Flugmálaáætlun 1992--1995

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 13:54:56 (6232)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég þakka nefndinni fyrir þau góðu störf sem hún hefur unnið. Ég vil aðeins vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns leggja áherslu á það að með því að halda óskiptum fjárveitingum á árunum 1994 og 1995 er einungis verið að undirstrika, að ég tel, nauðsyn þess að endurskoða flugmálaáætlun frá grunni eins og hún liggur nú fyrir með hliðsjón af breyttum viðhorfum í samgöngumálum og sveitarstjórnarmálum. Ég get tekið sem dæmi hugsanlega sameiningu sveitarfélaga, get bent á að það eru fjórir flugvellir nú á svæðinu frá Ísafirði til Þingeyrar, en jarðgöngum lýkur þar mjög senn, og menn reyni að átta sig á því í höfuðdráttum.
    Það liggur líka fyrir að það er búið að leggja niður áætlunarflug á staði eins og Blönduós og Stykkishólm og fleiri breytingar eru í aðsigi þannig að með þessu er einungis gefin yfirlýsing um að við teljum nauðsynlegt að endurskoða áætlunina frá grunni, reyna að meta hvaða flugvellir eigi framtíð fyrir sér og út frá því marka nýja stefnu á næsta sumri þannig að ný flugmálaáætlun verði lögð fyrir á næsta hausti. Ég vil líka minna á í þessu sambandi að nýr flugmálastjóri mun taka til starfa 1. júní þannig að þetta er aðeins hluti af þeirri endurskipulagningu sem á sér stað í flugmálum.