Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 12:48:43 (6216)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir hans ræðu og hans hugleiðingar, sem ég kýs að kalla svo, sem ég tel að hafi í öllum aðalatriðum verið skynsamlegar og ég get tekið undir að flestu leyti. Ég vil þó aðeins benda á eitt atriði í sambandi við hans málflutning og fyrir mitt leyti taka skýrt fram að þegar við í Alþb. höfum verið að tala um ýmsar aðgerðir sem gætu haft áhrif á þessa þróun er þar um fjölmargt að ræða sem ekki er kannski rétt að kalla undir neikvæðum formerkjum aðferðina boð og bönn. Hæstv. sjútvrh. viðurkennir að hann er með sínu frv. að vonast til þess að hafa ákveðin óbein áhrif á þessa þróun með almennum ráðstöfunum. Ég held að það sé hægt að hugsa sér margt fleira af því tagi sem kæmi til álita ef menn verða sammála um að þessi þróun gangi ískyggilega hratt fyrir sig og muni geta haft mjög alvarlegar afleiðingar að sínu leyti, ef hún gengur út í öfgar, fyrir atvinnuástandið í landi, leitt af sér offjárfestingu o.s.frv.
    Ég bendi á eina hugmynd um almenna ráðstöfun af þessu tagi sem væri sú að láta það að einhverju leyti bitna á verksmiðjuskipunum að nýting þeirra á fisktegundum innan kvóta væri lélegri en vinnslu í landi og það yrði að einhverju leyti látið koma fram sem skerðing á þeirra veiðiheimildum sambærileg við þá skerðingu sem er á útflutningi á óunnum ísfiski. Það væri ekki boð, ekki bönn, það væri almenn aðgerð sem gæti haft nokkur áhrif, bein eða óbein, á þessa þróun.
    Ég tek svo undir það að lokum með hæstv. sjútvrh. að það skiptir töluverðu máli hvort þau nýju verksmiðjuskip sem nú er verið að kaupa frá Færeyjum eða annars staðar að frá útlöndum eða skoða með kaup í huga bætast við sóknina í okkar hefðbundnu kvótabundnu fisktegundir eða verða til þess að menn sækja í auknum mæli á tegundir utan kvóta á djúpmiðum, en þá er líka spurningin: Geta menn með einhverjum ráðstöfunum tryggt að svo verði eða stuðlað að að svo verði en að ekki verði um að ræða flutninga á hefðbundinni vinnslu þorsks eða annarra hefðbundinna veiðitegunda út á haf?