Röð mála á þingfundi

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 13:11:00 (6220)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það væri til mikilla þæginda fyrir þá þingmenn sem eru nú í húsinu að fá að vita hvaða mál forseti hyggst taka fyrir í dag. Ég minni á að hér fóru fram fjölmargar atkvæðagreiðslur í morgun sem ekki hefðu verið framkvæmanlegar nema fyrir tilvist stjórnarandstöðuþingmanna þar sem stjórnarmeirihlutinn hafði ekki tilskilinn meiri hluta hér á meðan atkvæðagreiðslur fóru fram. Við erum auðvitað tilbúin að halda áfram að taka þátt í þingstörfum. En þar sem nú er laugardagur kominn og menn gætu hugsanlega hafa bundið sig einhvers staðar annars staðar vil ég fara fram á að hæstv. forseti upplýsi hvaða mál hann ætlar að taka fyrir í dag.