Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 12:14:23 (6210)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að það eru fjölmargir möguleikar sem ónefndir eru og hafa verið hér í þessari umræðu t.d. varðandi möguleika vinnslunnar í landi til að þróa sig og breyta sér þannig að hún standist þessa samkeppni og eygi kannski sóknarfæri umfram það sem hægt er að hugsa sér eða sjá í fljótu bragði að verksmiðjuvinnsla á hafi úti við þröngar aðstæður geti nokkurn tíma nýtt sér og þar á meðal eru vissir möguleikar í útflutningi ferskra vara. Það verður þó að segjast eins og er að ég held að það þurfi eins og nánast í öllum öðrum tilvikum að gjalda varhug við því að trúa um of á að einhver ein leið af þessu tagi muni fela í sér framtíðina. Ég held að útflutningur á ferskum vörum og ferskum flökum, t.d. snyrtum og að einhverju leyti unnum flökum, geti vel átt eftir að þróast sem hluti af markaðssetningu á sjávarafurðum en aðeins sem hluti hennar. Þetta er vandasamur markaður og það er líklegt að einungis hluti þeirra sem neyta fisks á hverjum tíma séu útsettir eftir slíkri vöru. Nýlegar kannanir t.d. í Bandaríkjunum benda til þess að þar setja menn viss spurningarmerki við færslu neyslunnar yfir í ferskar vörur af gæðaástæðum, af þeirri einföldu ástæðu að það þarf að vanda alveg gríðarlega alla meðferð og ,,hantéringu`` á vörunni ef hún er send milli landa fersk til neyslu til þess að gæðin slakni ekki. Þetta er t.d. sú staðreynd sem Bandaríkjamenn eru að skoða og virðist þar benda til þess að jafnvel sú færsla á neyslu yfir í ferskar afurðir sem menn voru fyrir nokkrum árum að spá þar í landi láti nokkuð á sér standa vegna þess að þrátt fyrir allt treysti menn á ýmsan hátt betur frystu vörunni, að hún sé öruggari gagnvart gæðunum ef meðferðinni er í einhverju ábótavant.