Flugmálaáætlun 1992--1995

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 14:33:35 (6242)

     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Mig langar til að leggja örfá orð inn í þessa umræðu og þá er það fyrst með þverbrautina í Hornafirði. Ég ætla ekki að blanda mér í það hvort völlurinn er kallaður Seljavöllur eða eitthvað annað, en það er mikil þörf á því að leggja þarna þverbraut og mikil nauðsyn fyrir samgöngur í Hornafirði, en það er þarna áberandi annmarki á. Helst þyrfti að flytja fjöllin eða lægja vindinn, nema þá hvort tveggja væri, en hvort tveggja er nokkuð torvelt. Ég get staðfest það, sem fyrrv. samgrh. var að segja hér áðan, að samkvæmt þeim upplýsingum sem starfsmenn Flugmálastjórnar hafa kynnt í flugráði eru aðstæður á þessari þverbraut eða þar sem fyrirhugað var að setja þessa þverbraut með þeim hætti að þar er ekki auðvelt að koma fyrir braut sem þjónaði þeim tilgangi sem hún þyrfti. Á þessu þyrfti að finna lausn, annaðhvort með því að færa brautina eða leggja braut annars staðar eða með einhverjum öðrum hætti. En þarna koma úr fjallaskörðum snarpir vindar eins og enginn veit sjálfsagt betur en hv. 3. þm. Austurl. og á þessu er ekki búið að finna viðunandi lausn þannig að ástæða sé til eða eðlilegt sé að festa fé í lagningu brautarinnar að svo komnu máli.
    Ég stend ekki upp fyrst og fremst út af þessu heldur vegna þess að ég er að ýmsu leyti óánægður með þessa flugmálaáætlun. Ég átti sæti í flugráði til síðustu áramóta og þar voru drög að þessari flugmálaáætlun til meðferðar á sínum tíma. Ég var ekki samþykkur þessum drögum og bókaði í flugráði við afgreiðslu þess á málinu. Ég gagnrýndi bæði vinnubrögð og niðurstöður flugráðs og eins gagnrýndi ég rekstur Flugmálastjórnar. Ég átti sæti í flugráði um nokkurra ára skeið og það fannst mér vera sorgleg upplifun að ýmsu leyti þó að þarna sætu með mér ýmsir ágætismenn sem mér var fengur að því að kynnast og starfa með.
    En meiri hluti flugráðs samþykkti þessi drög eins og þau voru unnin af starfsmönnum Flugmálastjórnar. Ég tel að málið hafi þróast með jákvæðum hætti og þessi tillaga til þál. sé betri en þau drög sem afgreidd voru í flugráði á sínum tíma og að mínum dómi er það tvímælalaust til bóta að skipta einungis til tveggja ára með tilliti til þeirrar forvinnu sem unnin hafði verið að málinu.
    Ég óska nýjum flugmálastjóra heilla í starfi. Ég þekki hann að víðtækri þekkingu á flugmálum og vona að honum takist að stýra flugmálum á Íslandi farsællega á sínum embættisferli og ég vonast eftir að sjá skynsamlegar tillögur frá Flugmálastjórn um skiptingu á verkefni á árunum 1994 og 1995.