Flugmálaáætlun 1992--1995

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 14:19:02 (6241)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Þetta er fróðleg umræða fyrir margra hluta sakir, sem hér hefur upphafist, og ég vil fyrst aðeins tjá mig um það sem lýtur að þátttöku þingmanna kjördæmanna í vinnu að þessu leyti. Ég held að það hafi báðir aðilar nokkuð til síns máls í þeim efnum og sannarlega hefur 3. þm. Austurl. þar rétt fyrir sér að þingmannahópar kjördæmanna hafa fjallað um flugmál í sínum kjördæmum. Það eru fjölmörg dæmin um það. Ég hygg þó að það kunni að hafa verið eitthvað mismunandi eftir að flugmálaáætlun kom til sögunnar hvernig einstakir þingmannahópar hinna einstöku kjördæma hafa unnið að því og vissulega er það svo að flugmálaáætlunin er ekki byggð upp á grundvelli tiltekinnar prósentuskiptingar eins og vegamálaáætlunin. Þar er nokkur munur á. En það eru þó dæmi um það frá endurskoðun vegáætlunarinnar á undanförnum árum að þingmannahópar eintakra kjördæma hafa verið með tillögur um nokkrar breytingar. Ég man t.d. í fljótu bragði eftir því að bæði þingmenn Austurlands og þingmenn Norðurlands vestra hafa á undanförnum árum, síðustu eitt, tvö skipti sem vegáætlunin hefur verið hér til meðferðar, verið með tilteknar áherslur í sambandi við einhverja tilfærslu á fjármunum til flugvallamála innan þeirra kjördæma. Svo mikið er víst. En hvernig að því hefur verið staðið nákvæmlega af hálfu fjárveitinganefndar, hvort tillagan hefur verið send eða ekki send formlega til hópanna, þori ég ekki alveg að taka af skarið um, enda má það kannski einu gilda. Aðalatriðið er að sjálfsagt er að reyna að hafa sem mest samkomulag og best um þessa hluti og þar á meðal ekki síst við þingmannahópa kjördæmanna.
    Hv. 3. þm. Austurl., svo ég haldi mig aðeins við hann, nefndi gamlan kunningja í umræðum um þessi mál þar sem er þverbraut á flugvelli í Nesjum í nágrenni Seljavalla í Hornafjarðarhéraði, en þar er einnig kauptún í nágrenninu sem heitir Höfn í Hornafirði. Það er hárrétt hjá hv. 3. þm. Austurl. að það er ekkert sjálfgefið að kenna þennan flugvöll endilega við þann kaupstað og má alveg eins til sanns vegar færa og hafa það sem sannara er að flugvöllurinn er í Nesjahreppi í Hornafirði skammt frá bænum Seljavöllum og hefur margt fyrirbærið tekið mark sitt af ómerkari hlutum en þeim þó að völlurinn væri skýrður upp á nýtt og kenndur við þetta merka bæjarstæði og héti þá Seljavöllur og færi vel á því.
    En það er af þessari þverbraut að segja að hún er réttilega búin að vera til umræðu allnokkur skipti þegar flugmálaáætlun hefur verið til endurskoðunar og síðast þegar frestun varð á því að í framkvæmdir hennar yrði ráðist fór ég yfir það mál með starfsmönnum Flugmálastjórnar. Þá var m.a. nefnt sem rök við mig að enn væru menn ekki að fullu og öllu komnir til botns í heppilegustu staðsetningu brautarinnar og töluðu í því sambandi eitthvað um sviptivinda af nálægum fjallaskörðum. Að öðru leyti er það auðvitað svo að flugvöllurinn í Hornafirði er einn af mikilvægari héraðsflugvöllum í landinu og þarf að sjálfsögðu að fá þverbraut til að geta að fullu þjónað sínu hlutverki. Vonandi tekst að sjá til þess innan ramma flugmálaáætlunar á næstu árum.

    Það eru nokkur atriði önnur, herra forseti, sem ég vil leyfa mér að nefna. 1. þm. Vesturl. nefndi þá stöðu sem uppi er í flugmálum á Vesturlandi og nýlega ákvörðun sérleyfishafa á þeirri flugleið sem hann tiltók, leiðinni Reykjavík-Stykkishólmur, að skila inn leyfum sínum. Þetta eru breytingar sem menn hafa þóst sjá fyrir upp á síðkastið, að það væri að bresta grundvöllurinn undir reglubundnu áætlunarflugi á nokkra flugvelli sem eru í mestri nálægð við suðvesturhornið eða þéttbýlissvæðið við sunnanverðan Faxaflóa, og sú staðreynd virðist nú blasa við mönnum að ekki er lengur rekstrargrundvöllur undir áætlunarflugi á flugvelli eins og Stykkishólmi og Blönduósi.
