Flugmálaáætlun 1992--1995

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 14:11:30 (6237)


     Frsm. samgn. (Árni M. Mathiesen) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er varðandi það sem hv. 3. þm. Austurl. vék að áðan með meðferð málsins. Mér er ekki kunnugt um að nefndin hafi vikið frá venju um að senda flugmálaáætlun út til umsagnar þingmannahópa í kjördæmunum. Mér er ekki kunnugt um að svo hafi verið gert áður.
    Varðandi þingmannahóp Austurlands sérstaklega óskuðu þeir þingmenn eftir því að geta fjallað um áætlunina í sínum hóp og var þá m.a. afgreiðslu málsins frestað í nefnd til að gefa þeim tækifæri til þess. Þeir komu síðan með ósk um að þar sem stóð í áætluninni ,,tækjageymsla`` stæði: þverbraut og voru málin m.a. könnuð hjá Flugmálastjórn út frá því sem hv. 3. þm. Austurl. nefndi áðan í sambandi við byggingu á tækjageymslu. Það kom í ljós að tækjageymsla hefur risið, en hún er ekki fullbúin og ekki fullgreidd og þarf þar af leiðandi að vera fjárveiting til þess á þessari flugmálaáætlun. Þar sem nefndin vildi hins vegar gjarnan taka tillit til óskar þingmanna Austurlands um að þverbraut væri inni í áætluninni brá nefndin á það ráð að hafa þetta sameiginlegan lið fyrir tækjageymslu og þverbraut þannig að ef eitthvað stæði þar eftir þegar tækjageymslunni, sem risin er og ætlunin er að klára, væri lokið væri hægt að halda áfram með þá athugun á byggingu þverbrautar sem í gangi hefur verið, en það er alveg ljóst að sú framkvæmd mun kosta verulega fjármuni, sennilega einhver þriggja stafa tala í milljónum talið.
    Ég vil geta þess í lokin að hv. 1. þm. Austurl. sat fund nefndarinnar þegar flugmálaáætlunin var afgreidd og gat fyrir sitt leyti fallist á að textinn væri á þessa leið.