Greiðslur úr ríkissjóði

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 15:59:30 (6251)



     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fram kom í máli mínu áðan: Í fyrsta lagi hefur fjmrh. óskoraða heimild til að gera kjarasamninga og frumvarpstextinn kveður á um að greitt sé samkvæmt hinum nýju kjarasamningum. Það hlýtur og að taka til annarra atriða en launa sem samið er um. Hitt er hins vegar skylt af hálfu fjmrh. að leita heimildar Alþingis eftir á og það mun ekki raska kjarasamningunum, en í fjáraukalögunum gæti verið um breytileika að ræða hvernig áhrifum af auknum útgjöldum yrði mætt, annað tveggja með því að auka útgjöld ríkisins í það heila tekið eða mæta að einhverju leyti með niðurskurði á öðrum sviðum. Þetta er alveg skýrt og ekki settir í nokkra hættu þeir kjarasamningar eða hagsmunir launþegasamtakanna sem í hlut eiga.