Greiðslur úr ríkissjóði

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 15:57:48 (6250)



     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta svar var í sjálfu sér nokkuð skýrt. Ég vil þó aðeins benda á til viðbótar að það eru ýmsar aðrar greiðslur en launagreiðslur sem tengjast kjarasamningum eins og fjölmörg dæmi eru um og ef ætlunin er að þessi heimild fjmrh. til að hefja samninginn og taka hann í gildi þá þegar sé fyrir hendi, þá þarf auðvitað að breyta orðalagi í greininni á þann veg að launagreiðslum og öðrum greiðslum skal þó haga í samræmi við samninginn því að í texta greinarinnar er eingöngu vikið að launagreiðslum. En hitt kemur svo alveg skýrt fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni að fjmrh. þarf að koma til Alþingis með þann þátt kjarasamningsins sem felur í sér viðbótargreiðslur og bera hann upp til samþykktar á Alþingi gegnum fjáraukalög. Það er ný skipan sem ekki hefur verið í gildi áður og ég tel alveg nauðsynlegt að samningsaðilar ríkisins, BSRB, Kennarasamband Íslands, BHMR og aðrir, geri sér fulla grein fyrir því hvað í þessu frv. felst og mælist til þess við þá nefnd sem fær frv. til athugunar að hún kalli þessa meginsamningsaðila ríkisins til sín og geri þeim grein fyrir þessum breytingum svo að hún birtist þeim ekki eftir á, eftir að þingið hefur gengið frá henni.