Starfsmenntun í atvinnulífinu

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 17:39:10 (6193)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að það samkomulag sem gert var við hæstv. félmrh. á síðasta kjörtímabili var slæmt samkomulag að mörgu leyti, en ég kaus að gefast upp fyrir henni á Arnarhólnum frekar en að stoppa bæði þessi mál. En úr því að málið er sótt af svona mikilli hörku af hæstv. ráðherra óska ég eftir því að frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu verði að lögum á þessu þingi. Það er alveg óhjákvæmilegt. Ef það er þannig að þetta mál eigi að keyra í gegn gjörsamlega án tengsla við menntmrn. verður að afgreiða hitt frv. líka af því að samkomulagið byggðist á því að bæði þessi mál yrðu að lögum. Og það er ósanngjarnt að ætla að knýja þetta mál fram með þessum hætti og segja við Alþingi að því sé bannað að breyta málinu af því það sé búið að ákveða það úti í bæ hvernig það eigi að vera upp á punkt og prik. Það er ósanngjarnt að halda þannig á hlutunum gagnvart Alþingi Íslendinga og ekki sæmandi í raun og veru.