Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 12:51:33 (6217)



     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svörin. En ég saknaði þess að hann ræddi eitthvað um það sem ég spurði hann um í sambandi við átak sem mundi tengjast þessum reglum sem koma á með þessum nýju lögum, hvort ríkisstjórnin mundi ekki beita sér fyrir því að þetta átak færi fram og að það færi fram sem mest hér innan lands. Ég tel fulla ástæðu til að huga að þessu máli og að það verði gert strax einfaldlega vegna þess að útgerðaraðilar í landinu munu þurfa að bregðast við strax og þessar reglur liggja fyrir og hafa sjálfsagt hugað að því sumir hverjir strax vegna umfjöllunar um þær að þá mega menn engan tíma missa. Ef þetta á að geta orðið atvinnuskapandi fyrir okkur hér innan lands sem mest þurfa menn að bregðast við þessu strax. Og satt að segja vona að menn beri gæfu til að nýta sér þá möguleika sem í þessu felast til að styðja við bakið á innlendri skipasmíði og atvinnulífinu almennt.
    Ég get tekið undir að það sé erfitt að setja reglur sem hamli gegn þeim hlutum sem við erum að tala hér um, þessum fullvinnsluskipum. Hins vegar er ég á þeirri skoðun að það hefði ekki átt að setja nema eina reglu. Það átti hreinlega að banna þetta tímabundið. Banna að flytja inn þessi vinnsluskip tímabundið. Við erum með nægilega stóran flota eins og er. Þó hann sé að mörgu leyti úreltur eru menn þó langflestir sammála um að hann sé nægilega stór. Og það mundi ekki hafa valdið neinum stórkostlegum skaða þó við fengjum ekki ný og stór skip í hann næsta missirið eða svo, eitt ár eða tvö, og það hefði átt að gefa

fiskvinnslunni í landinu það tækifæri til þess að bregðast við þessum nýju aðstæðum.