Starfsmenntun í atvinnulífinu

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 10:56:33 (6203)



     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. sagði að það væri liður í nýgerðum kjarasamningum að þetta frv. yrði afgreitt óbreytt án þess að í því væri skipt um kommu, orð eða setningu. Gott og vel, segjum að það sé rétt. En ég vil spyrja: Hvar var hæstv. félmrh. þegar verið var að flytja gamla fólkið frá Hátúni núna síðustu daga? Stóð hæstv. félmrh. þá upp á Alþingi og sagði að það væri brot á kjarasamningunum? Nei.

Engu að síður kom formaður BSRB og lýsti því yfir að það væri brot á kjarasamningunum. Er það bara það sem snertir bírókratíska hagsmuni félmrn. sem skiptir máli þegar verið er að tala um hvað sé brot á kjarasamningum og hvað ekki? Og vextirnir sem verið er að ákveða þessa dagana eða réttara sagt ákveða að lækka ekki í Landsbankanum og einnig hefur verið lýst yfir að sé brot á kjarasamningum, að þeir lækki ekki, hvar er hæstv. félmrh. að stíga þá fram og segja að það sé brot á kjarasamningum að Landsbankinn lækki ekki vextina? Það hefur ekki heyrst. Það er greinilega bara á sumum sviðum sem á að halda kjarasamningana, þ.e. á þeim sviðum þar sem varðveita ber bírókratíska hagsmuni félmrn. ( ÖS: Eldhúsdagurinn er ekki fyrr en á mánudaginn.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson verður að þola það hér í salnum að á því sé vakin athygli að það er eingöngu eftir mjög sérkennilegu vali sem Alþfl. kýs að standa vörð um síðustu kjarasamninga. Hann kýs ekki að standa vörð um þá þegar það snýr að gamla fólkinu. Hann kýs ekki að standa vörð um þá þegar það snýr að vaxtamálunum. En þegar kemur að bírókratíinu kýs Alþfl. að standa vörð um kjarasamningana.
    Ég fagna yfirlýsingu hæstv. menntmrh. um að hann muni beita sér fyrir því að frv. um fullorðinsfræðslu verði afgreitt hér á þinginu. Við munum leggja því lið og í trausti þess munum við samþykkja það frv. sem hér er verið að greiða atkvæði um.