Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 13:26:17 (6225)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson ):
    Hæstv. forseti. Sú till. sem hér er til umfjöllunar er lögð fram á þskj. 167 og nál. landbn. á þskj. 878. Eins og fram kemur á því nál. eru allir viðstaddir nefndarmenn samþykkir þessari till. eftir þá breytingu sem á henni var gerð.
    Kristín Ástgeirsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Flm. að þessari till. eru úr öllum flokkum hér á Alþingi. M.a. af þeirri ástæðu er ekki undrunarefni þó um hana hafi ríkt góð samstaða í landbn.
    Sú breyting er lögð til að síðari málsgrein þáltill. falli niður, en till. var lögð fram fyrir áramót strax og þar er kveðið á um að niðurstöðu þeirrar athugunar sem fram kunni að fara á þessu máli, vistfræðilegu umhverfi í landbúnaði, verði hægt að nýta til undirbúnings við Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu. Augljóst er að slíkt verður ekki hægt og þar af leiðandi leggur nefndin til að síðari málsliður till. falli niður. Að öðru leyti mælir nefndin með því að till. verði samþykkt eins og hún var lögð fram á Alþingi.
    Till. fylgdi ítarleg greinargerð og um hana fór fram á margan hátt málefnaleg og ágæt umræða þegar málið var til meðferðar hér á Alþingi og vísa ég til alls þess efnis þegar um þetta mál er fjallað.
    Umsagnir sem bárust um till. voru m.a. frá Búnaðarfélagi Íslands, Landgræðslu ríkisins, mengunarvörnum Hollustuverndar ríkisins, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins og Stéttarsambandi bænda. Allir þessir aðilar mæltu með samþykkt till. Á margan hátt var umsögn Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins ítarlegust og í henni komu fram margar mikilvægar ábendingar um stöðu þessara mála og að hverju hefur verið unnið í þessum efnum og má fullyrða að í þeim efnum hafi gætt nokkurrar framsýni, m.a. í eftirliti á innflutningi á hráefnum til landbúnaðarins bæði er varðar áburð og fóður.
    Nefndarálitið greinir svo nánar frá afstöðu nefndarinnar og ég tel ekki ástæðu til að fjalla nánar um þetta, en vísa til þess sem viðbótarskýringar á afstöðu landbn. Alþingis sem mælir með því að þessi þáltill. verði samþykkt.