Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 11:20:37 (6206)


     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég tel að málin séu ekki tekin nógu föstum tökum í þessu frv. Það gerir að vísu sitt gagn gagnvart þeim flota sem kominn var eða kominn er í landið og ég tel að hafi verið full ástæða til lagasetningar eins og hér er á ferðinni. Þó verð ég að taka undir það, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að hér hefur ekki verið tekið nægilega föstum tökum á málunum og menn hafa ekki verið tilbúnir að ræða þau út í hörgul. Það er þannig, svo að dæmi sé tekið, að samkvæmt þessari skilgreiningu heitir það verksmiðjuskip ef einhver fer á 10 tonna bát út á sjó og fletur fisk um borð. En það heitir ekki verksmiðjuskip þó að það sé jafnvel 500, 600 eða 700 tonna skip sem er á veiðum og frystir aflann um borð. Ef hvorki er flakað eða flatt um borð í skipinu heitir það ekki verksmiðjuskip. Ég tel að þarna hefðu skilgreiningarnar átt að verða miklu skýrari og menn hefðu átt að gefa sér tíma til þess --- en þó vil ég endurtaka að hér lá að vísu á að koma þessum reglum á --- að skilgreina hvernig umhverfið ætti að vera um borð í þessum skipum og hvernig ætti að standa þar að vinnslu afla.
    Þegar frv. var lagt fram töldu menn að stefndi í það að það yrðu 35 fullvinnsluskip á floti á árinu 1993. Það kann vel að fara svo að þeim fjölgi hraðar en menn hafa gert sér grein fyrir. Við alþýðubandalagsmenn höfum lagt það til ítrekað hér í vetur, bæði í sambandi við umræðu um þetta mál og önnur mál sem við höfum verið með til umræðu að menn stöðvuðu þessa þróun í bili og gæfu sér tíma til að skoða hvort ekki væri nú hægt að bregðast við með öðrum hætti, að fiskvinnslan í landi gæti brugðist við með einhverjum hætti og eflt sig í samkeppninni við þann útveg sem þarna er á ferðinni því að þetta er mjög alvarlegt mál. Þetta er það mikið atvinnuspursmál í byggðunum allt í kringum landið. Einn skuttogari af þeirri gerð sem við erum að tala um í sambandi við þessi stóru fiskvinnsluskip getur hreinlega lagt niður sem svarar 80--100 störfum í landi og við höfum fyrir okkur dæmin.
    Við höfum t.d. mjög glöggt dæmi um hvernig þessi þróun fer með atvinnulífið uppi á Akranesi. Þar voru sameinuð tvö fyrirtæki fyrir nokkru síðan, reyndar þrjú. En tvö frystihús voru þar með. Þessi frystihús áttu samanlagt fjóra togara. Nú er búið að selja tvo af þessum togurum og kaupa eitt frystiskip. Öðru frystihúsinu hefur verið lokað og það er búið að kaupa þriðja frystihúsið sem er fljótandi á hafinu. Allur kvóti tveggja togaranna sem fylgdu öðru frystihúsinu er farinn á þennan togara. Þarna unnu 80 manns eða eitthvað nálægt því og störfum hefur fækkað mjög verulega og auðvitað er vinnslan um borð í þessu nýja skipi miklu minni. Það er ekki verið að vinna með sama hætti um borð. En þessi þróun hefur orðið með þessum hætti vegna afkomunnar sem hefur verið betri í þessari útgerð en í útgerð og fiskvinnslu samanlagt.
