Vistfræðileg þróun landbúnaðar á Íslandi

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 13:34:40 (6227)


     Frsm. landbn. (Egill Jónsson ):
    Herra forseti. Það er út af þessari ábendingu frá hæstv. umhvrh. Málinu var vísað til landbn. athugasemdalaust. Það hafa komið fram efasemdir um það í sumum tilfellum hvert beri að vísa málum. T.d. hygg ég að það hafi verið svo með tillöguflutning sem varðar bann á búfjárhaldi í hinu gamla landnámi Ingólfs. Þrátt fyrir að sú till. hafi alveg eins átt heima í landbn. og þótt fram hafi komið margar ábendingar um að það bæri að vísa henni þangað hefur umhvn. ekki tekið upp neina umræðu við landbn. um þá till.
    Það er svo annað mál að það væri sjálfsagt góður kostur að þegar um það er að ræða að mál eru á mörkum nefnda væru tekin upp einhver samráð þeirra á milli. Og ekki skyldi standa á mér í þeim efnum.
    Ég vek athygli á því að málið var sent til umsagnar til þeirra aðila sem þessi till. snertir sérstaklega. Það eru stofnanir landbúnaðarins og að því er ég hygg líka sem heyra undir landbrn. og líka stofnun sem heyrir að því er ég hygg undir umhvrn. Þannig var þessu máli efnislega vísað til þeirra aðila sem málið sérstaklega varðar. En því var ekki vísað til landbrn. til umsagnar. Það hefur ekki verið með þau málefni sem sérstaklega hefur verið fjallað um í landbn. að þeim hafi verið vísað til ráðuneytis. Þetta er till. sem er flutt af alþingismönnum. Þetta er ekki ríkisstjórnarmál og ef það hefði átt að uppfylla allt réttlæti í þessum efnum hefði bæði átt að leggja málið fyrir landbrn. og umhvrn. og að sjálfsögðu ekki síður landbrn. Í þessum efnum er að sjálfsögðu fjarri því að umhvrn. hafi verið sniðgengið.
    Það er að sjálfsögðu stuttur tími sem eftir lifir Alþingis, en það væri nú skárra ef óskir í þessum efnum væru ekki virtar og mér er afar kærkomið að finna leiðir til þess í samráði við umhvrn. að hans sjónarmið geti komist að áður en málið verður endanlega afgreitt.