Greiðslur úr ríkissjóði

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 15:52:47 (6249)



     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, enda gerist þess ekki þörf. Um málið hefur verið fjallað ítarlega af hálfu 1. flm. Ég ætla aðeins þó að þakka þá umfjöllun sem málið hefur hér hlotið í þessari umræðu. Mér fannst aðeins að eitt atriði í máli hv. 8. þm. Reykn. væri honum ekki alveg nægilega ljóst. Hann spurði nokkuð ítrekað út í það, en það varðar 2. gr. frv. Ég hygg að því sé best svarað með því í fyrsta lagi að lesa greinina sjálfa sem skiptist í tvær málsgreinar. Fyrri mgr., sem er aðalregla, hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Óheimilt er að auka launa- og rekstrarkostnað ríkisins umfram það sem ákveðið er í fjárlögum nema að fenginni heimild í fjáraukalögum.``
    Síðan kemur seinni mgr. og í henni felst viss undantekning og hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nú eru gerðir kjarasamningar sem kveða á um frekari launaútgjöld ríkisins en fjárlög gera ráð fyrir og skal þá svo fljótt sem verða má leita heimilda Alþingis til slíkra útgjalda með fjáraukalögum. Launagreiðslum skal þó haga í samræmi við hina nýju kjarasamninga.``
    Þetta er skýrt í athugasemdum við einstakar greinar frv. m.a. á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin er sá aðili sem mótar efnahagsstefnu á hverjum tíma og ber henni því jafnan að tryggja að gerð kjarasamninga verði innan rýmilegra marka. Ekki er talið skynsamlegt að takmarka umboð fjmrh. til kjarasamningagerðar með samþykki Alþingis fyrir fram. Bent skal á að kjarasamningar við félög opinberra starfsmanna eru nú á annað hundrað.
    Kjarasamningar eru jafnan á ábyrgð fjmrh. með hliðsjón af þeim efnahagsforsendum sem blasa við

á hverjum tíma og tengjast því oft gerð annarra kjarasamninga á vinnumarkaðinum. Gerð þeirra raskar iðulega launa- og verðlagsforsendum fjárlaga, enda fellur samningagerðin ekki nauðsynlega að gerð fjárlaganna í tíma. Samkvæmt ákvörðun Alþingis fer fjmrh. með samningavaldið fyrir hönd ríkisins. Ákvæði sem takmarkar vald fjmrh. til að gera kjarasamninga gæti valdið erfiðleikum við samningagerð einkum ef ráðherra er ekki talinn hafa fullt umboð til samninganna. Því er hér litið svo á að fjmrh. þurfi að hafa óskorað vald til þess að gera kjarasamninga en sú skylda er lögð á hann að leita nauðsynlegra fjárheimilda í fjárlögum og fjáraukalögum til greiðslu í samræmi við gerða kjarasamninga.``
    Samkvæmt þessum útskýringum sýnist mér það liggja alveg í augum uppi, enda er það sú hugsun sem liggur að baki öllum þessum texta, að fjmrh. hafi óskorað vald til að gera kjarasamninga og greiða í samræmi við þá laun og aðrar greiðslur sem um kann að vera samið, en honum er skylt svo fljótt sem verða má, og menn geta sagt að það sé að einhverju leyti þó teygjanlegt, að leita heimildar Alþingis í fjáraukalögum fyrir auknum útgjöldum. Í þeim fjáraukalögum gæti auðvitað verið unnt að mæta auknum launagreiðslum með niðurskurði á öðrum þáttum útgjalda ríkisins, en um það er ekki nánar fjallað í þessum texta.
    Ég vona að þetta, sem ég hef hér lesið upp skýri það algerlega fyrir hv. þm. og öðrum hvað hér er átt við.