    En hv. 1. þm. Vesturl. nefndi jafnframt réttilega að á hinn bóginn hefur leiguflug farið vaxandi á þennan flugvöll og heildarflugumferð e.t.v. alls ekki dregist saman þó svo að rekstrargrundvöllur hafi brostið undir áætlunarflugi. Þetta dregur athyglina að vissu vandamáli sem þarf að huga að í sambandi við framtíðaruppbyggingu flugmálaáætlunarinnar og það er sú spurning hvort skipting flugvallanna í flokka í flugmálaáætluninni sé ekki gölluð í þessu tilliti og það geti verið í vissum tilvikum óheppilegt að færa flugvelli niður um flokk við það eitt að áætlunarflug leggist af ef á sama tíma er jafnvel vaxandi flugumferð af öðru tagi inn á sömu flugvelli og þeir af þeim sökum síst minna þýðingarmiklir eða mikilvægir en þeir áður voru. Eins og, ef ég man þessi fræði rétt, flokkunin er upp byggð í dag mun það sjálfkrafa leiða af sér breytingu á flokkun viðkomandi flugvalla þar sem öllum áætlunarflugvöllum er skipað í þrjá flokka og síðan koma aðrir flugvellir og lendingarstaðir sem sérstakur flokkur. Þetta þarf kannski að athuga. Ég held það skipti kannski ekki sköpum þó sú flugmálaáætlun sem nú er verið að afgreiða standi eins og hún hefur verið upp byggð, en ég tek undir það með hv. 1. þm. Vesturl. að þarna er á ferðinni atriði sem huga þarf að.
    Ég er hins vegar ekki að öllu leyti sammála þeim rökum sem færð voru fram af frsm. samgn., hv. formanni hennar, og að nokkru leyti hæstv. samgrh., ef ég heyrði rétt, að það séu einhverjar sérstakar aðstæður uppi sem geri að verkum að það sé ekki rétt að skipta fjárveitingum niður á verkefni og staði á þessu fjögurra ára tímabili eins og verið hefur og flugmálaáætlun hefur gert ráð fyrir. Ég minni á að það er jafnan svo að síðari tvö árin í hverri áætlun koma til endurskoðunar áður en til framkvæmda kemur. Flugmálaáætlunin hefur verið upp byggð þannig að hafi orðið einhverjar þær breytingar sem geri það að verkum að ástæða sé til að færa fjármagn milli verkefnaflokka eða flugvalla hafa menn það tækifæri þegar reglubundin endurskoðun kemur upp á tveggja ára fresti. Það er hins vegar slæmt að mörgu leyti að geta ekki byggt á áætlun um einstaka verkþætti og einstök svæði til lengri tíma en tveggja ára í senn. Ég tel það alveg tvímælalaust vera afturför að hverfa frá því að skipta fjárveitingunum niður á allt fjögurra ára tímabilið eins og gert hefur verið. Ég held það hafi ekki verið færð fram sannfærandi rök fyrir því að núna væru einhverjar þær sérstöku sviptingar uppi í flugmálum landsmanna að það væri ekki viðráðanlegt verkefni að skipta þessu með sama hætti og gert hefur verið.
    Það sem nefnt var hér t.d. um að áætlunarflugið væri að dragast saman eða leggjast af til nokkurra staða er ekkert nýtt. Það er hlutur sem menn hafa rætt um og hefur reyndar verið spáð fyrir um og er núna ósköp einfaldlega að ganga eftir og rætast. Þannig var það t.d. í fyrra í nokkuð umræddri skýrslu sem kom út á vegum samgrn. um samgöngur og fjarskipti og þróun þeirra mála fram til aldamóta. Þar var nákvæmlega þessum hlutum spáð fyrir. Þá var spáð fyrir um það hvaða áætlunarflugvellir mundu að líkindum leggjast niður á næstu árum. Í því er ekkert sem á að koma mönnum á óvart og það sem nú hefur verið að birtast mönnum í formi ákvarðana flugrekenda er ósköp einfaldlega það sem búast mátti við og spáð hafði verið fyrir um. Það eru þess vegna engin rök til þess að ekki sé hægt að byggja upp framkvæmdaáætlun í flugmálum til jafnlangs tíma og gert hefur verið að undanförnu.
