaga. Að alhæfa með þeim hætti sem hv. þm. gerði tel ég ekki vera alls kostar rétt.