Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 12:08:00 (6209)


     Björn Ingi Bjarnason :

    Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram hin ágætasta umræða um fjöregg íslensku þjóðarinnar sem liggur í sjávarútveginum og það sem þar er gert og vel gert. Þeir hv. þm. sem hér hafa tekið til máls eiga sérstakar þakkir skildar fyrir þessa umræðu því að hér hafa komið fram og verið tekið á mörgum athyglisverðum atriðum. Þessi umræða byrjaði í tengslum við sjófrystingu og áhyggjur manna vegna aukningar hennar. Við þekkjum öll hvaða áhrif þetta hefur haft á vinnsluna í landi samfara því að á svipuðum tíma hefur orðið veruleg aukning á útflutningi á heilum fiski sem hefur farið í vinnslu erlendis. Þessi þróun á í sjálfu sér sínar skýringar. Þetta hefur verið hagkvæmt fyrir þá aðila sem í þessu hafa staðið. Sjófrystingin hefur gefið töluvert hærra verð en landfrystingin, allt að 10--20%, og það hefur verið borgað gott verð fyrir heilan, óunninn fisk erlendis.
    Eitt finnst mér að hafi vantað inn í þessa umræðu. Það eru atriði sem snúa beint að vinnslunni í landi og hennar möguleikum til þess að standast þessa samkeppni og það hefur ekki komið fram neitt sérstakt í þá veru. En ég held að þar megi benda á eitt atriði sem er kannski nær en við sjáum í fljótu bragði. Er ég þar að tala til EES-samningsins og þeirra möguleika sem þar liggja.
    Það hefur verið þannig fram að þessu að tollar EB á heilum óunnum fiski hafa verið 3,7%, en tollur á ferskum flökum hefur verið 18%. En það liggur fyrir og er vitað að verð á ferskum flökum er langtum, langtum hærra en verð á frystum flökum hvort sem við erum að tala um sjófryst flök eða landfryst flök, allt að 30--40% hærra á ferskum flökum í Bretlandi en sjófrystum flökum.
    Fram undan eru möguleikar fyrir okkur að komast inn á þennan ferskflakamarkað tollalaust og komast í þetta háa verð og geta þannig keppt við þann heila, óunna fisk sem hefur farið á þessi svæði.
    Þá hefur verið horft til og bent á flutningsvandamál þessu samfara. Til þess að koma ferskum flökum í sem bestu ástandi til kaupandans á erlendri grund hefur verið bent á flugið og flutningar í flugi hafa verið miklir og skilað vörunni vel til kaupandans. Flugflutningar eru talsvert dýrari en flutningar með skipum, en það kemur þá á móti að í flökum erum við ekki að flytja nema helminginn af því magni sem við erum að flytja í heilum fiski og senda með fiskiskipum eða í gámum.
    Síðan er hafinn töluverður útflutningur á ferskum flökum í gámum og sá flutningsmáti er vel mögulegur. Það liggur fyrir og hefur verið sýnt að það er hægt að flytja fiskinn sem flök og koma honum í mjög góðu ástandi til kaupandans. Þarna held ég að liggi miklir möguleikar fyrir fiskvinnsluna í landi. Það liggur fyrir að frystitogararnir geta aldrei keppt við vinnsluna í landi, við þá möguleika sem hún hefur í fersku flökunum.
    Þetta er atriði sem ég vildi benda á því að þetta hefur ekkert komið fram í umræðunum og ef við lítum til þeirrar þróunar sem hefur verið í útflutningi á ferskum flökum eru menn í smáum skrefum að stíga inn á þessa braut.
    Fyrir fáum árum var verðmæti útflutnings á ferskum flökum 140 millj., en á örfáum árum hefur þetta tífaldast. Þetta er atriði sem ég vildi aðeins draga inn í þessa umræðu, en ég endurtek þakkir til hv. þm. fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um sjávarútveginn.