Lax- og silungsveiði

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 13:22:00 (6224)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson ):
    Herra forseti. Þetta frv. kostar ekki peninga og ég geri enga kröfu til hæstv. fjmrh. um að hann hafi hér viðveru sérstaklega vegna míns máls. Ég mæli fyrir nál. landbn. sem er lagt fram á þskj. 879.
    Allir nefndarmenn hafa undirritað nál. sem viðstaddir voru afgreiðslu málsins en Kristín Ástgeirsdóttir var fjarverandi.
    Frv. eins og það var lagt fram á Alþingi gerði ráð fyrir tveimur breytingum. Það er annars vegar að eftir að fjallað hefur verið um tekjur sjóðsins samkvæmt 91. gr. laga um lax- og silungsveiði verði sett inn skýr ákvæði um hvernig beri að fara með innheimtu þessara mála. Í 2. gr. frv. er hins vegar gert ráð fyrir að heimilt verði að ráðstafa fjármagni úr sjóðnum við kaup á úthafslaxveiðikvóta.
    Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust, sem voru frá allmörgum aðilum tengdum þessum verkefnum, er hins vegar bent á að eðlilegt sé að hér verði um almenna heimild að ræða en ekki sérstaklega

miðað við það eitt að heimilt sé að ráðstafa fjármunum úr sjóðnum til kaupa á úthafslaxveiðikvóta. Með tilliti til þess er lögð fram brtt. á þskj. 880 með því orðalagi sem kveður þar á um. En þar segir í niðurlagi greinarinnar: ,,Enn fremur er heimilt að veita úr Fiskræktarsjóði lán og styrki til annarra verkefna sem stuðla að aukningu og viðhaldi íslenskra laxfiska.``
    Þessar tillögur eru gerðar m.a. á grundvelli umsagna sem nefndinni bárust sem voru frá Búnaðarsambandi Íslands, Landssambandi veiðifélaga og Veiðimálastofnun.