    En ég vil gjarnan við þessa umræðu vekja athygli á öðru máli sem tengist þessu og það er sú fjárfesting sem flotinn sem hér á hlut að máli þarf að fara í, þessi fullvinnslufloti. Þar er á ferðinni mjög arðsöm framkvæmd og atvinnuskapandi og ég vil enn hvetja til þess, það hef ég reyndar gert áður en ég tel fulla ástæðu til þess að gera það alls staðar þar sem það á við, að stjórnvöld beiti sér fyrir því að það átak sem þarf til að koma flotanum í það ástand sem hann þarf að vera til að geta unnið aflann um borð fari í gang og að sú vinna verði framkvæmd innan lands. Það hefur hvergi komið fram svo að ég hafi heyrt enn þá að menn séu á leiðinni með tillögur í þessu efni. Við höfum hér mjög góða skýrslu frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þar sem mál fullvinnslunnar hafa verið skoðuð og þar inn í koma fram mjög athyglisverðar upplýsingar sem ég ætla, með leyfi forseta, að fara yfir með örfáum orðum. Það segir á bls. 5 í skýrslunni um vinnsluskipaflotann:
    ,,Flest vinnsluskipin voru upphaflega hönnuð sem hefðbundin veiðiskip. Þeim hefur síðan verið breytt í vinnsluskip og oftast án stækkunar. Lítil eða engin áhersla hefur verið lögð á nýtingu fiskúrgangs um borð, sérstaklega vegna þess hve skipin eru lítil og vinnslulínan er ekki miðuð við það. Miðað við að allur úrgangur sé hirtur er ljóst að einungis minni hluti skipanna hefur rými eða burði til þess eða 13 af 35 skipum sem útlit er fyrir að verði farin að flaka fisk árið 1993. Þess má geta að stærð skipanna setur því einnig skorður að hægt sé að koma fyrir nýjum vinnsluvélum og ýmiss konar öðru hagræði sem skilar góðum arði.``
    Þá segir á öðrum stað í skýrslunni þar sem fjallað er um stóru togarara: ,,Fyrir stóru togarana kemur hagstæðast út að fullnýta allt sjávarfang með afurðaaukningu, vinnslu aukaafurða og meltuvinnslu. Meðalskip í þessum flokki þarf að fjárfesta fyrir 80 millj. sem skilar 28% innri vöxtum og 21 millj. í hagnað á ári.``
    Um litlu togarana segir: ,,Minni togara þarf að lengja til að þeir komi fullvinnslulínu fyrir. Miðað er við 10 metra lengingu. Almennt verð á slíkri lengingu er 50 millj. Þar sem um vinnsluskip er að ræða er gert ráð fyrir 10 millj. aukalega. Framleiðnitap vegna stöðvunar skipanna er einnig reiknað sem hluti stofnkostnaðar. Miðað við fullnýtingu með afurðaaukningu, aukaafurðum og meltu þarf meðalskipið að fjárfesta fyrir 164 millj. sem skilar 14,5% innri vöxtum og 7 millj. kr. hagnaði á ári.``
    Að lokum vil ég vitna í skýrsluna, með leyfi forseta:
    ,,Nærtækast fyrir skipin er að auka aflaverðmætið með afurðaaukningu sem felst í aukinni vinnslunýtingu, bættum gæðum og auknum afköstum. Stækkun minni skipanna er hins vegar forsenda þess að koma megi fullvinnslulínu fyrir. Ef togbátar eru undanskildir eru heildarfjárfesting við þær breytingar 2,7 milljarðar sem skilar 315 millj. í hagnað á ári með 20,2% innri vöxtum. Með því að nýta einnig úrganginn í aukaafurðir og meltu þar sem úrvinnslan færi fram í landi eykst hagnaður um 185 millj. á ári og innri vextir aukast um 2,2%. Heildarfjárfesting yrði þá 3,4 milljarðar og mundi borga sig upp á tæpum þremur árum. Hagnaður útgerða yrði 350 millj. Hagnaður úrvinnslu í landi 150 millj. Þessar aðgerðir mundu einnig skila 1,7 milljarða kr. aukningu í útflutningsverðmæti á ári.``
    Ég tel að þær upplýsingar sem hafa komið fram í þessari skýrslu og hún öll sé það athyglisvert og í því sem hér er verið að bera fram felist það miklir möguleikar til atvinnusköpunar í landinu og til að auka nýtingu þeirra afurða sem verið er að tala hér um að það eigi ekki að bíða með það að hrinda af stað því átaki sem hér er á ferðinni. Menn kunna kannski að telja ástæðu til að fá frekari staðfestingu á því sem í þessari skýrslu stendur, en ég tel að það sé hlutur sem menn eigi þá að snúa sér að strax.
    Um frv. ætla ég að segja að lokum að ég mun styðja það. Ég styð það fyrst og fremst sem lausn á þeim málum sem snúa a þeim flota sem við erum búnir að kaupa, en ég tel að stjórnvöld séu að bregðast skyldu sinni með því að láta þróunina halda áfram stjórnlaust eins og hún er núna. Ég tel að það eigi til bráðabirgða að stöðva innflutning á nýjum verksmiðjuskipum. Og satt að segja finnst mér það undarlegt eftir að hafa heyrt heitingar hæstv. ráðherra hér á þinginu í vetur, bæði hæstv. iðnrh. og hæstv. sjútvrh., þegar þeir voru að koma á nýjum reglum í Fiskveiðasjóði til þess að styðja við bakið á innlendri skipasmíði og öðrum þræði til að hægja á þeirri þróun sem hér er í gangi, að þeir skuli ekki ætla að bregðast neitt við þegar kemur í ljós að það hefur engin áhrif, það hefur engin áhrif á þá þróun sem við erum að ræða hér. Menn geta fengið lánin erlendis og fyrir það er alveg galopið. Það er opið fyrir allar gáttir í því eins og hæstv. sjútvrh. sagði um daginn. Mig langar að spyrja hann í þessu tilefni: Hefur hann ekki hugsað sér að hægja á þróuninni með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir?