Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 11:40:44 (6208)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég sé mig knúinn til að bæta aðeins við þá umræðu sem hér hefur nú hafist og m.a. vegna orða síðasta hv. ræðumanns, 16. þm. Reykv. Sömuleiðis lýsi ég eftir því að hæstv. sjútvrh. heiðri okkur með því að láta svo lítið að taka þátt í þessari umræðu. Ég tel að eftir að búið er að lýsa í fleiri en einni og fleiri en tveimur ræðum eftir viðhorfum hæstv. sjútvrh. og mati hans á þessari þróun, þá sé það harla vandræðalegt fyrir hæstv. sjútvrh. að treysta sér ekki til að blanda sér eitthvað í þetta og lýsa a.m.k. sínum viðhorfum til þeirra hluta sem nú eru að gerast.
    Ég er sannfærður um að frysting afurða á sjó mun þróast og á að þróast sem hluti af uppbyggingu í okkar framtíðarsjávarútvegi. Það er í sjálfu sér enginn vafi í mínum huga hvað það snertir og slíkt á fullan rétt á sér og er mjög líklegt að það verði okkar markaðshagsmunum hagstætt að vinna að einhverju leyti tilteknar tegundir með þeim hætti. Ég held t.d. að sú dreifing vinnslu sem hefur verið að þróast innan rækjuiðnaðarins, þar sem stærsta og verðmætasta rækjan er í frystiskipunum fryst beint í pakkningar á sjó en afgangurinn gróffrystur til frekari vinnslu í landi, sé að mörgu leyti hagstæð og skynsamleg. En ég er jafnsannfærður um að það er stórkostlega háskalegt að vinnsla á bolfiski eða frysting á bolfiski úti á sjó, sem hefur verið uppistaða fullvinnslu íslenskra sjávarafurða og vinnusköpunar í landi á því sviði, flytjist með algerlega handahófskenndum og stjórnlausum hætti út á sjó í mjög miklum mæli hafandi í för með sér gríðarlega viðbótarfjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi sem fyrir skuldar 100 milljarða íslenskra króna. Ég set mikið spurningarmerki við þá þróun. Það er alveg ljóst að það er verið að afskrifa á móti þá fjárfestingu í flestum tilvikum sem stendur ónotuð í landi. Mér er ekki kunnugt um að þau seljist á bókfærðu verði, frystihúsin sem tæmast samhliða því að nýir frystitogarar koma inn í landið. Ég hef ekki orðið var við það. Ætli það sé ekki frekar þannig að það megi nokkurn veginn afskrifa þau verðmæti sem þar hafa þó verið. Ég held að þarna verði menn að þora að spyrja spurninga, skoða málið og greina á milli þess að annars vegar geti þróun átt sér stað og átt rétt á sér þar sem þessir möguleikar eru nýttir með skynsamlegum hætti sem hluti af framþróun í okkar sjávarútvegi og hins vegar að það verði kollsteypa í íslenskum sjávarútvegi þannig að á fáeinum missirum eða árum færist stór hluti allrar bolfisksvinnslu sem áður hefur farið fram í landi út á sjó.
    Ég verð að setja miklar athugasemdir fram við það sem hv. 16. þm. Reykv. sagði hér að hluta til um orsök þessa varðandi lélega frammistöðu vinnslunnar í landi. Ég held að þar hafi ýmislegt verið fullyrt sem vanti rökstuðning fyrir. Ég er t.d. ekki viss um að í þeirri umræðu sem nú hefur hafist um vaktavinnukerfi í fiskvinnslu í landi sé að leita aðalskýringanna á því að afkoma frystitogaranna sé betri en vinnslunnar í landi, það sé vegna þess að einhverjar flökunarvélar gangi allan sólarhringinn þar en ekki í landi. ( Gripið fram í: En gæðin?) Eða þá það séu eingöngu gæðin. Ég set miklar spurningar við þetta og skal fara aðeins yfir það hvers vegna.
    Fyrir það fyrsta er það nú þannig að launahlutfall í fiskvinnslunni í landi hefur verið lækkandi á undanförnum árum þannig að það er ekki að drepa íslensku fiskvinnsluna í landi að það fari svo mikið í launakostnað í hlutfalli við stofnkostnað í tækjum og búnaði. Það er ekki svo. Það er fyrst og fremst hækkandi hráefnisverð sem er að koma fram í verri afkomu vinnslunnar í dag. Ég bendi líka á það hvers eðlis þessi vinnsla er og hvernig hún er sett í landinu. Hún er í mjög mörgum tilvikum þannig sett að flestallt starfandi fólk í viðkomandi byggðarlögum vinnur í fiskvinnslu og það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að lengja vinnutímann hjá því. Það er mjög víða þannig í frystihúsunum við sjávarsíðuna hringinn í kringum landið að það þarf að flytja inn jafnvel erlent vinnuafl stóran hluta ársins til þess að hægt sé að manna þessi hús og það vinnuafl sem næst í og er til staðar er eins hart keyrt og nokkur kostur er. Ég veit ekki hvaðan það fólk ætti að koma sem ætti að manna hinar vaktirnar. Og auk þess er það auðvitað spurning sem menn verða þá að svara: Ætla menn að breyta fiskvinnslunni á Íslandi yfir í vaktavinnustörf og ákveða að færa þessa verksmiðjuvinnu eða þennan iðnað umfram önnur slík störf í landinu yfir í vaktavinnu? Ja,

ég spyr þá: Eru þá ekki ýmsar aðrar greinar sem er fullkomlega jafnmikil ástæða til að breyta yfir í vaktavinnu og láta þjóðina fara að vinna á vöktum með þeim breytingum sem það hefur á okkar samfélag? Menn hafa sætt sig við það og orðið að byggja upp þjónustu á vissum sviðum sem er þannig úr garði gerð að hún þarf að taka yfir allan sólarhringinn að byggja hana upp með vaktavinnustörfum eða næturvinnu. En ég hefði nú talið að það væri hlutur sem menn gerðu ekki að gamni sínu eða án þess að hugsa sig um að breyta undirstöðuatvinnugrein þjóðarinar yfir í vaktavinnuiðnað nema þeir standi frammi fyrir því að annars sé ekki kostur og það er þá spurning sem ég tel að þurfi að rökstyðja betur svörin við en gert hefur verið hingað til.
    Ég held að þau fiskvinnslufyrirtæki sem standa best að sínum rekstri í dag og hafa besta aðstöðu og sýna án þess að þar sé unnið á vöktum ágætisafkomu og mikla nýtingu á sínu húsnæði og sínum mannafla færi okkur enn heim sannir um það að það er ekkert sem kemur í veg fyrir það í sjálfu sér, það er ekkert náttúrulögmál að ekki sé hægt að reka vel íslenskt fiskvinnslufyrirtæki enn þann dag í dag án þess að þar sé unnin vaktavinna. Staðan hefur hins vegar þróast þannig á undanförnum árum m.a. vegna aflasamdráttar að það hefur orðið æ erfiða fyrir fyrirtækin að nýta til fulls sína afkastagetu og þau standa víða hálftóm. Þetta vitum við og það er þá enn síður að menn geti leyst afkomuvanda sinn með því að fara yfir í vaktavinnu þegar svo er komið að þeir geta ekki einu sinni nýtt hús sín allan daginn virku dagana miðað við venjulegan vinnutíma, þurfa að fella niður vinnu af og til vegna hráefnisskorts eða af öðrum ástæðum.
    Varðandi þá fullyrðingu hv. þm. að 25 sjómenn á frystitogara afköstuðu til jafns við 70 manna frystihús, þá er nú ýmsum spurningum ósvarað sömuleiðis því efni. Ég held að við verðum þá að fara út í miklu víðtækari samanburð á því sem gerist við þessar ólíku aðstæður í vinnslu en bara að leggja saman einhver brúttótonn. Ætli það sé ekki nauðsynlegt að fara aðeins ofan það hvers konar vinnsla fer þarna fram, hvaða nýting á hráefninu á sér stað í þessum tveimur verksmiðjum og hver verða heildarverðmætin sem út úr ráðstöfun þessa afla koma þegar það væri allt saman skoðað? Og ég verð líka að benda á að það sem menn eru nú að tala um í dag í íslenskum sjávarútvegi og kannski er eitt af því fáa ef maður heimsækir frystihús núna á þessum mánuðum sem hægt er að gleðja sig við á nokkrum stöðum á landinu er aukin fiskvinnsla í nokkrum frystihúsum í neytendapakkningar. Er það að gerast úti á sjó? Nei, aldeilis ekki. Það er þvert á móti í þeim frystihúsum í landi sem hafa sæmilega jafnt og stöðugt hráefnisaðstreymi og hafa haft aðstöðu eða kjark til þess að fara út í að setja upp fullvinnslulínur þar sem viðbótarverðmætasköpun er að eiga sér stað. Þannig er það t.d. í mínu kjördæmi að í einum 3--4 frystihúsum er einmitt þessi þróun eitt af því fáa virkilega gleðilega sem manni hefur gefist kostur á að skoða á undanförnum mánuðum. Ég nefni sem dæmi frystihúsin á Dalvík, í Hrísey og á Húsavík. Þar fer núna fram á öllum þessum stöðum og reyndar víðar fullvinnsla, frekari vinnsla á fiski í smáar neytendapakkningar þar sem kílóverðið er jafnvel komið upp í 600--800 kr. og er auðvitað miklu meiri heildarverðmætasköpun miðað við hráefnismagn í upphafi en á sér stað í nokkrum frystitogara, auk þess sem nýting þess hráefnis sem unnin er er miklu betri. Og til þess að þetta sé unnt þarf auðvitað í fyrsta lagi fólk og það þarf í öðru lagi húsnæði og aðstöðu sem tæplega er kostur á að koma fyrir í a.m.k. þeim litlu verksmiðjuskipum sem við höfum yfir að ráða enn þann dag í dag.
    Það væri auðvitað hægt að hugsa sér ef menn vilja stíga skrefið til fulls og flytja alla þessa vinnslu á haf út að við ættum að snúa dæminu við og láta byggja hér 3 þús. tonna verksmiðjuskip svo að nokkrum tugum skipti en ekki þessi tiltölulega litlu skip þar sem mönnum og vélum er pakkað saman eins og síld í tunnu til þess að unnt sé að koma fyrir þessari vinnslu. Og ætli við þurfum þá ekki að þora líka og hafa kjark til þess að ræða það hvað er gert, hvernig er nýtingin á t.d. stærsta fiskinum og minnsta fiskinum um borð í íslensku verksmiðjuskipunum? Hefur hv. 16. þm. Reykv. farið rækilega ofan í það? Ef hann heimsækir frystihús sem eru skynsamlega rekin eins og t.d. á Fáskrúðsfirði eru þar tveir menn til hliðar við flatningsvélarnar eða flökunarvélarnar. Hvað gera þeir? Þeir handflaka stærsta fiskinn. Hvers vegna? Vegna þess að vélarnar tvær eru stilltar inn á miðlungsstærð á fiski og þetta frystihús er ekki með það hráefnisstreymi að það borgi sig að setja upp fleiri vélar stilltar inn á fleiri mismunandi fiskstærðir. Hefur hv. 16. þm. Reykv. orðið var við það að tveir af þessum 25 sjómönnum um borð í verksmiðjutogurunum stæðu við það að handflaka stærsta fiskinn? ( GHall: Persónulega.) Ja, það er gott að hv. þm. getur fullyrt það, en ég hef stundum spurt mig að því hvað verður um hann. Hvað verður um hann? Eða minnsta fiskinn? Ef menn heimsækja Útgerðarfélag Akureyringa, þá er það þannig að þar standa fimm flökunarvélar hlið við hlið stilltar inn á mismunandi stóran fisk. Fiskurinn er flokkaður og kemur inn á þá vél sem hentar best og er stillt inn á hans stærð. Og hvað heldur hv. 16. þm. Reykv. að þetta þýði í betri nýtingu borið sama við það að vera algerlega bundinn af því bæði vegna pláss og aðstæðna að nota eina flökunarvél?
    Það er ýmislegt af þessu tagi sem mér hefur virst að mætti lítið ræða um og þeir sem hafa reynt að hamla þar eitthvað á móti og vilja fá upp umræður um þetta hafa ekki fengið miklar þakkir fyrir. Þá er sagt að menn séu að bera heiðarlegar stéttir manna, sjómenn og útvegsmenn, þungum sökum og röngum og auðvitað vill enginn verða til þess, en það er samt hart að geta ekki rætt hlutina eins og þeir virðast blasa við manni. Með þessu er ég ekki að segja að þessi vinnsla eigi ekki rétt á sér þar sem hún er augljóslega hagkvæm í einhverjum mæli sem hluti af okkar fiskvinnslu. Það held ég að hún geti vissulega átt. En ég hef stórfelldar efasemdir um það sem er að gerast eða væri að gerast í íslenskum sjávarútvegi ef þessi hraða þróun stjórnlausa og handahófskennda heldur áfram. Það er alveg augljóst t.d. að sum verksmiðjuskipin sem frysta þær tegundir þar sem afkoman er lökust aftur á vinnslu í landi skila miklum viðbótarverðmætum inn í okkar þjóðarbú. Það er t.d. ljóst að frystingin á karfa og heilfrystingin á grálúðu gerir mikil verðmæti úr þeim fiski sem ekki er a.m.k. við núverandi aðstæður unnt að skapa með öðrum hætti. En þetta á ekki við t.d. nema í takmörkuðum mæli um bolfiskinn, um þorskinn. Þar held ég að sé nauðsynlegt að skoða dæmin mikið betur.
    Varðandi möguleikana á því að vinnslan í landi geti með hagræðingu og breyttum aðferðum styrkt sína samkeppnisstöðu, þá held ég að þeir möguleikar séu miklir. Og ég bið menn að taka ekki orð mín svo sem það sé ekki þörf á ýmsum breytingum í okkar hefðbundnu t.d. frystingu í landi. Ég tel svo sé og hafi reyndar alllengi verið. Ég tel t.d. að þessir löngu úthaldstúrar ísfiskstogaranna séu orðnir tímaskekkja. Ég tel að það ætti að reyna að stefna að því að engir túrar yrðu lengri en 6--7 dagar á ísfiskskipum þannig að hráefnið gæti með nokkrum rétti enn þá talist 1. flokks hráefni, a.m.k. þegar að kemur að landi, það sem elst er orðið. En túrar sem orðnir eru 10--12 dagar fela það ósköp einfaldlega í sér, það leiðir af sjálfu, að hluti af hráefninu er kominn fram yfir þann aldur. Og hvað þann hluta hráefnisins snertir er augljóst mál að vinnslan í landi getur ekki boðið upp á sömu gæði, sérstaklega ekki litlu frystihúsin þar sem afköstin eru það lítil að það tekur síðan viku í viðbót að vinna aflann úr einum togara eða hátt í það. Útgerðarfélag Akureyringa vinnur hvern togara þar á 1--2 sólarhringum og þannig eldist fiskurinn lítið eftir að hann kemur í land vegna þess að afköstin úti í húsi eru svo mikil. Því sama er ekki til að dreifa hjá minni húsunum nema menn nái að gera meiri alvöru úr umræðum sem orðið hafa um virka aflamiðlun milli húsanna á ströndinni. Með slíkum aðgerðum væri að einhverju leyti hægt að koma til móts við þetta vandamál, en vænlegasta leiðin að mínu mati væri sú að stytta úthaldsdaga togaranna og láta aflann berast jafnar og tíðar að landi. En gerist það með stærri skipum? Svarið er nei. Þvert á móti, ef við ætluðum að veðja á það sem framtíðarlausn fyrir hefðbundna íslenska fiskvinnslu eða frystingu í landi, þyrftum við ef eitthvað væri frekar að halla okkur að minni eða miðlungsstórum skipum og hafa þau fleiri en færri þannig að þau gætu borið aflann tíðar að landi. Ég held þess vegna að það sé svo geysilega mörgum spurningum ósvarað í sambandi við þessa þróun, ef menn vilja fara út í umræður um þetta á annað borð, að það þurfi að varast mjög allar alhæfingar.
    Nú er hæstv. sjútvrh. að sjálfsögðu flúinn úr salnum, herra forseti, hefur ekki einu sinni manndóm í sér til að sitja undir þessari umræðu, og ég átel það harðlega að hæstv. sjútvrh. skuli ekki geta sýnt sjávarútveginum og okkur alþm. sem erum að ræða hann þá lágmarksvirðingu að tolla inni í þingsalnum. Ég bið hæstv. forseta að láta þingverði athuga hvar hæstv. sjútvrh. er í heiminum staddur því ég hefði talið fullkomna ástæðu til þess að hæstv. sjútvrh. bryti nú odd af oflæti sínu og ræddi hérna einu sinni, svo sem einu sinni í viðbót á þessu þingi, um sjávarútvegsmál. Eða er það ekki svo að hann sé enn þá sjútvrh.? Maður hefur heyrt eitthvað um áform um hrókeringar í ríkisstjórninni og kannski er hæstv. sjútvrh. þegar á útleið og fjarvera hans hér í umræðum um sjávarútvegsmál til marks um það að hann hafi ekki mikinn áhuga á þeim lengur.
    Hér hefur sem sagt hafist, og því fagna ég, nokkur umræða um ákveðin grundvallaratriði varðandi þróun íslensks sjávarútvegs sem skortir sárlega umræður um, hafa verið allt of mikil feimnismál og mikill aumingjadómur í mönnum að þora að ræða þessa hluti því að þetta eru stórmál fyrir íslensk byggðamál, fyrir íslenskan sjávarútveg og fyrir verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Þetta er líka stórmál vegna þess að þetta tengist spurningunum um eðli þess þjóðfélags sem við búum í. Þetta tengist spurningum um vinnuaðstæður sjómanna og landverkafólks og ég er alveg viss um að við hv. 16. þm. Reykv. gætum orðið sammála um margt sem þarf að hyggja að, t.d. varðandi vinnuálag á sjómenn og þær aðstæður sem beint og óbeint er verið að þvinga þá undir með þessum mikla flutningi vinnunnar út á haf.
    Hafið er erfiður vinnustaður. Þar er ekki pallslétt steypt gólf á þurru landi að vinna hvorki undir eða ofan á dekki í vondum veðrum á hafi úti og það þarf enginn að segja mér að það sé að öllu leyti eftirsóknarvert hlutskipti að vinna við vélar í litlu verksmiðjuskipi á hafi úti kannski 25 daga í einni lotu í miklum þrengslum og undir miklu álagi. Þó svo að mönnum hætti til þess að stimpla alla þessa hluti jákvæða vegna þess að þetta hefur gefið góðan pening, bæði fyrirtækjunum og sjómönnunum á undanförnum árum af tilteknum ástæðum sem er ekkert gefið að haldist til frambúðar, þá skulu menn fara varlega í þeim efnum. Og hvað með það ef afkoman versnar á verksmiðjuskipunum, ef það fer nú bara þannig, annaðhvort vegna offramboðs á frystum sjávarfurðum eða af öðrum ástæðum, að verðið lækkar og verður ekkert skárra en í hefðbundinni frystingu í landi eða annarri vinnslu en við Íslendingar sitjum uppi með 50 verksmiðjuskip og mörg hundruð manns úti á sjó sem hefðu getað unnið í landi ella? Hvað með það? Ætla menn þá að hrópa húrra hér á næstu árum, að það verði búið vegna þessarar stjórnlausu þróunar sem hefur ekki legið til grundvallar nein framtíðarstefnumörkun eða vandaðir útreikningar um eða spár um að þetta væri það sem koma skyldi um langa framtíð, ætla menn þá að klappa fyrir því? Ég er ekki viss um það. Menn skulu ekki gleyma því að frysting á fiski úti á sjó er ekkert ný og hefur verið við lýði um áratuga skeið. Samt hefur hún ekki útrýmt hefðbundinni fiskvinnslu. Vita menn það að stóru togarar Útgerðarfélags Akureyringa voru frystiskip í Færeyjum áður en þeir voru keyptir þaðan fyrir nær 20 árum þannig að við höfum ekkert verið að finna upp hjólið í þessum á allra síðustu árum. Sjófrysting á afurðum hefur um áratuga skeið keppt við aðra vinnslu, víða að úr heiminum þannig að við skulum ekki gefa okkur að við

séum hér að stíga í gegnum einhverjar breiðar dyr inn í nýja öld og það sé alveg sjálfgefið að í þessu felist framtíðin. Vinnslan í landi kann vel og á vonandi eftir að finna þá mótleiki sem duga henni til að halda velli og gera meiri verðmæti eins og hún hefur yfirleitt gert úr sinni vöru en grófari vinnsla á hafi úti með minni mannskap og erfiðari tæknilegum aðstæðum. Ég er alveg sannfærður um að framtíðin mun ekki felast í litlum verksmiðjuskipum sem hafa ekki aðstæður eða bolmagn til að keppa með sama hætti við verðmætasköpunarmöguleikana og vinnsla í landi sem hefur greiðari aðgang að vinnuafli, getur haft meira pláss og útbúið sig með ýmsum hætti öðruvísi til að fullvinna vöruna en lítil skip úti á sjó. Ef það verður einhver umtalsverð sjóvinnsla sem mun standast samkeppnina í framtíðinni er það mitt mat að hún verði um borð í stórum verksmiðjuskipum, virkilega stórum og öflugum skipum þar sem menn geta útbúið sig þannig að þeir verði að öllu leyti samkeppnisfærir. Og þessu held ég að menn þurfi að huga að líka.
    Síðan mega menn ekki þegar á bjátar eins og gert hefur á undanförnum 2--3 missirum í íslenskum sjávarútvegi, frá síðari helmingi sl. árs, tala eins og ekkert hafi gerst og eins og engin þróun hafi þar orðið. Það hefur orðið heilmikil þróun í fiskvinnslu. Ég veit ekki hvað frystihúsum hefur fækkað mikið, en þau skipta tugum sem hafa verið lögð niður núna á allra síðustu árum og í fjölmörgum stöðum er nú eftir eitt frystihús þar sem áður voru tvö eða þrjú. Það er að nokkru leyti eðlileg og óhjákvæmileg afleiðing af minna hráefni, en það er líka afleiðing af því að það hefur átt sér stað víða heilmikil uppstokkun í rekstri í þessari grein. Við erum kannski ekki að öllu leyti enn þá farin að sjá uppskeruna af þeim breytingum. Hún getur verið að koma og hefur kannski látið á sér standa eða ekki birst mönnum í batnandi afkomu ósköp einfaldlega vegna þess að ytri sem innri skilyrði sjávarútvegsins hafa versnað á síðustu tveimur missirum sérstaklega og þar af leiðandi hafa fyrirtækin ekki haft aðstöðu til að sýna betri afkomu í framhaldi af slíkri uppstokkun.
    Ég hef nú ekki oft lagt leið mína í þennan ræðustól í þeim tilgangi að verja sérstaklega hæstv. fyrrv. sjútvrh., enda er hann alveg maður til þess að standa fyrir sínu máli sjálfur. Ég hef oft og tíðum verið ekkert síður í hópi gagnrýnenda hans en meðmælenda, en ég ætla þó að leyfa mér að segja það að mér fannst ekki að öllu leyti sanngjarnt að draga hann til saka fyrir þá þróun sem er að eiga sér stað í þessum efnum núna. Ef við horfum á það hvernig hraðinn hefur verið í þessum breytingum var hann miklu minni og fjölgun frystiskipanna var tiltölulega hæg lengst af þeim tíma sem hv. 1. þm. Austurl. var sjútvrh. borið saman við þá --- ja, ég hlýt að kalla þá holskeflu sem er í gangi núna. Það er búið að kaupa inn í landið eða er verið að kaupa inn í landið tvö eða þrjú stór frystiskip frá Færeyjum, það eru þrír stórir frystitogarar í smíðum í Noregi, það er verið að breyta í íslenskum skipasmíðastöðvum nýsmíðuðum, litlum skipum yfir í verksmiðjuskip og breytingar eru í gangi í nokkrum tilvikum í eldri skipum. Skip eru nýfarin á veiðar sem verksmiðjuskip sem breytt hefur verið á undanförnum árum, hægt og hljótt liggur mér við að segja eins og sagði í gömlum danslagatexta, yfir í verksmiðjuskip og enginn hefur orðið mikið var við. Síðan eru í viðbót við þetta allt saman, eins og ég upplýsti hér áðan, allmörg fyrirtæki í landinu með athuganir í gangi um að kaupa inn í landið stór verksmiðjuskip erlendis frá og sendinefndir fyrirtækja hafa verið að ferðast um Noreg og fleiri lönd til að skoða slík skip og í nokkrum tilvikum gert í þau bráðabirgðakauptilboð. Mér er sjálfsagt ekki kunnugt um öll þau tilvik sem þar eru á ferðinni en ég veit nóg til þess að geta fullyrt að þau eru nokkur þannig að við erum kannski að tala um á hálfu til einu ári eitthvað á milli 10 og 15 verksmiðjuskip sem eru að bætast í íslenska flotann þegar allt er talið. Alla vega ein 10. Það er þó nokkuð. Og ég held að þó svo það eigi ekkert að hlífa hæstv. fyrrv. sjútvrh., núv. hv. 1. þm. Austurl., við gagnrýni í þessum efnum frekar en öðrum mönnum, þá megi hann þó njóta þess sannmælis þegar gagnrýnt er að hann skyldi ekki fyrir löngu grípa betur í taumana, sem ég hef reyndar oft gert, að hraði þessara breytinga var miklu minni lengst af þann tíma sem hann var sjútvrh. og frystiskip voru að tínast inn í landið eitt og eitt. Það var kannski nær lagi að menn á þeim tíma litu á þetta sem einhvern eðlilegan hluta af framþróun og uppbyggingu í íslenskum sjávarútvegi, en vöknuðu þó mjög snemma auðvitað efasemdir ýmissa um þetta.
    Herra forseti. Það er sjálfsagt ekki ástæða til þess yfir nánast tómum sal að vera að gera úr þessu lengri ræðuhöld af minni hálfu og hefur e.t.v. lítið upp á sig, enda virðast nú bæði fjölmiðlar og ýmsir, því miður, hv. alþm. hafa á flestu öðru meiri áhuga en umræðum um undirstöðu- og grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar. Það er ekki mikið í tísku að vera að ræða það sem er að gerast þar eins og við vitum, t.d. ég og hv. 3. þm. Austurl. af öðru tilefni. Þá verður maður oft harla dapur í sinni þegar maður horfir framan í þá staðreynd að þingsalirnir nánast tæmast þegar eitthvað af þessu tagi, eins og grundvallarumræða um þróun í íslenskum sjávarútvegi, er á dagskrá og ekki tollir nokkur einasti maður af hæstv. ríkisstjórn inni í salnum stundinni lengur þó alveg sérstaklega sé lýst eftir því að þeir láti nú sjá sig, þeir höfðingjar og snillingar. En það er nú ekki. Það er eitthvað annað sem þeim finnst mikilvægara þessa dagana.
    En um þetta frv. að lokum að öðru leyti, hæstv. forseti, hef ég svo sem engu við að bæta. Ég ætla að styðja þennan bleðil þó aumur sé vegna þess að það litla sem hann mun hafa í för með sér ef eitthvað verður er þó heldur til góðs en ills og það er ekki svo margt sem okkur býðst upp á þessa dagana, hv. alþm., að rétta upp höndina með sem heldur horfir til heilla en hitt í íslenskum sjávarútvegi þó í litlu sé að maður lætur ekki slíkt tækifæri ónotað.