    Svo vil ég að lokum, herra forseti, beina einni spurningu til hv. formanns samgn. Ég tók upp í 1. umr. um flugmálaáætlun málefni sem varðaði hugsanlegt samstarf okkar Íslendinga í flugmálum við Grænlendinga. Ég skýrði frá því að ég hefði undir höndum skýrslu sem grænlenska landsstjórnin hefði látið taka saman um þróun flugsamgangna í Grænlandi og í þeirri skýrslu er kafli sem lýtur að hugsanlegu samstarfi Grænlendinga við Íslendinga um uppbyggingu sinna flugsamgangna. Það kemur inn á það að Grænlendingar standa frammi fyrir miklum breytingum nú þegar bandaríski herinn hættir þátttöku eða rekstri flugvallarins í Syðri-Straumsfirði og þurfa á næstu mánuðum eða missirum að taka afdrifaríkar ákvarðanir um annaðhvort gríðarlegar fjárfestingar í formi uppbyggingar nýrra flugvalla á Grænlandi, þar á meðal flugvallar sem er nægjanlega vel úr garði gerður til að geta þjónað sem þeirra tengiflugvöllur við útlönd. Annar valkostur sem þeir hafa er að taka sjálfir á sig rekstrarkostnaðinn af tengiflugvellinum í Syðri-Straumsfirði sem er kostnaður sem nálgast milljarð ísl. kr. á ári hið minnsta. En þriðji valkosturinn sem velt er upp í þessari skýrslu grænlensku landsstjórnarinnar er að ganga til samstarfs við Íslendinga um að Keflavíkurflugvöllur verði tengiflugvöllur fyrir millilandaflug Grænlendinga í vesturátt og þeir hagi uppbyggingu sinna flugvalla með hliðsjón af því. Þetta er ódýrasti kosturinn í stofnfjárfestingum augljóslega, kemur sömuleiðis best út rekstrarlega fyrir flugrekendur í Grænlandi, en er að því leyti auðvitað lakari í þeirra augum að þetta mundi þýða að umtalsverðar tekjur og umsvif af flugrekstri færðust úr landinu og yfir til Íslands.
    Ég tel hér vera á ferðinni svo stórt mál að það sé ekki sæmandi íslenskum flugmálayfirvöldum að hafa ekki tekið á því og þess vegna óskaði ég eftir því við 1. umr. um málið að samgn. færi yfir þetta mál. Ég bauð fram mína aðstoð og þau gögn sem ég hef undir höndum ef nefndin hefði áhuga á því að fara

yfir þetta.
    Nú heyrði ég ekkert af þessu í framsöguræðu hv. formanns samgn. og þótti það miður. Ég hef á þeim tíma sem síðan er liðinn farið aðeins betur yfir þetta mál og m.a. aflað mér upplýsinga um stöðuna eins og hún er núna í Grænlandi. Þar er upplýst að enn hafa engar ákvarðanir verið teknar af hálfu grænlenskra yfirvalda um framtíðina í þessum efnum.
    Mér er jafnframt kunnugt um að á vegum Flugleiða hafa menn fylgst með þessu máli og hafa mikinn áhuga á því hver niðurstaðan kann þarna að verða.
    Ég óska þess vegna eftir því að hv. formaður samgn. upplýsi um hvort samgn. hafi eitthvað um þetta fjallað eða farið yfir þetta. Ef ekki óska ég eindregið eftir því að nefndin geri það, ekki endilega í tengslum við afgreiðslu þessarar flugmálaáætlunar því að út af fyrir sig er ekki neitt sérstakt sem bendir til að hún þurfi að breytast eða taka mið af þessari stöðu, en mér finnst eðlilegt að samgn. Alþingis sé upplýst um þetta mál og fari yfir það og ég hefði gjarnan haft áhuga á að fá að koma á fund nefndarinnar og ræða við hana á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég hef undir höndum.
    Ég vil jafnframt taka fram að ég geri þetta sem áhugamaður um vestnorræna samvinnu, sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins. Ég er sannfærður um að ef svona samstarf um uppbyggingu og samþættingu flugsamgangna á þessu norðvestursvæði tækist yrði það mikið framfaraspor í öllum samskiptum þessara grannþjóða. En þetta gæti líka, ef vel tækist til, orðið verulegt hagsmunamál okkar Íslendinga án þess þó að á hagsmuni Grænlendinga væri gengið, þvert á móti virðist manni hér blasa við að um gagnkvæmt hagstæðan kost kunni að vera að ræða fyrir báðar þjóðirnar.
    Ég vil sem sagt taka þetta mál upp á nýjan leik og óska eftir því að hv. formaður samgn. upplýsi um stöðu málsins í nefndinni ef einhver er eða hlutist þá til um að farið verði yfir málið af hálfu samgn. og væri þá ekkert óeðlilegt að með í ráðum yrðu fulltrúar samgrn. og Flugmálastjórnar.
    Ég vil svo að lokum taka undir það, sem ég skildi vera ósk hv. 3. þm. Austurl., að þessari umræðu yrði ekki lokið eða afgreiðslu tillögunnar frestað þangað til búið væri að skýra til fulls þau óljósu atriði sem hann nefndi í sambandi við flugvöllinn í Hornafirði. Ef það skyldi leiða til fundahalda samgn. innan umræðunnar um málið hefði ég gjarnan óskað eftir því að hún tæki jafnframt upp af sinni hálfu það mál sem ég hef hér sérstaklega gert að umtalsefni.